Donald Trump Bandaríkjaforseti hlýtur að teljast maður ársins. Hann hefur átt sviðið allt árið 2025, og sálfræðingar ræða jafnvel í alvöru um Trump-heilkennið.
Í stað þess að bölsótast yfir Trump fer þó best á því að reyna að skýra framgang hans. Ein ástæðan er andstæðingarnir. Lýðræðisflokkurinn (Demókratar) hefur færst langt til vinstri undir forystu háskólafólks og opinberra starfsmanna. En venjulegt fólk er ekki hrifið af því, að innflytjendur frá Sómalíu eða Mið-Ameríku lifi á kostnað skattgreiðenda í stað þess að vinna fyrir sér. Það er andvígt linkind við glæpamenn. Íþróttakonur vilja ekki, að karlar geti nýtt sér líkamlegt forskot sitt, skilgreint sig sem konur og hirt öll verðlaun. Konur vilja líka geta farið í sund og brugðið sér á snyrtiherbergi, án þess að öfuguggar glápi á þær, af því að þeir segist vera konur.
Bandarískir skattgreiðendur taka undir það með Trump, að Evrópuríkin eigi sjálf að kosta varnir sínar í stað þess að treysta á Bandaríkin. Þeir sjá enga ástæðu heldur til að ausa fé í alþjóðastofnanir, sem gera lítið annað en vinna gegn hagsmunum Bandaríkjanna.
Ég er ósammála Trump um ýmislegt. Þótt skynsamlegt sé að reyna að kljúfa Rússland frá Kínaveldi, er ástæðulaust að loka augum fyrir harðstjórn Pútíns. Og tollverndarstefna er beinlínis röng. Rök Adams Smiths fyrir verkaskiptingu og frjálsum alþjóðaviðskiptum standa. En Trump talar fyrir þá, sem ekki hefur verið hlustað á, af því að þeir kunna ekki tungutak hinnar hefðbundnu valdastéttar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. janúar 2025.)

Rita ummæli