Á dögunum rifjaði ég upp, að franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu hefði rakið hina vestrænu frjálshyggjuhefð til Norðurlanda, til hins norræna anda. Hann var ekki einn um það. Robert Molesworth var breskur aðalsmaður og Viggi, en svo nefndust stuðningsmenn byltingarinnar blóðlausu 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Englendinga og venjum, ekki til að endurskapa skipulagið eftir forskrift misviturra spekinga. Molesworth var góðvinur Johns Lockes og Frances Hutchesons, kennara Adams Smiths, og hafði mikil áhrif á bandarísku byltingarmennina.
Molesworth var sendiherra Breta í Danmörku árin 1689–1692, og þegar heim kom, gaf hann út bókina Lýsingu Danmerkur árið 1692 (sem bandaríski frelsissjóðurinn, Liberty Fund, endurútgaf árið 2011). Þar kvað hann Dani hafa búið við verulegt frelsi fyrir 1660, þegar Danakonungur gerðist einvaldur með stuðningi borgaranna í Kaupmannahöfn. Þeir hefðu valið konunga sína og neytt þá til að samþykkja frelsisskrár. Konungarnir hefðu orðið að stjórna með samþykki þegna sinna, sem hefðu getað sett þá af, ef þeir brutu lögin. Þessar fornu hugmyndir hefðu síðan styrkst í Bretlandi, en veikst í Danmörku.
Þegar Molesworth var sendiherra í Danmörku, var byltingin blóðlausa nýlega um garð gengin í Bretlandi og enn hætta á því, að hinn burtrekni Jakob II. konungur sneri aftur og kæmi á einveldi svipuðu og í Frakklandi og Danmörku. En þótt Molesworth fyndi danskri þjóðmenningu flest til foráttu, hældi hann Dönum fyrir réttarkerfi þeirra. Lögin væru skráð á einföldu og auðskiljanlegu máli, og dómstólar væru tiltölulega óháðir. Það er lóðið. Danir bjuggu eins og aðrir Norðurlandabúar við réttarríki, sem þróast hafði á þúsund árum, og þess vegna gat frelsið skotið djúpum rótum í þessum heimshluta, þegar leið fram á nítjándu öld.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.)
Nýlegar athugasemdir