Hátíðarkvöldverður Þjóðmála árið 2025 var haldinn í Hvalasafninu úti á Granda 20. nóvember, og ávarpaði ég samkomuna. Kvaðst ég kunna vel við mig innan um hvalina, því að ég hefði tekið upp þeirra sið. Ég dveldist á Íslandi á sumrin og á suðlægum slóðum á veturna. Ég sagðist eiga marga nafna á Íslandi, því að nöfnin Hannes, Jón, Jóhann og Jóhannes eru öll afbrigði sama nafns. Tveir nafnar mínir hefðu ort snjallar vísur um daginn og kvöldið. Vísan um daginn væri eftir Jón Helgason prófessor og eins og töluð út úr mínu hjarta:
Á himni ljómar dagsins gullna rönd.
Sú gjöf mér væri gleðilegust send,
að góður vinnudagur færi í hönd.
Þegar húmar, er vinnudagurinn á enda. Vísan um kvöldið væri eftir Hannes Hafstein ráðherra og ætti vel við í þessum hátíðarkvöldverði:
dauðinn þess borgun.
Drekkum í kvöld,
iðrumst á morgun.
Raunar er lífsspeki í þessari vísu ekki síður en þeirri, sem Jón Helgason orti, enda táknar gamansemi ekki afsal neinnar alvöru. Lífið er stutt og best að reyna að njóta þess. Því væri þó ekki að neita, sagði ég í ávarpinu, að stundum fylgdu drykkjunni timburmenn, en þá rifjaði ég upp, að góður vinur minn, Jón E. Ragnarsson hæstaréttarlögmaður, hefði sagt, að menn ættu ekki að gefa timburmönnunum neitt færi á sér. Jón var manna skemmtilegastur, en dró ekki af sér við drykkju.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. desember 2025.)

Rita ummæli