Fimmtudagur 23.11.2017 - 00:05 - FB ummæli ()

Í skugga valdsins

“Það verður munur þegar þú kemst inn á þing, þá verður eitthvað fallegt að horfa á í ræðustól Alþingis”. Þetta sagði ungur karlmaður við mig. Er það hlutverk þingkvenna að vera fallegar í ræðustól fyrir karla að horfa á? Yrði þetta einhvern tíma sagt við karlkyns frambjóðanda?

Mæti í grænum kjól á viðburð í tengslum við nýafstaðnar kosningar. Eldri maður kemur að mér og segir: „Vertu sem mest í þessu græna pilsi í kosningabaráttunni“ með ákveðinn svip. Fór ekki í þennan kjól eftir það! Yrði einhvern tímann sagt við karlkyns frambjóðanda „vertu sem mest í þessum grænu buxum“?

Fór í vinnustaðaheimsókn með oddvita framboðsins (ég skipaði 2. sætið) á karlavinnustað. „Flott hjá þér að hafa eina svona fallega með þér“. Ég svaraði: „Ég er nú ekki í þessu til þess að vera til skrauts“. Yrði einhvern tímann sagt við konu sem væri oddviti um karl í öðru sæti: „Flott hjá þér að hafa einn svona fallegan með þér“?

Vinnustaðaheimsókn á karlavinnustað að dreifa bæklingum með mynd af oddvita framboðsins ásamt formanni og varaformanni flokksins. „Af hverju er ekki mynd af þér þarna? Þú ert miklu sætari heldur en…“. Yrði einhvern tímann sagt við karlkyns frambjóðanda: „Af hverju er ekki mynd af þér þarna? Þú ert miklu sætari heldur en Jói…“.

Ég fékk tölvupóst fyrir nokkrum árum frá áhrifamiklum þingmanni flokksins sem fór fram á afsögn mína úr því embætti sem ég skipaði innan flokksins vegna þess að hann taldi mig (ranglega) bera ábyrgð á frétt sem honum líkaði ekki. Hann bað mig svo afsökunar. Síðar kom í ljós að hann hefði tilkynnt formanni flokksins og framkvæmdastjóra að hann hefði farið fram á leiðréttingu á fréttinni, hellt sér yfir nánustu samstarfskonu mína og tilkynnt að ef þetta yrði ekki gert hefði hann veiðileyfi á mig og hygðist nota það. Myndi kona einhvern tímann fara fram á afsögn og gefa sér veiðileyfi á karlmann í sama flokki vegna einhvers sem hún teldi viðkomandi karl hafa gert án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því? Hvað ætli það þýði að hafa veiðileyfi á aðra manneskju?

Var á ferð með hóp í tengslum við stjórnmálin úti á landi þegar ákveðið var að fara á ball. Við vorum öll keyrð í rútu. Ég kom inn í rútuna og þar voru engin sæti laus. Þá grípur einn þingmaður flokksins (giftur) í mig og skellir mér í fangið á sér um leið og hann segir „hún er sætasta stelpan á ballinu“!

Ég hafði talað mikið fyrir baráttumálum fatlaðs fólks þegar ég var að hefja þátttöku mína í stjórnmálum þá 28 ára. Ég fékk vinabeiðni frá manni í hjólastól sem ég hugsaði að hefði sennilega áhuga á því að fylgjast með baráttumálum mínum á þessu sviði. Þangað til að hann sendi mér skilaboð eftir miðnætti á laugardagskvöldi og spyr mig m.a. hvort ég sé í sokkum! Ég sagði honum að ég myndi eyða honum út af vinalistanum.

Annar maður fór að senda mér ýmis skilaboð og ég taldi hann vilja hafa samskipti við mig vegna stjórnmálanna því ég vissi að tengingin væri þar og taldi að þess vegna hefði hann sent mér vinabeiðni. Þangað til að hann fór að reyna að bjóða mér út að borða. Ég afþakkaði og sagði honum að fyrir það fyrsta þá væri hann 18 árum eldri og í öðru lagi þá væri hann giftur.

Í nýafstaðanni kosningabaráttu fékk ég ýmsar skeytasendingar frá nokkrum karlmönnum meðal annars í gegnum samskiptamiðla. Þeir höfðu samband seint á kvöldin, voru að spyrja mig hvað ég væri að gera og að minnsta kosti einn reyndi nokkrum sinnum að hringja í gegnum facebook. Þessir aðilar voru ekki að senda inn neinar athugasemdir sem tengdust framboði mínu og af síðunni minni sést vel að ég er í sambandi.

Við vorum nokkur á vinnufundi úti á landi. Um kvöldið var eldaður góður matur og fengið sér í glas. Þegar leið á kvöldið og allir voru að tygja sig í háttinn kemur karlmaður úr hópnum að mér (giftur og talsvert eldri en ég) tekur utan um báðar kinnarnar á mér og reynir að stýra höfðinu á mér að munninum á sér um leið og hann segir „mig langar að kyssa þig“. Ég náði einhvern veginn að snúa honum frá á mjög kurteisilegan hátt (held hann hafi samt kysst mig á kinnina) .

Í nýafstöðnum kosningum hitti ég hóp þeirra sem höfðu unnið í baráttunni. Þar hélt ég stutta ræðu sem var á tilfinningalegum nótum þegar karlmaður í hópnum lætur eins og hann sé að fara að gráta undir ræðunni og tókst þannig að slá mig út af laginu. Þegar við komum svo á kosningavökuna elti hann mig um, tók nokkrum sinnum óumbeðið utan um mig og var með alls kyns skipanir um það hvar ég ætti að standa til þess að ég sæist í mynd og annað og sagði mér að ég ætti ekki að vera svona hlédræg! Í stað þess að confronta hann og segja honum að mér þætti þetta óþægilegt og ég hefði engan áhuga á nærveru hans þá reyndi ég að leiða hann hjá mér sem gekk mjög illa því hann hélt bara áfram. Ég beið svo bara eftir að maðurinn minn kæmist til mín því þegar hann var kominn þá lét þessi aðili mig vera.

Það er frekar magnað þegar kona leiðir hugann að þessum málum hvernig minningarnar koma fram ein af annarri og sögurnar verða sífellt fleiri og það er sláandi að átta sig á því hvernig ég hef ýtt þeim til hliðar eins og einhverju sem skiptir engu máli. Sumt af þessu skilgreini ég sem áreitni, annað kynferðislega áreitni og ákveðin atriði lýsa hreinum yfirgangi karlmanna. Inn á milli í mínum reynsluheimi eru atriði sem er túlkunaratriði hvað um er að vera. Kannski var það áreitni, kannski var það eitthvað sem var vel meint en kom illa út. Það veit ég ekkert um. Ég veit hinsvegar að í mörgum þessara tilvika fann ég fyrir skömm, varð hissa og fór úr jafnvægi. Það sem ég er mest hissa á þegar ég rifja þetta upp eru mín eigin viðbrögð. Hvers vegna í ósköpunum lét ég svona framkomu yfir mig ganga án þess að stöðva þá strax á staðnum? Ég held að í sumum þessara atvika hafi ég ekki viljað vera með vesen því þessi atvik eiga sér stað þar sem á að ríkja gleði og gaman í hópi fólks. Með því að skammast mín er ég að taka ábyrgð á hegðun þessara aðila sem ég hafði enga stjórn á. Skömmin er ekki mín og henni er ég að vissu leyti að skila með þessum skrifum til þeirra sem hana eiga. Í mínum huga skiptir ekki öllu máli að hrópa á torgi hver gerði hvað. Þeir vita það sem þetta eiga. Aðrir þurfa ekki að hafa áhyggjur af sinni hegðun og flestir karlmenn eru til fyrirmyndar. Mér finnst skipta máli að við konur deilum þessum sögum á hvaða hátt sem hentar hverri og einni því þær opinbera menningu sem við viljum breyta. Þessi menning heldur konum niðri, dregur úr möguleikum þeirra á því að standa til jafns við karlmenn í því hlutverki sem skiptir máli að þær sinni sem er að stjórna hér landinu og sveitastjórnum eða taka þátt að öðru leyti öllum til farsældar. Það gengur betur þegar konur eru til jafns við karla við völd og þess vegna skiptir þetta okkur öll máli.

Að lokum ætla ég að deila nokkrum myndum. Ég er varaþingkona og sumum finnst þessar myndir kannski ekki við hæfi fyrir konu í þeirri stöðu sem er að kynna sig. „Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“ (Ragnar Önundarson, 2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur