Laugardagur 8.7.2023 - 14:02 - Rita ummæli

Sjómannadagsræða Kára Stefánssonar

Þessi ræða er ekkert annað en lýðskrum. Ég skal reyna að skýra í örstuttu máli, hvers vegna kvótakerfið er í senn réttlátt, arðbært og sjálfbært. Fiskihagfræðin og raunar auðlindahagfræði almennt kennir okkur, að ótakmarkaður (ókeypis) aðgangur að takmarkaðri auðlind hefur í för með sér ofnýtingu hennar. Á einhvern hátt varð að takmarka aðgang að fiskistofnunum á Íslandsmiðum, ella hefðu þeir haldið áfram að vera ofnýttir, eins og þeir sannarlega voru áður fyrr: sextán bátar voru að landa afla, sem átta bátar hefðu hæglega getað landað. Brugðið var á það eðlilega og nánast óumflýjanlega ráð að takmarka aðganginn við þá, sem þegar voru að nýta fiskistofnana, enda hafði það í för með sér minnsta röskun fyrir þá og fyrir þjóðarheildina.

Smám saman kom í ljós, að hagkvæmast var að takmarka aðganginn með aflaheimildum, sem væru varanlegar og framseljanlegar. Þá lenti rétturinn til að veiða smám saman í frjálsum viðskiptum með kvóta í hendur þeirra, sem best voru fallnir til útgerðar sökum áhuga eða útsjónarsemi. Og af því að kvótarnir voru varanlegir (ótímabundnir), fóru útgerðarmenn að hafa áhuga á því að gera auðlindina sem arðbærasta til langs tíma litið, en láta ekki aðeins greipar sópa til skamms tíma. Þeir fóru að hegða sér eins og eigendur, ekki leigjendur, og sættu sig til dæmis við stórkostlega skerðingu á hámarksafla, þegar það var nauðsynlegt.

Þessar miklu breytingar fóru friðsamlega fram. Smám saman minnkaði sóknin niður í það, sem hagkvæmast var, og útgerðarfyrirtækin gátu einbeitt sér að því að veiða sem hagkvæmast upp í sinn kvóta. Fiskveiðarnar urðu líka öruggari og skipin betri. Það er engin tilviljun, að fyrsta árið, þegar enginn drukknaði við veiðar á Íslandsmiðum, var árið 2008. Veiðarnar voru orðnar vel skipulagðar. En var þá einhver réttur tekinn af öðrum Íslendingum en þeim, sem fengu aflaheimildirnar upphaflega í samræmi við aflareynslu? Já, rétturinn til að veiða á núlli, því að fiskihagfræðin kennir okkur, að sókn við opinn (ótakmarkaðan og ókeypis) aðgang aukist, þangað til öllum hugsanlegum gróða hefur verið sóað í sóknarkostnað.

Vissulega græddu útgerðarmenn á þessari breytingu, en sá gróði var ekki tekinn af neinum, heldur myndaðist hann við það, að veiðarnar urðu hagkvæmari, átta bátar fóru að landa afla, sem sextán bátar höfðu áður gert. Og sá gróði skilaði sér auðvitað miklu betur út í þjóðlífið en hann hefði gert, hefði ríkið hirt hann í skatta (auk þess sem hann hefði þá orðið miklu minni). Menn sjá ofsjónum yfir því, að einhverjir seldu sínar aflaheimildir og fóru út úr sjávarútvegi. En það var einn af höfuðkostum kerfisins. Ætlunin var einmitt að minnka sóknina! Menn voru keyptir út úr greininni í stað þess að vera hraktir út úr henni, eins og gerst hefði, hefði til dæmis aðgangur verið takmarkaður með uppboði ríkisins á aflaheimildum, eins og sumir hagfræðingar uppi í háskóla lögðu til og horfðu þá alveg fram hjá hagsmunum þeirra, sem höfðu gert það að ævistarfi sínu að veiða fisk og höfðu lagt mikið fé í kunnáttu og tæki.

Kerfið er réttlátt, vegna þess að réttur var ekki brotinn á neinum og eini rétturinn skertur, sem var rétturinn til að gera út á núlli, og hann er einskis verður, jafnframt því sem tekið var eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra, sem voru að veiðum, þegar kerfið var sett á. Kerfið er arðbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna einbeita sér að því að gera út með sem minnstum tilkostnaði. Og kerfið er sjálfbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna vilja vitanlega fara varlega í meðferð þeirrar auðlindar, sem þeir hafa fengið nýtingarrétt á. Þeir vilja ákveða hámarksafla á hverri vertíð gætilega.

Það er engin tilviljun, að Ísland er eina landið í okkar heimshluta, þar sem sjávarútvegur er arðbær. Alls staðar annars staðar hokrar hann á ríkisstyrkjum. Eina leiðin til að túlka ákvæðið um þjóðareign er, að ráðstafa þurfi auðlindinni þannig, að þjóðin hafi sem mestan hag af henni, þegar til langs tíma er litið, og það er við núverandi fyrirkomulag. Þjóðin hefði ekki hag af því, að stjórnmálamenn og embættismenn fengju fleiri tækifæri, meira fé, til að bora jarðgöng, niðurgreiða nöldurmiðla, fara á Saga Class á ráðstefnur erlendis og reisa fleiri stórhýsi yfir þingið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 14:00 - Rita ummæli

Amsterdam, apríl 2023

Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti ég fyrirlestur 20. apríl 2023 í fallegum fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að ég varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Ég spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði ég, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:58 - Rita ummæli

París, apríl 2023

Það var ekki ónýtt að feta í fótspor þjóðsagnahetjunnar Sæmundar fróða í Svartaskóla, Sorbonne, í París, nema hvað þar flutti ég fyrirlestur 19. apríl 2023, en var ekki aðeins að afla fróðleiks eins og Sæmundur forðum. Fyrirlestur minn hafði meðal annars að geyma gagnrýni á kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, átrúnaðargoðs vinstri manna. Piketty hefur ekki áhyggjur af fátækt, heldur velmegun. Sumir séu orðnir allt of ríkir, og ná þurfi auðnum af þeim með háum alþjóðlegum sköttum.

Í Svartaskóla benti ég á, að í heiminum sem heild hefði tekjudreifing orðið jafnari síðustu áratugi, þótt líklega hefði hún orðið nokkru ójafnari á Vesturlöndum. Í suðrænum löndum hefur fátækt snarminnkað og hundruð milljóna stikað á sjömílnaskóm í bjargálnir. Í útreikningum sínum leiðrétti Piketty ekki fyrir skekkjum, sem hljótast af fasteignabólum (ofmati á eignum efnafólks) og lækkun skatta á háar tekjur (svo að þær koma skýrar og beinna fram), og tæki lítið sem ekkert tillit til jöfnunaráhrifa skatta (vanmæti kaupmátt tekjulægsta hópsins). Piketty lokaði líka augunum fyrir því gagni, sem auðmenn gera án þess að ætla sér það: Þeir verða mótvægi við opinberu valdi, lækka tilraunakostnað nýjunga, sem breytast úr munaðarvöru í almenningseign, og leggja fé í fjárfestingar.

Áhyggjur Pikettys af því, að auðurinn hafi orðið fastur við fámennan hóp, er enn fremur tilefnislaus. Á listum, sem birtast reglulega um ríkasta fólkið, sést mikil breyting. Áður fyrr hafði meiri hlutinn erft auðæfi sín. Nú hefur meiri hlutinn skapað þau sjálfur. Raunar er sú skáldsaga frá öndverðri nítjándu öld, sem Piketty vitnar oftast í, Faðir Goriot eftir Balzac, einmitt lýsing á því, hversu fallvaltur auðurinn er.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. maí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:56 - Rita ummæli

Lundúnir, apríl 2023

Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var mér falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. maí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:55 - Rita ummæli

Brúarstæði, apríl 2023

Hið forna heiti borgarinnar Bristol í Englandi var Brycgstow, sem merkir Brúarstæði. Hún kemur nokkuð við sögu Íslendinga á fimmtándu öld, þegar Englendingar, ekki síst frá Bristol, stunduðu fiskveiðar og verslun við Íslandsstrendur. Árið 1484 voru 48 Íslendingar skráðir í borginni, og nokkrir kaupmenn þar versluðu jöfnum höndum við Ísland og Portúgal. Þessi fjöruga verslun lagðist illu heilli niður við dönsku einokunina. Á ráðstefnu í Bristol 17. apríl var mér falið að segja nokkur orð um, hvernig við jarðarbúar gætum leitað hamingjunnar, friðsældar og hagsældar. Það er lítið um svör, þegar stórt er spurt. En ég benti á, að eðlilegra er að reyna að minnka óhamingjuna frekar en auka hamingjuna, ekki síst af því að við vitum betur, hvað óhamingja er: fátækt, ofbeldi, stríðsrekstur og sjúkdómar.

Vinstri menn vilja gera fátæktina léttbærari með því að hjálpa fátæklingum. Hægri menn vilja gera fátæktina sjaldgæfari með því að fækka fátæklingum, og það má gera með því að fjölga með auknu atvinnufrelsi tækifærum til að brjótast úr fátækt í bjargálnir.

Vinstri menn vilja minnka ofbeldi með því að hlusta á ofbeldisseggina, aðallega um misjafna æsku þeirra. Hægri menn vilja halda ofbeldisseggjum í skefjum með harðskeyttri lögreglu og ströngum refsingum.

Vinstri menn vilja banna stríðsrekstur með yfirlýsingum og sáttmálum. Hægri menn telja slík skjöl lítils virði, ef engir eru bakhjarlarnir. Orðagaldur breytir ekki úlfum í lömb. Óvopnaðir samningamenn fá litlu áorkað.

Vinstri menn vilja ráðast á sjúkdóma með því að reka stórar og dýrar heilbrigðisstofnanir. Hægri menn telja einsýnt, að besta heilsubótin felist í góðum lífskjörum. Hagvöxturinn bægði burt fornum fjendum Íslendinga, myrkrinu, kuldanum og rakanum, og nú brugga öflug einkafyrirtæki sífellt ný og betri lyf og smíða ný og betri tæki til að lækna margvísleg mein.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:51 - Rita ummæli

Höfn, apríl 2023

Næststærsta borg Portúgals, sem Fjölnismenn kölluðu Hafnarland, er Porto, Höfn. Miðbærinn við sjóinn er fallegur og notalegur. Hér var ég beðinn að segja nokkur orð 15. apríl um æskilegustu þróun Evrópusambandsins. Ég kvað stofnun þess hafa verið af hinu góðu. Frakkar og Þjóðverjar smíðuðu plóga úr sverðum og eins auðvelt varð að fara yfir landamæri og fyrir 1914, þegar ekki þurfti vegabréf til að komast leiðar sinnar um Norðurálfuna, nema ferðinni væri heitið til afturhaldsríkjanna, Tyrkjaveldis soldánsins eða Rússaveldis keisarans. En síðustu áratugi hefði Evrópusambandið smám saman verið að breytast úr ríkjasambandi (confederation) í sambandsríki (federation). Aðildarríkin væru að færa sífellt meira vald í hendur umboðslausra skriffinna í blekiðjubákninu í Brüssel. Þessari þróun þyrfti að snúa við. Færa þyrfti fullveldið, yfirráð eigin mála, aftur frá Brüssel til einstakra ríkja.

Nú sagði helsti postuli Evrópusambandshugsjónarinnar, Luigi Einaudi, að Þjóðabandalagið hefði misheppnast, því að það hefði ekki haft neitt framkvæmdarvald og engan her. En Atlantshafsbandalagið gegnir með prýði því hlutverki að verja Evrópu. Ég benti hins vegar á fordæmi um eðlilegt samstarf ríkja. Norðurlönd hefðu viðurkennt rétt til aðskilnaðar, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svía 1905, Finnar við Rússa 1917 og Íslendingar við Dani 1918. Landamæri hefðu verið færð til milli Danmerkur og Þýskalands eftir atkvæðagreiðslur í umdeildum landamærahéruðum 1920. Sérstökum hópum hefði verið tryggð sjálfstjórn, Álandseyingum í Finnlandi og Færeyingum í Danmörku. Og Norðurlandaráð hefði verið vettvangur samráðs og menningarsamvinnu, jafnframt því sem vegabréfa væri ekki lengur krafist milli norrænu ríkjanna og vinnumarkaður væri sameiginlegur, án þess þó að fullveldi einstakra ríkja hefði verið skert að ráði. Ekki mætti heldur gleyma því, að Norðurlönd voru í vel heppnuðu myntbandalagi frá 1873 til 1914.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:49 - Rita ummæli

Ný sýn á gamalt mál

Hér hef ég tvisvar vikið að því, þegar fulltrúi Svía í friðarsamningum við Dani í Kíl í janúar 1814, Wetterstedt barón, virtist hafa trúa því, sem danski fulltrúinn, Edmund Bourke, sagði honum, að Grænland, Ísland og Færeyjar hefðu aldrei tilheyrt Noregi. Þessar Atlantshafseyjar hefðu þess vegna verið undanskildar, þegar Danir létu Noreg af hendi við Svíþjóð. Fræðimenn hafa efast um þessa skýringu, því að hún sé með ólíkindum. Þeir hafa sumir talið (þó án nokkurra heimilda), að Bretar hafi ráðið úrslitum. Þeir hafi ekki viljað hafa öflugt ríki nálægt sér í Norður-Atlantshafi.

Nýlega rakst ég á bréf til danska utanríkisráðherrans frá sendiherra Dana í Stokkhólmi, Hans Krabbe-Carisius, 16. febrúar 1819. Þar var skýrt frá samtali sænska utanríkisráðherrans, Engeströms greifa, og breska sendiherrans, Strangfords lávarðar. Engeström sagði, að auðvitað hefðu þessar eyjar upphaflega tilheyrt Noregi, en Wetterstedt hefði látið blekkjast af Bourke. Þá mælti Strangford: „Það er svo! En á hverju reisið þér kröfu yðar um, að þessum eyjum verði skilað?“ Engeström svaraði: „Á mótmælum norska Stórþingsins við því, að þær skyldu hafa verið undanskildar.“

Þessi heimild sýnir, að Wetterstedt lét blekkjast. En var Bourke að blekkja hann? Ef til vill átti hann við það, að Ísland hefði að minnsta kosti aldrei tilheyrt Noregi, heldur hefðu Íslendingar gengið á hönd Hákoni Noregskonungi árið 1262, ekki Norðmönnum. Hinir réttu erfingjar þess konungs sætu í Kaupmannahöfn, ekki Stokkhólmi. Það kann síðan að vera rétt, að Bretar hafi ekki haft áhuga á að fá Svía inn á Norður-Atlantshaf. En aðalatriðið var, að Svíar sjálfir höfðu ekki áhuga á því, enda áttu þeir fullt í fangi með að tryggja hagsmuni sína við Eystrasalt. Saman fór fernt, hálfur sannleikur úr munni Bourkes, vanþekking Wetterstedts, áhugaleysi Breta og Svía um Ísland og vanmáttur Noregs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:47 - Rita ummæli

Split, apríl 2023

Á ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Split í Króatíu 31. mars og 1. apríl flutti ég fyrirlestur um frjálslynda íhaldsstefnu í Evrópu. Ég velti því þar fyrir mér, hvenær Evrópa hefði orðið til í sögulegum skilningi. Það hefði aðallega gerst í tveimur áföngum: árið 732, þegar Karl Martel hratt árás Serkja við Tours í Suður-Frakklandi, og árið 1683, þegar Jóhann Sobieski, konungur Póllands, hratt árás Tyrkja við Vínarborg. En munurinn á Evrópu og Rómaveldi er ekki aðeins, að Rómaveldi var ekki evrópskt, heldur Miðjarðarhafsveldi, heldur líka sá, að Evrópa einkennist af fjölbreytni, mörgum ólíkum ríkjum og svæðum, hvert með sinn sið. Edward Gibbon lýsti því eftirminnilega í Rómverjasögu sinni, að í Rómaveldi hefði hvergi verið til sá staður, sem hrammur keisarans hefði ekki náð til, en að í Evrópu síns tíma hefðu verið til ótal undankomuleiðir fyrir andófsmenn og minnihlutahópa.

Frjálslynd íhaldsstefna verður best skilin sem sjálfsvitund Evrópu, sagði ég, hinn evrópski andi, þegar hann hefur komist að því, hver hann er, og fyllst stolti yfir sjálfum sér. Uppistöðurnar væru einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir arfleifð kynslóðanna. Oft væri frjálslynd íhaldsstefna rakin til Breta, og vissulega hefðu þeir John Locke, David Hume, Adam Smith og Edmund Burke eflt hana að rökum. En ég benti á, að margir aðrir evrópskir hugsuðir hefðu líka lagt talsvert til hennar, til dæmis Ítalirnir heilagur Tómas af Akvínas og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Einnig nefndi ég þrjá djúpsæja norræna rithöfunda. Snorri Sturluson hefði stutt þá kenningu, að konungar ríktu með samþykki þegnanna og væru bundnir af lögunum. Anders Chydenius hefði haldið því fram (á undan Adam Smith), að viðskiptafrelsi væri öllum í hag. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði minnt á mikilvægi sjálfsprottinnar samvinnu í frjálsu þjóðskipulagi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:46 - Rita ummæli

Danskur þjóðarandi

Á nítjándu öld minnkaði Danmörk niður í lítið þjóðríki, eftir að Danakonungur hafði misst konungsríkið Noreg, sem Svíar fengu árið 1814, og hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland, sem Þjóðverjar lögðu undir sig árið 1864. Danir brugðust við með því að efla með sér þjóðarvitund undir sterkum áhrifum frá sálmaskáldinu og skólamanninum Nikolaj F. S. Grundtvig, sem var þjóðrækinn frjálshyggjumaður (og hafði meðal annars þýtt verk Snorra Sturlusonar á dönsku). Danir vöknuðu upp af stórveldisdraumum og tóku til starfa: Hvad udad tabes, skal indad vindes. Úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Til varð danskur þjóðarandi sjálfsprottins samstarfs allrar alþýðu í mjólkurbúum, íþróttafélögum, samvinnusamtökum, lýðháskólum og söfnuðum, jafnframt því sem frumkvöðlar nýttu sér nýfengið verslunar- og athafnafrelsi til siglinga og iðnframleiðslu og urðu skipakóngar og iðnjöfrar.

Velgengni Dana á tuttugustu öld var vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta og sterkrar samkenndar, Danskhed, folkelighed. Þjóðarandi þeirra felur í sér notalega og óáleitna afstöðu til lífsins. Grundtvig talaði um hinn glaðværa kristindóm. „Sá, sem skilur ekki spaug, kann ekki dönsku,“ sagði Georg Brandes. Þegar þýskur herforingi hældi í upphafi hernámsins vorið 1940 Ernst Kaper, borgarstjóra í Kaupmannahöfn, fyrir hinn mikla sjálfsaga, sem Danir hefðu sýnt, var svarið: „Þetta er ekki agi, heldur menning.“ Best naut danskur þjóðarandi sín við tvö óvenjuleg verkefni. Dönum tókst með átaki allrar þjóðarinnar að koma langflestum Gyðingum landsins undan til Svíþjóðar í október 1943, eftir að spurst hafði út, að þýsku nasistarnir ætluðu að handtaka þá og senda í fangabúðir. Og Danir afhentu Íslendingum hin fornu handrit okkar frá og með árinu 1971, þótt þeir hefðu eignast þau á löglegan hátt. Sómatilfinning er einn þáttur dansks þjóðaranda.

(Fróðleiksmoli í Morgunbaðinu 1. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.7.2023 - 13:44 - Rita ummæli

Landsfeður, leiðtogar, fræðarar, þjóðskáld

Anthony D. Smith, sem var sérfræðingur um þjóðernismál, skilgreindi þjóð sem heild með eigið nafn og afmarkað landsvæði, þar sem íbúar deila arfleifð minninga, goðsagna, tákna, verðmæta og hefða, halda uppi sérstakri menningu og fara eftir sömu lögum og venjum. Samkvæmt því voru Íslendingar þegar á þjóðveldisöld sérstök þjóð. Smith sagði einnig, þegar um þjóðlega vakningu væri að ræða, eins og víða varð á nítjándu öld, að þá spryttu upp landsfeður (eða landsmæður), sem vitnað væri til, leiðtogar, sem veittu forystu, fræðarar, sem settu saman bækur, og þjóðskáld, sem legðu heildinni orð á tungu. Í Frakklandi væri til dæmis Jóhanna af Örk landsmóðirin, Napóleon leiðtogi, Michelet fræðari og Hugo þjóðskáld. Það er umdeilanlegt (Napóleon var ekki einu sinni Frakki!), og enn umdeilanlegri er kenning Smiths um Noreg: Snorri og Ólafur Tryggvason væru landsfeður, Bjørnson leiðtogi, Wergeland fræðari og Ibsen þjóðskáld. Snorri var Íslendingur, og Ólafur helgi er almennt talinn hinn norski landsfaðir.

Þótt Smith nefndi ekki Ísland, er ábending hans skemmtileg. Hverjir myndu hér gegna þessum hlutverkum? Þeir Þorgeir Ljósvetningagoði og Einar Þveræingur væru landsfeðurnir, því að þeir lýstu sérstöðu Íslendinga í frægum ræðum. Leiðtoginn væri Jón Sigurðsson, sem taldi Ísland hvorki vera skattland, hjálendu né nýlendu, heldur sérstakt land í konungssambandi við Dani. Fræðarinn væri Sigurður Nordal, sem reyndi markvisst að skilgreina og jafnvel skapa séríslenska menningu. Þjóðskáldið væri Jónas Hallgrímsson, sem endurnýjaði íslenska tungu, þótt tvö helstu kvæði hans í anda rómantískrar þjóðernishyggju ættu sér erlendar fyrirmyndir: „Ísland“ var keimlíkt kvæði eftir Adam Oehlenschläger og „Gunnarshólmi“ kvæði eftir Adelbert von Chamisso. En dæmi Jónasar sýnir best, að þjóðernishyggja og alþjóðahyggja þurfa ekki að vera andstæður. Erlend áhrif geta frjóvgað og auðgað þjóðlega menningu. Best fara þeir að ráði sínu, sem eru þjóðræknir heimsborgarar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. mars 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir