Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:18 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (3)

Nýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu íslenska bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, þótt ég sé ekki að reyna að endurskrifa söguna, heldur hafa það, sem sannara reynist. Hér skal ég benda á fjórar mikilvægar staðreyndir um bankahrunið, sem ég hef bent á, en aðrir leitt hjá sér, þar á meðal dr. Gylfi.
Fyrsta staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti ekki að beita hryðjuverkalögum til að koma í veg fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. Þegar hafði verið girt fyrir þann möguleika með tilskipun Breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans 3. október 2008, þar sem bankanum var bannað að flytja fé úr landi nema með skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins og þriggja daga fyrirvara. (Það reyndist ekki heldur vera fótur fyrir ásökunum um ólöglega fjármagnsflutninga Kaupþings til Íslands, enda þagnaði allt tal um það skyndilega.)
Önnur staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins braut samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þegar hún bjargaði öllum breskum bönkum öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Með því mismunaði stjórnin eftir þjóðerni, sem var bannað samkvæmt samningnum og líka Rómarsáttmálanum. Furðu sætir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli ekki hafa gert athugasemd við þetta.
Þriðja staðreyndin er, að þessir tveir bankar, Heritable og KSF, sem bresk stjórnvöld lokuðu, um leið og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum, reyndust eiga fyrir skuldum, þegar upp var staðið. Svo virðist sem sumir aðrir breskir bankar, sem fengu aðstoð, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland, hafi hins vegar ekki átt fyrir skuldum, þótt kapp sé lagt á að fela tapið og fresta uppgjörum.
Fjórða staðreyndin er, að íslensku bankarnir gerðust ekki sekir um nærri því eins alvarleg brot og til dæmis Danske Bank, sem varð uppvís að stórkostlegu peningaþvætti, og RBS, sem tók þátt í ólöglegri hagræðingu vaxta á millibankamarkaði. Það er kaldhæðni örlaganna, að Danske Bank og RBS hefðu báðir fallið haustið 2008, hefðu þeir ekki fengið lausafjáraðstoð frá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:18 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (2)

Í nýlegri grein í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, kveður dr. Gylfa Zoëga marga reyna að endurrita sögu bankahrunsins. Með þessum „mörgu“ á hann við mig. En málið snýst ekki um að endurrita neina sögu, heldur hafa það, sem sannara reynist. Gylfi styðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Á henni eru margir annmarkar. Einn er, að nefndin yfirheyrði menn ekki í heyranda hljóði eins og rannsóknarnefndir í Bretlandi og Bandaríkjunum gera. Eðlilegt hefði verið að sjónvarpa beint frá yfirheyrslunum. Þess í stað valdi nefndin sjálf úr það, sem hún taldi eiga erindi í skýrslu sína. Stakk hún ýmsu forvitnilegu undir stól.

Annar annmarki er, að nefndin einblíndi á innlenda þætti bankahrunsins, sem vissulega voru mikilvægir, en setti það ekki í alþjóðlegt samhengi. Það var hörð fjármálakreppa í heiminum, sem skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum löndum.

Þriðji annmarkinn er, að nefndin veitti ófullkomna skýringu á bankahruninu. Hún sagði bankana hafa fallið, því að þeir hefðu verið of stórir. Röklega er þessi skýring svipuð þeirri, að gler brotni, af því að það sé brothætt, eða ópíum svæfi vegna svæfingarmáttar síns. Stærðin var nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði fyrir bankahruninu. Svissnesku bankarnir hrundu ekki, og var stærð þeirra þó tíföld landsframleiðsla. Samkvæmt útreikningum dr. Gylfa sjálfs var stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun þess um 7,8-föld landsframleiðsla.

Fjórði annmarkinn á skýrslu nefndarinnar er, að hún vildi sefa almenning með því að leita uppi sökudólga í hópi ráðamanna, en fann enga (þótt gagnrýni hennar á bankamenn væri um margt réttmæt). Þess vegna skapaði nefndin sökudólga með því að víkka út vanræksluhugtak gildandi laga, svo að hún gæti sakað sjö ráðamenn um vanrækslu. Lögfræðingarnir í nefndinni, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, vissu, hvað þeir voru að gera. Þeir tóku ætíð fram, að vanrækslan væri í skilningi laganna um nefndina, sem sett voru eftir bankahrunið. Til þess að sefa almenning beittu þeir lögum afturvirkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:17 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (1)

Dr. Gylfi Zoëga prófessor birti nýlega grein um bankahrunið í málgagni íslenskra vinstriöfgamanna, Heimildinni. Þar segir hann marga hafa reynt að skrifa söguna upp á nýtt. Þeir haldi því fram, að hið sama hafi gerst erlendis og hér á landi, að Bretar og Hollendingar hafi komið illa fram við okkur og að innlend stjórnvöld hafi staðið sig vel eftir bankahrunið. Hann telur sannleikskorn í þessum þremur skoðunum, en aðalatriðið sé að koma í veg fyrir nýtt bankahrun.
Taleb_mugLíklega á ég að taka sneiðina til mín. En ég hef ekki reynt að skrifa söguna upp á nýtt, heldur hafa það, sem sannara reynist. Ég held, að bankahrunið hafi orðið fyrir samverkan margra ólíkra þátta, sem af ýmsum ástæðum toguðu allir í sömu átt. Þetta hafi verið „svartur svanur“, eins og Nassim Taleb kallar það: mikill, óvæntur og ólíklegur atburður, sem verður ekki fyrirsjáanlegur, fyrr en hann er orðinn. Eins og skáldið sagði: Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.
Þessir þættir voru: 1) Eigendur bankanna höfðu tekið lán fyrir hlutabréfum sínum og sáu verðmæti þeirra snarminnka í kreppunni frá hausti 2007. 2) Íslendingar höfðu komið sér út úr húsi í Danmörku, og Danske Bank vann gegn þeim. 3) Eigendur bankanna nutu lítils trausts erlendis. 4) Vogunarsjóðir veðjuðu óspart gegn bönkunum. 5) Seðlabankar G-10 ríkjanna sammæltust um það í maí 2008 að veita Íslandi ekki lausafjáraðstoð. 6) Innlánasöfnun bankanna erlendis mæltist illa fyrir. 7) Seðlabanki Evrópu krafðist betri trygginga en bankarnir gátu veitt. 8) Bandaríkin skeyttu engu um örlög Íslands. 9) Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta voru báðir Skotar og vildu sýna kjósendum sínum, að sjálfstæði væri varhugavert. 10) Lehman Brothers féll, skömmu áður en stórt lán Glitnis var á gjalddaga, svo að kreppan harðnaði og bankinn gat ekki útvegað sér fé. 11) Kaup ríkisins á Glitni mistókust, ekki síst þegar aðaleigendurnir fóru í herferð gegn þeim. Traustið minnkaði í stað þess að aukast. 12) Samfylkingin var höfuðlaus her, því að formaður hennar lá á sjúkrahúsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:16 - Rita ummæli

Ný sýn á gömul deilumál

Árið 2023 fór ég víða og hlustaði á marga fyrirlestra. Tveir voru fróðlegastir. Prófessor David D. Friedman, sem lauk doktorsprófi í eðlisfræði, en hefur löngum starfað sem hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Lissabon í apríl. Hann miðar rökræðunnar vegna við spálíkön milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar, en reynir að bera saman kostnað og ábata af hinni hugsanlegu hlýnun. Niðurstaða hans er, að erfitt sé eða ókleift að sýna fram á, að kostnaðurinn verði meiri en ábatinn. Fróðlegt var að hlusta á hann fara yfir málið og vitaskuld forvitnilegt að gera þennan samanburð, en einblína ekki á aðra hliðina.

Phil Gramm, sem var lengi bandarískur öldungadeildarþingmaður, en þar á undan hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Bretton Woods í nóvember. Hann leiðir rök að því, að tölur frá bandarísku hagstofunni um tekjudreifingu veiti ekki rétta mynd af kjörum Bandaríkjamanna. Ólíkt því sem gerist víðast annars staðar séu tekjurnar ekki ráðstöfunartekjur, reiknaðar eftir skatta og bætur. Skattar lenda af miklu meiri þunga á tekjuháu fólki, en bætur renna í miklu meira mæli til tekjulágs fólks. Þegar tekið er tillit til þess, verður tekjudreifingin miklu jafnari. Gramm bendir á, að heildarneysla tekjulægsta hópsins samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar nemi um tvöföldum heildartekjum hans fyrir skatta og bætur.

Gramm segir, að samkvæmt nýjustu opinberum tölum séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins í Bandaríkjunum um 17-faldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. En bilið minnkar stórkostlega, eftir að reiknað hefur verið með sköttum og bótum. Þá séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins um fjórfaldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. Gramm heldur því fram, að í raun hafi fátækt minnkað í Bandaríkjunum síðustu áratugi og tekjudreifing orðið jafnari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:12 - Rita ummæli

Rannsóknarskýrsla mín 2023

Ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun

The Icelandic Sagas. Collection of Four Short Sagas. Almenna bókafélagið, Reykjavík 2023. Útdráttur á ensku úr The Saga of Burnt Njal (Brennu-Njáls saga), 48 bls., The Saga of Gudrid (Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga), 42 bls., The Saga of Egil (Egils saga), 35 bls., og The Saga of Gudrun (Laxdæla), 34 bls. Ásamt stuttum inngangi að hverri sögu. Sögurnar fjórar eru settar saman í eina öskju.

Nordic Liberalism. An Anthology. Ritstjórn og inngangur. Brussels: New Direction [lokið 2023, væntanlegt í ársbyrjun 2024].

European Conservative Liberalism: North and South. Brussels: ECR, European Conservatives and Reformists [lokið 2023, væntanlegt í ársbyrjun 2024].

Ritrýnt útgáfa fyrir staðbundið fræðasamfélag

Rætur frelsisins. Greinasafn. Reykjavík: Almenna bókafélagið [lokið 2023, væntanlegt í ársbyrjun 2024].

Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð. Reykjavík: Almenna bókafélagið [lokið 2023, væntanlegt í ársbyrjun 2024].

Erindi á alþjóðlegum ráðstefnum

European Culture from a Conservative-Liberal Point of View. Erindi á menningarhelgi ECR, European Conservatives and Reformists, í Split í Króatíu 31. mars–1. apríl 2023.

Reforming the European Union. Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu European Resource Bank 14.–16. apríl 2023 í Porto í Portúgal.

Champions of Liberty: Hannes H. Gissurarson. Dagskrá helguð mér í tilefni sjötugsafmælis míns á 600 manna alþjóðlegri ráðstefnu, European Students for Liberty, í Lissabon 23. apríl 2023.

Lokaorð á alþjóðlegri ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands mér til heiðurs 12. maí 2023.

Can liberals and conservatives still get along? Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu New Direction og annarra rannsóknastofnana í Madrid 21.–22. september 2023.

Erindi á málstofum og fundum

The Conservative-Liberal Approach to Some Current Problems. Erindi á ráðstefnu ECR í Lundúnum 14. janúar 2023.

Landsdómsmálið. Erindi á ráðstefnu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála 16. janúar 2023.

Towards a better future. Erindi á málstofu, Free Market Road Show og University of Bristol Liberty Society, í Bristol-háskóla 17. apríl 2023.

The Role of Entrepreneurs and Venture Capitalists in the Free Market Order. Erindi á málstofu, Free Market Road Show, Cobden Centre og Ayn Rand Centre, London 18. apríl 2023.

Piketty and Redistribution: A Critique. Erindi á málstofu, Free Market Road Show og IREF (Institute of Research in Economic and Fiscla Issues), í Sorbonne-háskóla, París 19. apríl 2023.

Rawls and Redistribution: A Critique. Erindi á málstofu, Free Market Road Show og Neederlands Instituut voor Praxeologie, Amsterdam 20. apríl 2023.

Nordic Conservatism in a European Perspective. Erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta í Helsinki 20. maí 2023.

Nordic Conservatism. Erindi á sumarskóla New Direction, Oikos og Konservativa förbundet í Sundbyholm-höll 16.–18. júní 2023.

Greinar í ritrýndum tímaritum

The 1941 Hoff-Frisch Correspondence. Þýðing á ensku ásamt inngangi á bréfaskiptum dr. Trygve Hoff og prófessors Ragnars Frisch árið 1941 á norsku um sósíalisma. Samþ. til útgáfu í Econ Watch Journal.

The Impeachment of Geir H. Haarde, Part I: Political Machinations and Legal Manoeuvres. The European Conservative, May 2023.

The Impeachment of Geir H. Haarde, Part II: A Flawed and Biased Process. The European Conservative, May 2023.

The Impeachment of Geir H. Haarde, Part III: Conclusions. The European Conservative, May 2023.

Vísindamiðslun á fagsviði starfsmanns

1. Ég skrifaði fastan dálk í veftímaritið The Conservative:

Conservatives and Classical Liberals: Natural Allies. European Diary: The Escorial, June 2021. The Conservative 20. október 2023.

The Right Responses to the Left. European Diary: Lisbon, September 2021. The Conservative 23. október 2023.

Balzac Refutes Piketty. European Diary: Paris, October 2021. The Conservative 27. október 2023.

Vices, Not Crimes. European Diary: Akureyri, October 2021. The Conservative 27. október 2023.

The City of His Dreams. European Diary: Vienna, November 2021. The Conservative 12. nóvember 2023.

Poland’s Road from Communism. European Diary: Warsaw, November 2021. The Conservative 26. nóvember 2023.

Commercial Society Creates, Not Only Dissolves. European Diary: Budapest, November 2021. The Conservative 26. nóvember 2023.

Snorri Sturluson as a Conservative Liberal. European Diary: Reykjavik, December 2021. The Conservative 26. nóvember 2023.

When Prometheus Becomes Procrustes. European Diary: Prague, November 2021. The Conservative 26. nóvember 2023.

Threats to Digital Freedom. European Diary: Rome, December 2021. The Conservative, 8. desember 2023.

Small States Feasible, Efficient, and Desirable. European Diary: Ljubljana, May 2022. The Conservative 14. desember 2023.

Catholicism and Capitalism Are Compatible. European Diary: Zagreb, May 2022. The Conservative 16. desember 2023.

An Early Critic of Unlimited Government. European Diary: Reykholt, April 2022. The Conservative 8. desember 2023.

Make Trade, Not War. European Diary: Sarajevo, May 2022. The Conservative 28. desember 2023.

Liberty Made Inspiring Again. European Diary: Belgrade, May 2022. The Conservative 30. desember 2023.

2. Ég skrifaði þrjár langar greinar í Morgunblaðið:

Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar. Morgunblaðið 17. janúar 2023.

Afareglan um aflahlutdeild. Morgunblaðið 19. október 2023.

Adam Smith enn í fullu fjöri! Morgunblaðið 5. desember 2023.

3. Ég skrifaði fastan dálk í Morgunblaðið:

Ne bid in idem. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. janúar 2023.

In dubio, pars mitior est sequenda. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. janúar 2023.

Tveir fróðlegir fundir. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. janúar 2023.

Atvik úr bankahruninu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.

Lundúnir, janúar 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. febrúar 2023.

Reykjavík, janúar 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. febrúar 2023.

Sjötugur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. febrúar 2023.

Stighækkandi tekjuskattur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Refsað fyrir ráðdeild? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. mars 2023.

Sögulegar deilur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. mars 2023.

Níðvísan þjónaði tilgangi. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. mars 2023.

Landsfeður, leiðtogar, fræðarar, þjóðskáld. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. mars 2023.

Danskur þjóðarandi. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. apríl 2023.

Split, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. apríl 2023.

Ný sýn á gamalt mál. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.

Höfn, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. apríl 2023.

Brúarstæði, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.

Lundúnir, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. maí 2023.

París, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. maí 2023.

Óhappamenn frekar en friðflytjendur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. maí 2023.

Lissabon, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. maí 2023.

Fólksfjölgun og hlýnun jarðar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2023.

Amsterdam, apríl 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2023.

Helsinki, maí 2021. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júní 2023.

Eskilstuna, júní 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2023.

Jórvík, júní 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2023.

Westminster-höll, júní 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2023.

Norræna leiðin: Montesquieu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.

Norræna leiðin: Molesworth. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.

Undrunarefni Sigurðar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2023.

Þrír norrænir spekingar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.

Gamansemi Grundtvigs um Íslendinga. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.

Upprifjun um alræmdan sjónvarpsþátt. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. september 2023.

Norrænar lausnir. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2023.

Mælanleg mistök. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. september 2023.

Tvenn örlagarík mistök. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. september 2023.

Dráp Kambans. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. september 2023.

Hitt drápið. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2023.

Tilveruréttur Ísraels. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. október 2023.

Eru Palestínumenn þjóð? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. október 2023.

Jafnaðarmerkið á ekki við. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. október 2023.

Lýðræðisumræðurnar í Danmörku. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. nóvember 2023.

Madrid, september 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.

Hugtökin nýlendustefna og þjóðarmorð. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. nóvember 2023.

Öfgamúslimar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. nóvember 2019.

Bretton Woods, nóvember 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. desember 2023.

Nýja Jórvík, nóvember 2023. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.

Gyðingahatur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2023.

Jólasveinarnir. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2023.

Hvað olli synjuninni? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2023.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2024 - 06:10 - Rita ummæli

Hvað olli synjuninni?

Í greinargerð, sem ég tók saman fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið 2008, reyndi ég að skýra, hvers vegna Íslendingum var þá alls staðar synjað um lausafjárfyrirgreiðslu nema í norrænu seðlabönkunum þremur. Jafnframt gengu bresk stjórnvöld hart fram gegn Íslendingum. Miklu hefði breytt, hefði seðlabankinn íslenski getað tilkynnt, að hann hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska og evrópska seðlabankann, til dæmis upp á tíu milljarða Bandaríkjadala. Spákaupmenn hefðu þá varla haldið áfram að veðja á fall bankanna og lækkun krónunnar.

Skýringar mínar voru margvíslegar. Bandaríkjamenn höfðu misst áhugann á Íslandi, eftir að landið hætti að vera hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum. Bresku stjórnmálamennirnir Gordon Brown og Alasdair Darling vildu sýna skoskum kjósendum sínum, að sjálfstæði í peningamálum væri varasamt. Evrópskir seðlabankamenn töldu íslensku bankana fjárfrekar boðflennur á evrópskum mörkuðum og ógna innstæðutryggingakerfi Evrópulanda. Raunar hefur síðan komið í ljós, að sumir þeir bankar, sem bjargað var með lausafjárfyrirgreiðslu í fjármálakreppunni 2008, voru verr staddir fjárhagslega en íslensku bankarnir og með ýmislegt á samviskunni (peningaþvætti og vaxtasvik), til dæmis RBS í Skotlandi, UBS í Svisslandi og Danske Bank.

Í grúski mínu rakst ég nýlega á enn eina hugsanlega skýringu á fjandskap evrópskra seðlabankamanna í garð Íslendinga. Á fundi Evrópuþingsins 13. janúar 2009 var þess minnst, að tíu ár voru frá upptöku evrunnar. David Corbett, leiðtogi breskra jafnaðarmanna á þinginu, sagði við það tækifæri: „Evran hefur verið stöðug eins og klettur, og má hafa til marks um það misjafnt hlutskipti Íslands og Írlands.“ Vildi evrópski seðlabankinn ef til vill sýna, hvað það gæti kostað að standa utan evrusvæðisins?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.12.2023 - 09:24 - Rita ummæli

Jólasveinarnir

Hvers vegna eru íslensku jólasveinarnir þrettán svo gerólíkir jólasveininum alþjóðlega, góðlega, rauðklædda og hvítskeggjaða, sem fer með himinskautum og gefur þægum börnum gjafir? Íslensku jólasveinarnir eru hrekkjóttir og þjófóttir og koma ofan úr fjöllum, einn af öðrum, og móðir þeirra, Grýla, á það til að éta óþæg börn. Alþjóðlegi jólasveinninn er hins vegar ættaður frá heilögum Nikulási, sem var biskup í borginni Myra í Rómarríki, nú Demre í Tyrklandi. Hann var uppi á fjórðu öld eftir Krist og kunnur að gjafmildi og örlæti. Nafn hans afbakaðist í Sinterklaas í hollensku og Santa Claus á ensku (Papa Noel á portúgölsku).

Ég leyfi mér að setja fram þá tilgátu, sem getur ekki verið frumleg, að munurinn stafi af gerð og björgum þjóðskipulagsins. Allir þeir, sem gætt hafa ungra barna, vita, hversu erfitt er að fá þau til að hlýða boðum og bönnum, svo að þau hlaupi ekki þangað, sem hættur leynast. Þá þarf ýmist að veifa framan í þau vendinum eða gulrótinni, óttanum eða voninni. Ísland er land djúpra dala, hárra fjalla, margra mánaða myrkurs og hættulegra lækja, fljóta og vatna. Allt var opið, engar girðingar sem heitið gæti. Hætt var við, að börn færu sér að voða nálægt sveitabæjum í skammdeginu. Þess vegna voru þeim sagðar sögur til að hræða þau til gætni, og þær voru af Grýlu og jólasveinunum, sem gæti hrifsað burt allt góðgætið til jólanna, hámað í sig skyr, krækt sér í bjúgu og hangikjötslæri. Þau yrðu að haga sér vel, fara ekki út fyrir túnfótinn, hlýða, svo að þau færu ekki í jólaköttinn.

Úti í Norðurálfunni mátti hins vegar beita voninni sem stýritæki í stað óttans. Þegar börnin höguðu sér vel, þá gátu þau treyst því, að jólasveinninn kæmi með gjafir handa þeim. Flest lönd Norðurálfunnar voru miklu ríkari en Ísland, þar var bjartara í jólamánuðinum og auðveldara fyrir foreldra að fylgjast með börnum sínum. En hér á Íslandi útrýmdi rafmagnið myrkrinu og flest börn komast ekki út fyrir girðingar. Þess vegna á alþjóðlegi jólasveinninn miklu betur við nú. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir þrettán eru fyrirbæri liðinnar tíðar. Vonin um gjafir fyrir hlýðni er áhrifameiri en óttinn við Grýlu og jólasveinina þrettán.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.12.2023 - 09:24 - Rita ummæli

Gyðingahatur

Einfaldasta skilgreiningin á Gyðingahatri er, þegar lagður er allt annar mælikvarði á Gyðinga en aðra jarðarbúa, svo að þeim leyfist ekki að verja sig af sömu hörku og öðrum. Dæmigerð eru ofsafengin viðbrögð við því, þegar Ísraelar svöruðu villimannslegri árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á þá frá Gaza 7. október 2023 með gagnárás í því skyni að stöðva hryðjuverk Hamas. Hvað áttu Ísraelar að gera? „Ef Arabar leggja niður vopn, þá verður friður. Ef Ísraelar leggja niður vopn, þá verður Ísrael útrýmt,“ sagði Golda Meir. Tvær milljónir Araba eru ríkisborgarar í Ísrael og njóta þar fullra réttinda.

Íslensk tónskáld vilja, að Ísraelar sæti sömu meðferð og Rússar í alþjóðlegri söngvakeppni. En munurinn er sá, að Rússar réðust á Úkraínu, en Hamas á Ísrael. Hér er lagður allt annar mælikvarði á Ísraela en Rússa. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru Gyðingar. Horft er síðan fram hjá því, að erfitt er að gera greinarmun á Palestínumönnum á Gaza og Hamas. Þeir kusu yfir sig Hamas og virðast flestir styðja þessi viðbjóðslegu hryðjuverkasamtök, sem hafa það yfirlýsta markmið að útrýma Ísrael. Ekkert tillit er heldur tekið til þess, að Hamas skýtur sífellt eldflaugum á óbreytta borgara í Ísrael, tók gísla í árásinni 7. október og notar eigin konur og börn sem lifandi skildi. Hamas ber ábyrgð á því, þegar konur og börn falla í Gaza. Hvers vegna beinist reiðin ekki að þeim? Vegna þess að þeir eru ekki Gyðingar.

Gyðingar hafa alltaf skorið sig úr. Í Rómarveldi voru þeir ofsóttir, af því að þeir trúðu á einn Guð og þvertóku fyrir að dýrka keisarana. Á miðöldum kenndu sumir kristnir menn Gyðingum um krossfestingu Krists, og skyldu syndir feðranna koma niður á börnunum. Nú á dögum virðist helsta skýringin á Gyðingahatri vera, að þeir skara fram úr. 214 Gyðingar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í vísindum, þrír Arabar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.12.2023 - 09:23 - Rita ummæli

Nýja Jórvík, nóvember 2023

Fyrst kynntist ég Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð mér og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sótti ég hann. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.12.2023 - 14:44 - Rita ummæli

Adam Smith enn í fullu fjöri!

Adam-Smith-s-monumentÞótt á þessu ári séu liðin rétt þrjú hundruð ár frá því, að Adam Smith, faðir hagfræðinnar, fæddist, eru hugmyndir hans enn sprelllifandi. Það er þess vegna fagnaðarefni, að hagfræðideild Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, skuli hafa fengið einn helsta sérfræðing heims í kenningum Smiths, Prófessor Craig Smith, til að halda fyrirlestur í hátíðarsal Háskólans miðvikudaginn 6. desember kl. 16.20. Hér ætla ég af því tilefni að segja örfá orð um tvær öflugustu hugmyndir Smiths, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap og að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda.

Gróði án taps

Í Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, varpaði Smith fram skýringu á því, hvernig einstaklingar og þjóðir gætu brotist úr fátækt í bjargálnir. Hún var fólgin í verkaskiptingunni. Í frjálsum viðskiptum fá menn það frá öðrum, sem þá vantar og aðrir hafa, og láta aðra fá það, sem aðra vantar og þeir hafa. Báðir græða, hvorugur tapar. Jón á Bægisá þýddi kvæði um þessa hugmynd eftir þýska skáldið Gellert:

Gáfur eigi þú hefir hinna,
hinum er varnað gáfna þinna,
og af þörfnunar þessum hag
er þjóða sprottið samfélag.

Einfaldasta dæmið er af Róbinson Krúsó og Föstudegi í skáldsögunni frægu. Setjum svo, að Róbinson kunni betur til fiskveiða en Föstudagur, en Föstudagur sé hins vegar lagnari í að tína kókoshnetur. Þá græða báðir á því, að Róbinson haldi sig að veiðum og Föstudagur að hnetutínslu, en þeir skiptist síðan á þessum verðmætum. Hið sama er að segja um þjóðir. Pólland hentar til kornyrkju, en Portúgal til vínræktar. Pólverjar og Portúgalir einbeita sér að því, sem þeir geta gert betur en aðrir, og skiptast síðan á korni og víni báðum í hag.

Náttúran hefur dreift mannlegum hæfileikum og landgæðum ójafnt, en frjáls viðskipti jafna metin, gera mönnum kleift að nýta hæfileika annarra og ólík gæði landa. Saga síðustu tvö hundruð ára hefur staðfest kenningu Smiths, svo að um munar. Þær þjóðir, sem auðvelda frjálsa samkeppni og stunda frjáls viðskipti, hafa stikað á sjömílnaskóm inn í ótrúlega velsæld samanborið við fyrri tíma. Hinar sitja fastar í fátækt. Árlega er reiknuð út vísitala atvinnufrelsis fyrir langflest lönd heims á vegum Fraser stofnunarinnar í Kanada. Ef löndunum er skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum. Með öðrum orðum eru lífskjör fátækasta fólksins í frjálsustu löndunum betri en almenn lífskjör í ófrjálsustu löndunum.

Skipulag án skipuleggjanda

Í verkum sínum kom Adam Smith einnig orðum að þeirri merkilegu hugmynd, að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda. Það geti sprottið upp úr frjálsum samskiptum, gagnkvæmri aðlögun einstaklinga. Markaðurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að skiptast á vöru og þjónustu. Þar hækka menn eða lækka verð á vöru sinni og þjónustu, uns jafnvægi hefur náðst, milli framboðs og eftirspurnar, innflutnings og útflutnings, sparnaðar og fjárfestingar. Þetta jafnvægi er sjálfsprottið, ekki valdboðið. Það fæst með verðlagningu, ekki skipulagningu. Atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Auðvitað er það jafnvægi, sem þar getur náðst, ekki fullkomið, en það er þó sífellt að leiðrétta sig sjálft eftir þeim upplýsingum, sem berast með gróða eða tapi. Menn græða, ef þeim tekst að fullnægja þörfum viðskiptavinanna betur en keppinautarnir. Þeir tapa, ef þeir gera þrálát mistök og skeyta ekki um breytilegan smekk og áhugamál viðskiptavinanna.

Fræg er sú hugmynd Smiths, að við væntum ekki málsverðar okkar vegna góðvildar slátrarans, bruggarans eða bakarans, heldur vegna umhyggju þeirra um eigin hag. Örn Arnarson orti í sama anda:

Vinsemd brást og bróðurást,
breyttist ást hjá konum.
Matarást var skömminni skást,
skjaldan brást hún vonum.

Matarástin tengir menn, sem þekkjast ekki, betur saman en náungakærleikurinn, sem nær eðli málsins samkvæmt aðeins til næstu náunga, vandamanna, nágranna, hugsanlega samlanda. Í frjálsri samkeppni leiðir _ósýnileg hönd“ þá, sem vilja græða, að því að þjóna þörfum viðskiptavina sinna. Það er hins vegar misskilningur, að Smith hafi verið stuðningsmaður lágríkisins (minimum state). Hann taldi ríkið gegna þremur mikilvægum hlutverkum, að tryggja landvarnir, halda uppi lögum og reglu og sjá um, að nóg yrði framleitt af svokölluðum samgæðum (public goods). Meðal annars hafði hann áhyggjur af því, að verkaskiptingin gæti þrengt óhóflega sjónarhorn einstaklinganna og þess vegna þyrfti ríkið að víkka það út með öflugri alþýðumenntun.

Hagmenni og hagvöxtur

Um Adam Smith á það við, að þeir hafa mest um hann að segja, sem minnst hafa lesið eftir hann. Því er til dæmis haldið fram, að hann hafi talið manninn vera hagmenni, homo economicus, sem hugsi aðeins um eigin hag. (Um þetta hefur Sigfús Bjartmars sett saman smellna ljóðabók!) Því fer fjarri. Hagmennið er greiningartæki, ekki lýsing á manneðlinu. Þetta greiningartæki gerir okkur kleift að spá fyrir um niðurstöður, ef og þegar menn keppa að eigin hag, eins og flestir gera í viðskiptum við ókunnuga. Konur láta til dæmis oftast stjórnast af móðurást í samskiptum við börn sín, fórna miklu. En þegar þær fara út á markaðinn, reyna þær að kaupa sem besta vöru við sem lægstu verði, fórna engu. Þar stjórnast þær eins og flestir aðrir af matarástinni. Og þótt menn velji sér eflaust oftast ævistarf eftir áhugamálum og hæfileikum, ekki tekjumöguleikum einum saman, er óhætt að spá því, ef tekjur af einhverju starfi snarminnka, að færri muni þá leggja það fyrir sig, en ef þær aukast, að fleiri muni þá sækjast eftir því. Og öll skáldin, sem hæðast að hagfræðingum fyrir að vita allt um verð, en ekkert um verðmæti, munu jafnan taka lægra farmiðaverð fram yfir hærra, þegar þau fljúga í upplestrarferðir.

Því er líka haldið fram, að hugmyndin um hagvöxt standist ekki, þegar til langs tíma sé litið. Kapítalisminn, hugarfóstur Adams Smiths, sé ekki sjálfbær. Nú var Smith sjálfur enginn sérstakur stuðningsmaður kapítalista. Hann studdi frjálsa samkeppni, af því að hún er neytendum í hag, og hann taldi með sterkum rökum verkaskiptinguna greiðfærustu leiðina til almennrar hagsældar. En í raun og veru er hagvöxtur sjaldnast fólginn í að framleiða meira, heldur miklu frekar í að framleiða minna, minnka fyrirhöfnina, finna ódýrari leiðir að gefnu marki, spara sér tíma og orku. Auk þess er hagvöxturinn afkastamesti sáttasemjarinn. Í stað þess að auka eigin hlut með því að hrifsa frá öðrum geta menn reynt að auka hann með því að nýta betur það, sem þeir hafa, og bæta það síðan, hlúa að því, svo að það vaxi og dafni í höndum þeirra. Og þegar að er gáð, eru mengun og rányrkja vegna þess, að enginn á og gætir auðlinda. Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara, einkaeignarréttar eða einkaafnotaréttar á auðlindum.

Áhrif Smiths á Íslandi

Ekki verður skilið við Adam Smith án þess að minnast þess, að líklega hafði hann einhver heillavænlegustu óbein áhrif á Íslandssöguna allra erlendra manna. Í maí 1762 höfðu þrír Norðmenn í löngu ferðalagi um Evrópu heimsótt Smith í Glasgow, en hann var þá þegar orðinn kunnur og virtur heimspekingur, ekki síst vegna bókarinnar Kenningar um siðferðiskenndirnar, sem kom út árið 1759. Þeir voru Andreas Holt og bræðurnir Peter og Carsten Anker. Þeir urðu góðir vinir Smiths og hittu hann aftur í Toulouse í Frakklandi í mars 1764. Þegar þeir sneru heim, tóku þeir við háum embættum í dansk-norska ríkinu. Holt var til dæmis formaður landsnefndarinnar fyrri 1770–1772, sem lagði á ráðin um umbætur á Íslandi. Þessir vinir Smiths höfðu forgöngu um það, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku, og kom hún út árin 1779–1780. Í bréfi til Holts í október 1780 þakkaði Smith honum fyrir skemmtilegan ferðapistil um Ísland og lýsti yfir ánægju sinni með, að bókin skyldi komin út. Carsten Anker og þýðandi bókarinnar, Frands Dræbye, störfuðu báðir í danska Rentukammerinu og höfðu áreiðanlega sitt að segja um það, að einokunarverslunin var afnumin árið 1787, en hún hafði verið einhver helsti dragbíturinn á vöxt og viðgang íslensks atvinnulífs. Yfirmaður Rentukammersins á þeirri tíð, Ernst Schimmelmann, var líka snortinn af frelsisrökum Smiths. Líklega eiga fáar þjóðir eins mikið undir frjálsum alþjóðaviðskiptum og við Íslendingar. Það er því full ástæða til að leggja við hlustir í hátíðarsal Háskólans kl. 16.40 miðvikudaginn 6. desember.

(Grein í Morgunblaðinu 5. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir