Laugardagur 25.11.2017 - 00:26 - FB ummæli ()

Byltingin er rétt að byrja

Í kvöld sótti ég gleðihitting kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum sem haldinn var á vegum hópsins Í skugga valdsins. Þarna voru konur úr öllum flokkum, úr ólíkum stöðum innan stjórnmálanna og á ólíkum aldri. Yngsti þátttakandinn var nokkurra mánaða gömul. Byltingin er hafin. Hún er löngu hafin. Hún hefur smám saman verið að losna úr læðingi og nú er allt komið á fulla ferð.

Konur hér á landi hafa stigið fram í hverri byltingunni á fætur annarri, í Druslugöngunni, sagt sögur sínar á Beauty tips vefsíðunni, undir myllumerkjunum #höfumhátt #metoo #ískuggavaldsins og ýmsum öðrum. Byltingin er ekki bara hér á landi því hún á sér stað um allan heim.

Konur hafa sagt upp feðraveldinu. Við erum ekki til skrauts frekar en karlmenn en við getum verið fallegar rétt eins og karlmenn. Við höfnum kynferðislegri áreitni og við höfnum kynbundnu ofbeldi með öllu, bæði gagnvart konum og körlum. Konur rétt eins og karlar njóta þess að fá falleg hrós og finna fyrir hlýju. Það skiptir hins vegar máli hvort það sé viðeigandi. Sá sem ekki getur greint á milli kynferðislegrar áreitni og hróss eða hlýju ætti bara að sleppa því að reyna.

Komum fram við hvert annað af virðingu. Förum ekki yfir mörk hvers annars. Við vitum yfirleitt alveg hverja við viljum faðma og hverja ekki. Maðurinn minn má klípa mig í rassinn en aðrir mega það ekki. Það er ekki flóknara en það. Það eru mín mörk og ég hef fullt leyfi eins og hver önnur manneskja til þess að setja þau. Höfum líka í huga að þegar við förum yfir mörk annars fólks þá getur það kallað fram mikla vanlíðan t.d. fyrir konu sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi. Umræðan ein og sér getur verið mikil áskorun fyrir þær sem þolað hafa ofbeldi.

Mikilvægt er að hafa í huga að líklega koma alvarlegustu atvikin ekki fram i þessum sögum. Sú menning sem við viljum uppræta er hins vegar jarðvegur fyrir þau. Af umræðunni sé ég að sumir karlar og meira að segja konur gera lítið úr sumum sögunum. Þetta sé nú ekki neitt, það megi bara ekkert lengur. Ein athugasemd sem ég sá í kvöld var: t.d. svona

„Ragnhild Hansen · Akureyri: EF AÐ þetta er nu öll kynferðislega áreitnin og að menn megi ekki segja orð við konu á lettu nótuunum þá sja nu allir „KLIKKUNINA“…..“

Fólk ætti að fara varlega í að dæma. Þessar sögur segja ekki alla söguna. Þeirra hlutverk er eingöngu að veita ákveðna innsýn.

Með því að berjast hjálpum við vonandi þeim sem geta það ekki þessa stundina. Með því að segja sögur okkar erum við að hefja byltingu og breyta samfélaginu. Við erum að uppræta samfélag þar sem karlar taka sér það vald að halda konum niðri með því að beita þær ofbeldi, áreita þær eða gera lítið úr þeim. Konur eru jafnvígar körlum og það á að endurspeglast í samfélaginu í heild sinni. Það á að endurspeglast í stjórnmálaflokkunum.

Byltingin er líka gerð til þess að opna augu þeirra sem hafa ekki gert sér grein fyrir áhrifum gjörða sinna. Sumt af því sem konur segja frá er ekki hegðun sem hefur neikvæða ætlun. Síðast en ekki síst er byltingin mikilvæg til að opna augu kvenna sjálfra því okkar viðbrögð skipta mestu þegar við verðum fyrir áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Við eigum aldrei að taka ábyrgð á hegðun annarra og sitja uppi með skömmina. Við eigum að svara slíkri hegðun og skila skömminni samstundis.

Ég ætla að berjast áfram og taka þátt í þessari byltingu. Fyrir sjálfa mig, fyrir allar konur sem ég þekki og síðast en ekki síst fyrir yngsta þáttttakandann í kvöld sem mun kannski feta veg stjórnmálanna. Ég vil að hún upplifi ekki það sama og við höfum upplifað.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur