Getur íslam farið saman við einstaklingsfrelsi? Mont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálshyggjumanna, og um þetta var rætt á ráðstefnu þeirra í Marrakesh í Marokkó 7.–10. október 2025. Ekki skal vitna beint í ræðumenn á fundum samtakanna, en ég get sagt frá eigin brjósti, að ég tel reginmun á höfundum og sögulegri þróun kristni og íslams. Kristur var sonur Guðs, gekk um í síðum, hvítum kyrtli og boðaði kærleika, fyrirgefningu og auðmýkt. Múhameð var í senn spámaður og hermaður, sem þeysti um á fáki og sveiflaði sverði. Í kristni varð í langri baráttu keisara og páfa til skýr aðgreining veraldlegs og andlegs valds, en í íslam er slík aðgreining vart finnanleg nema helst í Tyrklandi í valdatíð Mústafa Kemals.
Svarið við spurningunni hlýtur þó að vera já. Í kóraninum gætir sums staðar frjálslyndis, annars staðar stjórnlyndis, eins og í biblíunni. Hitt er annað mál, að vestræn gildi hafa ekki þrifist vel í múslimalöndum, eins og fram kom á ráðstefnunni. Til dæmis teljast 55% ríkja heims lýðræðisríki, en aðeins 12% múslimalanda.
Múslimar mælast líka talsvert stjórnlyndari en kristnir menn. Í gildakönnun í 115 löndum á fjörutíu árum, 1981–2020 (samtenging World Values Survey og European Values Study), voru múslimar, mótmælendur, rómversk-kaþólskir menn og grísk-kaþólskir spurðir ýmissa spurninga. Ein var, hvort væri mikilvægara hlutverk ríkisins, að halda uppi reglu eða virða frelsi. Múslimar skáru sig úr: Flestir þeirra töldu mikilvægara að halda uppi reglu. Önnur spurning var, hvort fyrirtæki ættu að vera í eigu einstaklinga eða ríkisins. Enn skáru múslimar sig úr. Langflestir þeirra töldu fyrirtæki betur komin í eigu ríkisins. Þriðja spurningin var, hvort menn vildu aðeins leyfa eigin trúarbrögð. Múslimar töldu miklu fremur en kristnir menn, að svo ætti að vera.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. nóvember 2025.)

Rita ummæli