Miðvikudagur 25.10.2017 - 00:38 - FB ummæli ()

Málefni fatlaðs fólks

Það verður seint sagt að málefni fatlaðs fólks séu fyrirferðarmikil í þessari kosningabaráttu. Þessi málefni ættu samt sem áður að vera grundvallarmálefni því þau snúast um mannréttindi samborgara okkar. Málefni fatlaðs fólks voru ástæða þess að ég fór fyrst að skipta mér af pólitík fyrir tíu árum síðan. Þá fannst mér of mikil gjá á milli þess sem ég upplifði sem starfsmaður á sambýli fatlaðs fólks og þess sem stjórnmálamenn töluðu um. Svo sat ég ráðstefnur þar sem lausnirnar komu fram en þá voru stjórnmálamennirnir farnir.

Fundur með Átaki

Fundur með Átaki

Ég vil hrósa Átaki, félagi fólks með þroskahömlun sem bauð fulltrúum stjórnmálaflokkanna í kosningasjónvarp í Hannesarholti og streymdu því beint á síðu sinni.

 

 

 

 

 

 

 

Mikilvægustu verkefnin sem við stöndum frammi fyrir á komandi kjörtímabili eru að mínu mati þessi:

  1. Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
  2. Lögfesta Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

Í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að minna sig á að við höfum tvö eyru en einn munn. Okkar hlutverk er að hlusta á þá sem best þekkja til á sviðinu og vinna út frá því ásamt niðurstöðum rannsókna. Þarna á ég við notendur, fjölskyldur þeirra, fagfólk, rannsakendur og aðra sem láta sig málin varða. Ekkert um okkur án okkar!

Það er grundvallaratriði að vinna út frá hugmyndafræðinni um sjálfstætt og eðlilegt líf til jafns við aðra og mannréttindi. Við eigum ekki að bjóða öðrum upp á það sem við gætum ekki hugsað okkur sjálf eða vildum ekki fyrir okkar nánasta fólk. Við þurfum líka að efla möguleika fatlaðs fólks á því að eiga sömu sjálfsögðu tækifæri og allir aðrir í samfélaginu. Þar á ég við möguleikann á að eiga sitt eigið heimili, taka þátt í námi eða starfi við hæfi, lifa fjölskyldulífi, sinna tómstundum og öðru sem gefur lífinu gildi. Það eiga allir rétt á því að skapa sér hamingju og nýta sitt tækifæri hér á jörðinni til fulls. Það er hlutverk okkar sem stjórnmálamanna að tryggja það að samfélagslegu kerfin okkar lagi sig að ólíkum þörfum. Undanfarið hefur verið bent á ýmis dæmi um ósveigjanleika kerfisins þar sem þörfum fólks gæti verið mætt betur og á hagkvæmari hátt ef kerfið væri tilbúnara að laga sig að einstaklingsmiðaðri þörf hvers og eins. Einnig er aðgengi ábótavant allt of víða. Vefsíður eru of oft ekki byggðar upp með þarfir fatlaðs fólks í huga og þröskuldar eru víða í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Úr þessu getum við bætt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég vil taka þátt í þeirri vinnu í góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila og óska því eftir atkvæði þínu til að ég nái kjöri á laugardag.

X-B

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur