Laugardagur 03.01.2026 - 15:43 - Rita ummæli

Maður ársins

Donald Trump Bandaríkjaforseti hlýtur að teljast maður ársins. Hann hefur átt sviðið allt árið 2025, og sálfræðingar ræða jafnvel í alvöru um Trump-heilkennið.
Í stað þess að bölsótast yfir Trump fer þó best á því að reyna að skýra framgang hans. Ein ástæðan er andstæðingarnir. Lýðræðisflokkurinn (Demókratar) hefur færst langt til vinstri undir forystu háskólafólks og opinberra starfsmanna. En venjulegt fólk er ekki hrifið af því, að innflytjendur frá Sómalíu eða Mið-Ameríku lifi á kostnað skattgreiðenda í stað þess að vinna fyrir sér. Það er andvígt linkind við glæpamenn. Íþróttakonur vilja ekki, að karlar geti nýtt sér líkamlegt forskot sitt, skilgreint sig sem konur og hirt öll verðlaun. Konur vilja líka geta farið í sund og brugðið sér á snyrtiherbergi, án þess að öfuguggar glápi á þær, af því að þeir segist vera konur.
Bandarískir skattgreiðendur taka undir það með Trump, að Evrópuríkin eigi sjálf að kosta varnir sínar í stað þess að treysta á Bandaríkin. Þeir sjá enga ástæðu heldur til að ausa fé í alþjóðastofnanir, sem gera lítið annað en vinna gegn hagsmunum Bandaríkjanna.
Ég er ósammála Trump um ýmislegt. Þótt skynsamlegt sé að reyna að kljúfa Rússland frá Kínaveldi, er ástæðulaust að loka augum fyrir harðstjórn Pútíns. Og tollverndarstefna er beinlínis röng. Rök Adams Smiths fyrir verkaskiptingu og frjálsum alþjóðaviðskiptum standa. En Trump talar fyrir þá, sem ekki hefur verið hlustað á, af því að þeir kunna ekki tungutak hinnar hefðbundnu valdastéttar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. janúar 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir