Sunnudagur 01.12.2013 - 13:56 - FB ummæli ()

Sá yðar sem syndlaus er…

Síðasti sólarhringur hefur vægast sagt verið viðburðarríkur. Langþráð skuldaleiðrétting var kynnt og Tyrkneskur hakkari fór ránshendi um persónulegar upplýsingar sem lágu á glámbekk hjá Vodafone og dreifði.

Fyrst varðandi skuldaleiðréttinguna þá er hún í mínum huga mikill sigur. Sigur þeirra sem beðið hafa réttlætis allt frá hruni. Ég og fleiri hefðum viljað að strax hefði verið farið í slíka aðgerð 2009 og flestir hafa viðurkennt að það hefði verið skynsamlegt. Síðan þá hefur maður horft upp á milljarðana sem hafa verið reiddir fram til þess að bjarga flestum öðrum en íslenskum almenningi. Ég veit ekki hvað ég hef skrifað marga pistla um þetta sama efni. Loksins kom að því að ríkisstjórn Íslands þorði að standa með íslenskum heimilum og standa í lappirnar gegn fjármálafyrirtækjunum sem bera mesta ábyrgð á núverandi stöðu. Niðurstaðan er leið sem mér virðist vera úthugsuð og skynsamleg og var kynnt í gær af fagmennsku og hógværð. Mér virðist sem nú sé komin leið til mögulegrar þjóðarsáttar um skuldamálin. Það er ekki mikið meira um þetta að segja en til hamingju til allra þeirra sem staðið hafa í þessum straumi síðustu ár. Loksins höfum við náð landi! Að því sögðu er það ljóst að þessi leið frekar en aðrar leiðir verður ekki töfrasproti sem læknar allt, slíkur sproti er ekki til. Þessi leið er veigamikill hornsteinn ásamt öðrum leiðum að því að byggja upp að nýju betra samfélag í kjölfar hruns.

Í öðru lagi varðandi persónuupplýsingarnar þá þykir mér það nokkuð góð lýsing sem kær vinkona mín sagði í morgun að lekinn sýni svo sannarlega allar hliðar mannlífsins. Vonandi lærum við eitthvað af þessu. Lærum að það sem við sendum í gegnum netið verður að öllum líkindum einhvers staðar á netinu um ókomna tíð og því ber að gæta þess hvað maður sendir frá sér. Kannski verður þetta líka til þess að við förum að tala meira saman því það sem maður getur ekki sagt beint við aðra manneskju er kannski betra ósagt. Í lífinu almennt er ágætt að staldra við og velta fyrir sér hvernig maður breytir dags daglega því stundum er sagt að geri maður það ekki hitti hlutirnir mann sjálfan síðar. Þrátt fyrir að það sé freistandi að hneykslast á náunganum og því sem hann/hún hefur sent frá sér er líklega skynsamlegra að velta því fyrir sér hvað maður sjálfur hefur sent og gert því náunganum getur maður ekki breytt en dag hvern getur maður unnið að því að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur