Laugardagur 29.7.2023 - 14:39 - Rita ummæli

Norræna leiðin: Molesworth

Á dögunum rifjaði ég upp, að franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu hefði rakið hina vestrænu frjálshyggjuhefð til Norðurlanda, til hins norræna anda. Hann var ekki einn um það. Robert Molesworth var breskur aðalsmaður og Viggi, en svo nefndust stuðningsmenn byltingarinnar blóðlausu 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Englendinga og venjum, ekki til að endurskapa skipulagið eftir forskrift misviturra spekinga. Molesworth var góðvinur Johns Lockes og Frances Hutchesons, kennara Adams Smiths, og hafði mikil áhrif á bandarísku byltingarmennina.

Molesworth var sendiherra Breta í Danmörku árin 1689–1692, og þegar heim kom, gaf hann út bókina Lýsingu Danmerkur árið 1692 (sem bandaríski frelsissjóðurinn, Liberty Fund, endurútgaf árið 2011). Þar kvað hann Dani hafa búið við verulegt frelsi fyrir 1660, þegar Danakonungur gerðist einvaldur með stuðningi borgaranna í Kaupmannahöfn. Þeir hefðu valið konunga sína og neytt þá til að samþykkja frelsisskrár. Konungarnir hefðu orðið að stjórna með samþykki þegna sinna, sem hefðu getað sett þá af, ef þeir brutu lögin. Þessar fornu hugmyndir hefðu síðan styrkst í Bretlandi, en veikst í Danmörku.

Þegar Molesworth var sendiherra í Danmörku, var byltingin blóðlausa nýlega um garð gengin í Bretlandi og enn hætta á því, að hinn burtrekni Jakob II. konungur sneri aftur og kæmi á einveldi svipuðu og í Frakklandi og Danmörku. En þótt Molesworth fyndi danskri þjóðmenningu flest til foráttu, hældi hann Dönum fyrir réttarkerfi þeirra. Lögin væru skráð á einföldu og auðskiljanlegu máli, og dómstólar væru tiltölulega óháðir. Það er lóðið. Danir bjuggu eins og aðrir Norðurlandabúar við réttarríki, sem þróast hafði á þúsund árum, og þess vegna gat frelsið skotið djúpum rótum í þessum heimshluta, þegar leið fram á nítjándu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.7.2023 - 09:55 - Rita ummæli

Norræna leiðin: Montesquieu

Eftir að ég sótti málstofu um Montesquieu og aðra upplýsingarmenn átjándu aldar í Jórvík á Englandi í júní 2023, varð mér ljóst, að því hefur ekki verið veitt athygli á Íslandi, hvað heimspekingurinn franski hefur fram að færa um norrænar þjóðir. Því ber mjög saman við það, sem ég hef sagt um hinn norræna og forngermanska frjálshyggjuarf.

Í 6. kafla 11. bókar Anda laganna skrifar Montesquieu, að nóg sé að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar fengu stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hafi orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Þótt Germanía hafi komið út í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags (2001), er hvergi í inngangi eða skýringum á þetta minnst.

Í 5. kafla 17. bókar Anda laganna segir Montesquieu, að Norðurlönd geti með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna. Í 6. kafla sömu bókar bætir Montesquieu því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hafi leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki séu hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hafi myndast milli þeirra, svo að erfitt hafi verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta.

Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.7.2023 - 08:46 - Rita ummæli

Westminster-höll, júní 2023

Breskur góðkunningi minn, Jamie Borwick, fimmti barón Borwick, var svo elskulegur að bjóða mér í hóf, sem hann hélt 28. júní 2023 í Cholmondeley-salnum í Westminster-höll, breska þinghúsinu, í tilefni þrjú hundruð ára afmælis Adams Smiths. Enginn veit með vissu, hvenær Adam Smith var fæddur, en hann var skírður 5. júní 1723, sem er venjulega talinn fæðingardagur hans. Utanríkisráðherra Breta, James Cleverly, flutti skemmtilega ræðu í hófinu og taldi frelsisboðskap Smiths enn eiga fullt erindi við okkur, en minnti líka á, að við megum ekki láta okkur nægja að njóta frelsisins, heldur verðum við líka að verja það, og nú ógna því tvö stórveldi, grá fyrir járnum og hin skuggalegustu, Rússland og Kína. Hafði ég tækifæri til að skiptast á skoðunum við Cleverly, sem er maður geðugur og gamansamur. Ég er óspar á að láta þá skoðun mína í ljós, að Ísland eigi helst heima með grannríkjunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og síður í Evrópusambandinu.
Afmælisbarnið sjálft, Adam Smith, setti fram tvær snjallar hugmyndir, sem rifja þarf reglulega upp. Hin fyrri er, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap. Menn og þjóðir geta grætt á hinni alþjóðlegu verkaskiptingu, ef og þegar ólíkir hæfileikar og landkostir fá að nýtast sem best í frjálsum viðskiptum. Seinni hugmyndin er, að hagkerfi geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla getur komist á, þótt enginn einn aðili komi henni á. Smith orðaði það svo, að við frjálsa samkeppni á markaði leiddi „ósýnileg hönd“ menn, sem aðeins ætluðu sér að keppa að eigin hag, að því að vinna að almannahag.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 15:53 - Rita ummæli

Jórvík, júní 2023

Skemmtilegt var að koma til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og feta með því í fótspor Egils Skallagrímssonar, þótt mér finnist raunar Höfuðlausn, sem hann á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Gat Snorri hafa ort það sjálfur? Erindið til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.
Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir okkar hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?
Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.
Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti ég á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 15:50 - Rita ummæli

Eskilstuna, júní 2023

Á sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 varpaði ég fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Ég benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 15:38 - Rita ummæli

Ánægjuleg starfslokaráðstefna

Ekki verður annað sagt en Háskólinn hafi skilið virðulega við mig eftir 35 ára starf mitt í stjórnmálafræði. Hélt hann 180 manna starfslokaráðstefnu 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar fróðlegu ræður eru á Netinu. Það setti síðan notalegan blæ á starfslokin, að forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. júní 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 14:09 - Rita ummæli

Helsinki, maí 2023

Helsinki er falleg og notaleg borg, með norrænu yfirbragði. Þar flutti ég erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Ég benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Ég benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júní 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 14:07 - Rita ummæli

Fólksfjölgun og hlýnun jarðar

Íslandsvinurinn David D. Friedman flutti fróðlegt erindi á ráðstefnu, sem ég sótti í apríl 2023. Hann kvað fyrstu fræðigrein sína hafa verið um fólksfjölgun, en skoðanir á henni fyrir hálfri öld hefðu verið svipaðar og nú um hlýnun jarðar. Um mikla vá hefði átt að vera að ræða. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort viðbótareinstaklingar hefðu hreinan kostnað eða hreinan ábata í för með sér fyrir aðra. Hrakspár um afleiðingar fólksfjölgunar hefðu hins vegar ekki ræst.

Friedman kvaðst rökræðunnar vegna nota spár og greiningu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar: Líklega myndi jörðin hlýna um eitt til þrjú stig næstu hundrað ár, og talsvert af þeirri hlýnun yrði af manna völdum. Með því að brenna  jarðefni og losa koltvísýring út í andrúmsloftið legðu menn kostnað á aðra.

En Friedman benti á, að hlýnunin hefði í för með sér ábata ekki síður en kostnað. Vissulega myndi akuryrkja breytast og ýmis mannvirki verða ónýt. En hlýnunin yrði tiltölulega hæg, og akuryrkja væri hvort sem er sífellt að breytast og mannvirki að endurnýjast. Hlýnun væri æskileg, þar sem kalt væri, og óæskileg, þar sem hlýtt væri. En eðlisfræðin kenndi, að hún kæmi misjafnt niður. Hitastig hækkaði meira á vetrum en sumrum og meira í köldum löndum en heitum. Friedman minnti á, að talsvert færri deyja í hitabylgjum en kuldaköstum. Gróður jarðar myndi aukast talsvert og sum svæði verða byggileg, þótt önnur færu í kaf.

Niðurstaða Friedmans var, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort líkleg hlýnun jarðar af manna völdum hefði í för með sér hreinan kostnað eða hreinan ábata. Hann minnti á, að loftslagið væri ekki gert fyrir mennina, heldur þyrftu menn að laga sig að loftslaginu. Mannkyn hefði í sögu sinni oft orðið að sætta sig við miklu krappari sveiflur í loftslagi en nú væri spáð, og á jörðu væri loftslag líka mjög breytilegt frá einum stað til annars.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 14:06 - Rita ummæli

Óhappamenn frekar en friðflytjendur

Al Gore þakker sér netið, eins og alræmt er, og nú fer Ólafur Ragnar Grímsson ískyggilega nálægt því að eigna sér frið í heiminum. Sagði hann í viðtali við Sjónvarpið 14. maí, að frumkvæði sex þjóðarleiðtoga árið 1984, sem hann kom að, þótt hann væri ekki einn leiðtoganna, hefði mjög stuðlað að friði. Þetta er fjarri lagi. Kalda stríðinu lauk með fullum sigri Vesturveldanna af tveimur ástæðum.

Hin fyrri var sú, sem austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði þegar sagt fyrir um á hagfræðingafundi í Vín í janúar 1920: Í miðstýrðu hagkerfi er miklu erfiðara að nýta sérþekkingu einstaklinganna en í dreifstýrðu, og þegar til lengdar lætur, dregst það þess vegna aftur úr. Seinni ástæðan var sú, að um 1980 stigu fram tveir öflugir leiðtogar lýðræðisríkja, þau Margrét Thatcher og Ronald Reagan. Þau efldu svo varnir Vesturlanda, að Kremlverjar sáu sitt óvænna og gáfust í raun upp. Kommúnisminn hrundi, ekki með braki, heldur snökti.

Aldrei kom neitt annað frá málvinum Ólafs Ragnars sex en frómar yfirlýsingar, og raunar voru sumir þeirra óhappamenn eins og Raúl Alfonsin í Argentínu, Julius Nyerere í Tansaníu, Olof Palme í Svíþjóð og Rajiv Gandhi á Indlandi. Argentína, sem verið hafði eitt ríkasta land heims um aldamótin 1900, var löngum á tuttugustu öld undir stjórn óábyrgra lýðskrumara, sem kunnu það ráð eitt að herða á seðlaprentun. Tansanía þáði meiri þróunaraðstoð en flest önnur ríki, en varð skýrt dæmi um aðstoð án þróunar, á meðan Hong Kong varð jafnskýrt dæmi um þróun án aðstoðar. Ríkisafskipti jukust svo í Svíþjóð undir forystu Palmes, að öll nýsköpun hvarf, og urðu Svíar að breyta um stefnu í lok níunda áratugar. Hagvöxtur á Indlandi tók ekki við sér, fyrr en eftir að Indverjar sneru frá áætlunarbúskap og ofstýringu Nehru- og Gandhi-fjölskyldunnar, sem fylgt hafði verið illu heilli frá 1947 til 1991.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. maí 2023.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 14:04 - Rita ummæli

Lissabon, apríl 2023

Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð mér í tilefni sjötugsafmælis míns og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við mig. Ég sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á mig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti ég þá tvo oft eftir það, en einkennilegt er til þess að vita, að ekki eru nú margir á lífi, sem kynnst höfðu þessum andans jöfrum jafnvel og ég.

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að ég hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut ég eftir það minn fyrsta dóm og hinn eina, sem ég er stoltur af. En við náðum tilgangi okkar, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Ég sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar mínir beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði ég upp, þegar ég fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungum við í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið mér, hafði orð á við mig.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. maí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir