Miðvikudagur 10.9.2014 - 17:21 - FB ummæli ()

Er þjóðin of feit?

Ómögulegt er að skýra út viðsnúning forsætisráðherra sem núna vill hækka matarskattinn en barðist harkalega gegn öllum slíkum hugmyndum fyrir örfáum árum þegar hann var í stjórnarandstöðu. Þetta lítur skelfilega pínlega út fyrir blessaðan manninn.

Ég heyrði í trúum og tryggum framsóknarmanni sem bar í bætifláka fyrir sinn mann og vildi meina að hækkunin væri af góðum hug, að forsætisráðherra vildi sporna gegn offitu. Sigmundur er náttúrlega sérfræðingur á sviði íslenskra kúra, þekkir málið út í hörgul og hefur eðlilega viljað grípa til mannúðlegra aðgerða.

Vill nokkur vera of feitur? Hmm.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.8.2014 - 20:46 - FB ummæli ()

Fylkisflokkurinn

Hvernig má það vera að land sem hefur hærri þjóðartekjur á mann en Þýskaland  geti ekki rekið sómasamlega heilbrigðisþjónustu. Hvernig má það vera að land þar sem þjóðartekjur á mann eru svipaður og í Svíþjóð að þá sé almenningur skuldsettur og á lélegum launum.  Staðan er furðulegri í ljósi þess að Ísland rekur ekki útgjaldafrekan her.  Ástæðan fyrir því að þorri almennings ber svo lítið úr bítum af þeim miklu tekjum sem þjóðfélagið aflar er augljós – landinu er  mjög illa stjórnað.

Ég gæti trúað því að stuðningurinn við Fylkisflokkinn  sem vill endursameiningu Íslands við Noreg komi úr tveimur áttum, annars vegar frá þeim kjósendum sem eru lítið að pæla í pólitík og vanir að velja það framboð sem býður  best og  síðan hinn hópurinn sem er orðinn vonlítill á að þjóðin geti sjálf undið ofan af óstjórninni í landinu með því að kjósa ábyrga fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Í sjálfu sér er það undarlegt að þjóð sem aflar svo mikilla tekna sem að framan greinir skuli ljá máls á því að kasta sjáfsfsforræði sínu . Því miður  hefur  óstjórn síðustu ára opnað á þann möguleika í auknum mæli.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.8.2014 - 14:21 - FB ummæli ()

Stóri lekinn og fjölmiðlar

Staða Hönnu Birnu í stóli dómsmálaráðherra er ótrygg vegna leka á upplýsingum um persónu hælisleitanda. Nær útilokað er að ætla annað en að málið upplýsist og hið sanna komi í ljós enda eru embættisfærslur ráðherra undir smásjá umboðsmanns Alþingis, lögreglunnar og ríkissaksóknara. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlýtur að hafa sett málið í forgang sem æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar enda óþolandi að málið rýri trúverðugleika stjórnvalda.

Minna hefur farið fyrir rannsókn á stóra lekanum á þorski út úr reiknilíkönum Hafró. Engin rannsókn fer fram þó að þorskaflinn nú sé 100 þúsund tonnum minni en árið 1924 og helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins. Nánast eina umræðan um stóra lekann sem fram fer í fjölmiðlum fer fram á Útvarpi Sögu. Fyrir nokkru kom forstjóri Hafró í viðtal hjá Ólafi Arnarsyni, dagskrárgerðarmanni á Útvarpi Sögu, og varði þá stefnu að veiða minna til að geta veitt meira seinna — þrátt fyrir að stefnan hafi aldrei gengið upp. Staðan er sú nú að stofnvísitala þorsks er að lækka annað árið í röð þrátt fyrir að stefnunni hafi verið fylgt  út í ystu æsar síðustu árin. Forstjóri Hafró var þess fullviss að rétt væri að fylgja óbreyttri stefnu og voru rökin þau að þorskurinn væri ótrúleg skepna sem þyldi sult betur en aðrar lífverur og þyngdist síðan óhemju mikið loksins þegar fæða væri á boðstólnum. Glefsur úr viðtalinu og viðtalið sjálft má finna hér. Ekki hef ég hugmynd um hvað er verið að fara í viðtalinu en mögulega ætlar forstjórinn að allt önnur efnahvörf fari fram í þorskinum en öðrum skepnum jarðarinnar. Ef svo ólíklega væri væru allar líkur á að veiðiráðgjöf Hafró hefði gengið upp en væri ekki samfelld sorgarsaga. Ástæðan er auðvitað sú að efnaskipti þorsksins eru ekki eitthvert einstakt viðundur í náttúrunni heldur gædd sömu lögmálum og annarra dýra.

Vonandi verða fjölmiðlar og rannsakendur reiðubúnir að snúa sér að stóra lekamálinu þegar menn komast til  botns í lekandanum í dómsmálaráðuneytinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.7.2014 - 00:01 - FB ummæli ()

Bara ef það hentar Elliða

Bæjarstjórinn í Eyjum tekst reglulega á loft í fjölmiðlum og tjáir sig þá gjarnan um sjávarútvegsmál. Elliði var um árabil einn harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum sem rústað hefur búsetu í heilu landshlutunum. Hann sneri síðan við blaðinu þegar hann heimtaði að stjórnvöld tryggðu sérstaklega  öryggi og rétt sjávarbyggða þegar hin meintu hagræðingarspjót frjálsrar sölu veiðiheimilda stóðu á Vestmannaeyjum.

Nú virðist sem bæjarstjórinn hafi enn og aftur snúið við blaðinu og mælir hart gegn því að stjórnvöld taki mið af öðrum sjónarmiðum við skiptingu á veiðiheimildum á makríl en þeim sem stjórnast af þröngum hagsmunum örfárra stórútgerða. Veifað er furðulegu áliti umboðsmanns Alþingis um að stjórnvöld eigi einungis að taka mið af veiðireynslu við úthlutun á  makrílkvóta. Í viðtölum hefur bæjarstjórinn lýst angistarfullur yfir reiði vegna misréttisins sem Vestmannaeyjar og jafnvel sveitarfélögin í landinu urðu fyrir, við að ekki væri eingöngu horft til veiðireynslu við úthlutun á makrílkvóta.  Bæjarstjórinn hljóp yfir þá staðreynd að umræddar veiðar sem mynduðu reynsluna voru í meira lagi umdeildar. Stórútgerðir kepptust nefnilega við að veiða sem mest og skeyttu í engu um hvort verið væri að vinna sem mest verðmæti úr aflanum, þar sem aflanum var landað í miklum mæli í bræðslu.  Allt miðaði að því að komast yfir sem mestan afla sem myndað gæti grunn að kvótaúthlutun.

Einhverra hluta vegna hentar það hagsmunum Elliða að draga taum einstaka stórútgerða en til lengri tíma litið þjónar það hvorki byggðinni né hagsmunum sjómanna í Eyjum.  Hagsmunir sjávarbyggðanna og sjómanna snúast fyrst og fremst um að það ríki jafnræði við skynsamlegri nýtingu á fiskimiðunum og að frjálst markaðsverð fáist fyrir aflann.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.6.2014 - 22:58 - FB ummæli ()

Vill launþegahreyfingin lög á verkföll?

Meirihluti hlutafjár Icelandair er með einum eða öðrum hætti í eigu lífeyrissjóða landsmanna. Fyrirtækið var endurreist af lífeyrissjóðunum eftir að hafa verið tæmt í aðdraganda hrunsins. Nokkrir frægir „viðskiptajöfrar“ komu að rekstrinum í þá daga. Ýmsar fléttur voru hnýttar til þess að draga fé út úr félaginu sem enn er verið að greiða úr.

Forstjóri Icelandair sem áður var formaður LÍÚ notfærir sér þá reynslu sína að nýta þjónustu stjórnvalda og Alþingis þegar einhverjir hagsmunir eru að veði. Í stað þess að eyða löngum stundum inni á erfiðum samningafundum með flugvirkjum  hefur það án efa verið handhægara að kalla þingið saman til þess að setja lög á starfsmenn fyrirtækisins.

Spurningin sem vaknar er hvort þessi aðferð stjórnenda Icelandair sé gerð með vilja eigenda fyrirtækisins, þ.e. launþegahreyfingarinnar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.6.2014 - 19:26 - FB ummæli ()

Jón Gunnarsson hlaut að vita betur

Í vor lá það fyrir að Hafró mældi í hinu árlega togararalli að þorskstofninn færi minnkandi annað árið í röð.  Það lá því ljóst fyrir að ekkert útlit væri fyrir að veiðiheimildir yrðu auknar.  Þrátt fyrir að reynt hafi verið að hífa ráðgjöfina upp með því að taka inn í útreikninga gamlar rannsóknir frá því í fyrra, þá er ráðlögð þorskveiði Hafró fyrir  komandi ár nánast sú sama og í ár.  Sú spurning hlýtur að vakna hvort Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafi vísvitandi verið að blekkja þingheim þegar hann fullyrti að raunlækkun á veiðigjaldi væri mun minna en prósentulækkun veiðigjaldsins gæfi til kynna.  Jón Gunnarsson sagði að nýjar upp­lýs­ing­ar  um horf­ur í veiði, sem ekki voru ljós­ar þegar frum­varpið var samið, gæfu til kynna að þorskveiði yrði aukin um 30 þúsund tonn.

Stóra frétt dagsins er ekki spurningin um hvort þingið hafi verið platað til að lækka veiðigjaldið á fölskum forsendum heldur sú að Hafró viðurkennir að nánast engar líkur eru til þess að það verði aukning á þorksafla á þessum áratug þ.e. ef ráðgjöfinni verður fylgt í blindni. Í glænýrri ráðgjöf Hafró segir:

Framreikningar benda til þess að ef aflareglu er fylgt muni stofninn haldast nokkuð svipaður og hann er í dag (mynd 2.1.9). Óvissan er hins vegar töluverð og því einhverjar líkur á að stofninn og aflinn minnki frá því sem nú er.

Í skýrslu Hafró kemur fram að stærri hrygningarstofn hefur ekki enn skilað meiri nýliðun – Einhverra hluta vegna virðist það alltaf koma reiknisfiskifræðingum jafnmikið á óvart að nýliðunin bregðist. Aldrei er það viðurkennt  að þessi aðferð að veiða minna til að geta veitt meira seinna hefur aldrei gengið upp enda getur hún ekki gengið upp þar sem að hún gengur í raun í berhögg við viðtekna vistfræði.

Nú er kominn fram nýr sökudólgur í nátturunni, þ.e. makríllinn, sem kemur i veg fyrir að reiknilíkön Hafró gangi upp.  Það ætti að vera umhugsunarefni að á umliðnum árum hefur verið veitt gríðarlega umfram alla reiknisfiskifræðilega ráðgjöf af sökudólgnum og hann ætti þess vegna að vera hruninn . Það rekst því hvað á annars horn í svokallaðri vísindalegri ráðgjöf og tímabært að fara málefnalega yfir gagnrýni á hana.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.5.2014 - 23:36 - FB ummæli ()

Ásóknin í náttúruauðlindir þjóðarinnar

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur fóru í stórfelldan einkavæðingarleiðangur í aðdraganda hrunsins. Almenningur sýpur enn seyðið af einkavæðingunni sem einkenndist af subbuskap og olli almenningi stórtjóni. Má nefna mörg dæmi þar að lútandi, einkavæðingu bankanna, Símans, Sementsverksmiðjunnar, Kögunar og Íslenskra aðalverktaka.

Ef einhver lesandi man eftir einhverri vel heppnaðri einkavæðingu meðal framangreindra flokka mætti hann gjarnan leiðrétta mig þegar ég segi að hún hafi enn ekki litið dagsins ljós. Manst þú?

Almenningur ætti að hafa varann á sér þegar formaður Sjálfstæðisflokksins boðar sölu á Landsvirkjun og þar með náttúruauðlindum þjóðarinnar og í sömu andrá að orkan verði seld úr landi um sæstreng.

Skagfirðingar hafa ekki farið varhluta af ásókn stórfyrirtækja og við verðum að spyrna við fótum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.5.2014 - 19:01 - FB ummæli ()

Forsætisráðherra fylgist vel með eyðingu sjávarbyggða

Forsætisráðherra fer nú mikinn í fjölmiðlum og svo mikill er gassagngurinn að orðfærið er nánast   barnslegt.  Allt er í hæstu hæðum, sögulegu hámarki eða á sér ekki hliðstæðu neins staðar annars staðar í heiminum.

Í þættinum Sprengisandi tók Sigmundur Davíð flugið í hástemmdum lýsingarorðum, þegar hann var að lýsa ágæti íslenska kvótakerfisins en hagkvæmnin og arðsemin átti sér ekki sögulega hliðstæðu. Ekki nóg með það heldur sagði forsætisráðherra  veiðigjöldin vera þau hæstu í heiminum! Það var helst að dregið væri í land í viðtalinu þegar talið barst að fyrirhuguðum nauðungarflutningum útgerðarfyrirtækisins Vísis frá Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri, en Sigmundur Davíð ætlaði að fylgjast vel með málinu og ræða mögulegar mótvægisaðgerðir.  Lausnin á vanda sjávarbyggðanna er einfaldur en hann felst í gefa handfæraveiðar frjálsar og án nokkurs aflahámarks og aðskilja veiðar og vinnslu.  Verndunarstefna Hafró hefur beðið skipbrot eins og neðangreint erindi til þingmanna lýsir vel.

 

Til allra alþingismanna:

Innihaldslausar fullyrðingar og ósannindi um kvótakerfið og árangur fiskveiðistjórnunar.

Bakgrunnur kerfisins  er að  Hafrannsóknastofnun hafði lofað í mörg ár að með vísindalegri stjórn veiðanna væri unnt að hámarka afrakstur fiskimiðanna, afli yrði hámark þess sem miðin gæfu af sér og yrði jafn og stöðugur.  Í upphafi, þegar talað var fyrir vísindalegri stjórn veiða,  var því lofað að jafnstöðuafli þorsks yrði 500 þús tonn á ári.

Þegar útlendingar hurfu af miðunum 1976  var svo hægt að hefjast handa við að stjórna veiðunum og fiskifræðingar Hafró lögðu línuna:  Draga úr veiðum á smáfiski svo hann fengi að vaxa og dafna og veiðast stærri.

Þessi hugmyndafræði gekk ekki upp, fiskur fór að léttast og afli minnkaði. Þorskaflinn árið 1983 datt niður í  300 þús tonn, sem þótti þá algjört hrun í afla. Tækifærið var notað til að setja kvótakerfið á. Vísindamenn reyndu ekki að skýra hvers vegna þetta hafði gerst en börðu hausnum við steininn og héldu áfram að reyna að byggja upp þorskstofninn án árangurs.  Nú er þorskafli um 200 þús. Tonn, en var 300 þús tonn 1983 þegar menn héldu að stofninn væri hruninn og kerfið var sett á. Aflinn var  4-500 þús tonn í frjálsri sókn áður en landhelgin var færð út.

Hér á eftir eru teknar fyrir ýmsar fullyrðingar,  sem hafa verið hafðar í frammi og athugað í ljósi reynslunnar hvort þær eigi sér einhverja stoð:

  1. Íslenska kvótakerfið er besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Þetta er algeng ályktun kvótasinna og viðtekinn sannleikur í áróðri LÍÚ.
  2. Þetta aflamarkskerfi svokallað ber í sér alla þá galla, sóðaskap og spillingu sem þekkt er í útgerð og fiskveiðum: A. Brottkast. B. Tegundasvik. C. Undanskot frá vigtun.
  3. Á íslandi er best rekni sjávarútvegur í heimi.
  4. Milljarðatap og afskriftir eru fastir þættir í fréttum af útgerðum. Endurnýjun hæg og nánast engin utan smábátaútgerðar sem á í vök að verjast vegna skorts á aflaheimildum. Útgerðir leigja frá sér aflaheimildir (sameign þjóðarinnar) fyrir okurverð;  mörg dæmi um að mestur hluti afurðaverðs gangi til seljanda aflaheimildanna. Áróður LÍÚ gegn veiðigjöldum er að þau séu of íþyngjandi og séu að – eða búin að – setja útgerðir í rekstrarþrot. Fréttir af rekstrarþröng smábátaútgerða nær óþekktar. Hér er lagt til og talið utan allrar áhættu að gefa handfæraveiðar frjálsar með þeirri varkárni þó að smábátum sé ekki att til veiða í illviðrum.

 

3. Haldið er fram að hagkvæmara sé að sækja fisk með fáum skipum og stórum en mörgum og smáum.

  1. Það er margsannað og allir útreikningar sýna að kostnaður pr. rekstrareiningu á stærri skip (togara) er MARGFALDUR í samanburði við smábátaútgerðir.

Auk þess er ekki alltaf spursmál um  það sem hagfræðingar kalla hagræðingu eða gróða við fiskveiðar heldur hve marga fiskveiðarnar geta brauðfætt, og er þá t.d. átt við að margar fjölskyldur geta haft lifibrauð sitt af útgerð og styðja samfélagið með sköttum sínum og gjöldum auk þess að skapa veltu í samfélaginu.

5. Því er haldið fram af fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunar að botnfiskstofnar við Kanada og Nýfundnaland hafi horfið vegna OFVEIÐI.

Þessi kenning stenst varla í ljósi þess að mælingar fyrir hrun sýndu til muna sterkari stofn en skilaði sér í veiddum fiski. Það er mjög lítið rætt um að lækkað hitastig breytti ætisskilyrðum á veiðislóðum á þessum tíma, nokkuð sem olli hægari vexti og aukinni dánartölu. Gögn sýna greinilega að fiskurinn veslaðist upp af hungri. Friðun á smáfiski skilar ekki sterkari veiðistofni nema því aðeins að nægt fæðuframboð sé fyrir hendi. Það er líffræðileg staðreynd sem öllum á að vera vel skiljanleg.

 

Árangur af verndarstefnu Hafrannsóknastofnunar er minni en  ENGINN því nú fiskum við minna en við veiddum fyrir daga kvótakerfisins og fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr 6 mílum í 12.

Afskipti og verndun Hafró virðist hafa orðið að stórslysi í öllum samanburði við fyrra ástand. Helstu nytjastofnar okkar í botnfiski skila ekki nema hluta þess sem áður veiddist. Þrátt fyrir þetta og margar rökréttar og faglegar ábendingar heldur Hafró áfram sinni stefnu og neitar að ræða hvað fari úrskeiðis. Eina svarið sem fæst er að fara þurfi varlega til að koma í veg fyrir ofveiði.

Færeyingar tóku upp íslenska kerfið undir lok síðustu aldar og notuðu það í tvö ár. Eftir þá reynslu lögðu þeir það niður og gefa því falleinkunn í öllum efnum.

Færeyingar hafa engar auðlindir aðrar en fiskveiðar svo þetta segir mikla sögu. Þeir nota sóknarkerfi þar sem því verður við komið og tryggja með því að allur veiddur fiskur kemur á land.Eru líkur á því að við getum talist hafa stöðu til að segja Færeyinga ófæra um að hafa vit fyrir sér í tengslum við sjósókn?

Ef sú kenning fiskifræðinga er rétt að fiskistofnar við Ísland séu í lægð vegna ofveiði og þoli ekki að veitt sé í líkum mæli og áratugum fyrir vísindalega verndun er ástæða til að staldra við nokkur atriði.

Þegar afli brást í verstöðvum á Suðurnesjum og allt umhverfis Ísland eins og oft gerðist á miðöldum (fólk féll úr hungri) er útilokað að kenna ofveiði um. Ef „meint lægðarástand“ þorsk-og ýsustofna við Ísland má rekja til ofveiði undangenginna 30 ára, ÞRJÁTÍU ára, af hverju var ekki traustur jafnstöðuafli á miðum okkar allt fram á tíma stórvirkra botnvörpunga? Svarið við þessu er auðvitað að þetta tal um ofveiði er stórlega ýkt og líklega þó öllu heldur hreint bull.

Vöxtur þorsks og ýsu hefur lengi lélegur, nokkuð sem bendir til takmarkaðrar fæðu en í ofveiddum fiskstofni er fæða í yfirmagni og vöxtur góður. Sveiflur í fiskstofnum eru eðlilegar og ef viðhöfð er jöfn aflaráðgjöf ár eftir ár er það vísbending um vannýtingu fiskistofna.

Úthlutun aflaheimilda er frá 1. september til eins árs í senn og úthlutun myndar ekki eign.

Samt sem áður hefur útgerðum verið heimilað að nota aflaheimildir til andlags/veðsetningar við lántökur. Þetta hefur leitt af sér skýlaust brot á lögunum með því að útgerðir hafa selt skip og aflaheimildir aðskilið eftir geðþótta. Þetta ákvæði er því markleysa í framkvæmd og engar breytingar þar í augsýn. Þar við bætist að þrátt fyrir að kvótinn sé þjóðareign samkv. lögum, leyfist útgerðum hindrunarlaust að leigja frá sér aflaheimildir allt að 50% úthlutunar á opinberum uppboðsmörkuðum!

Norðmenn hafa áttað sig á því að fiskveiðar á að stunda í hlutfalli við fiskgengd á mið og að hættulegt geti verið að veiða of lítið.

Í Barentshafi hefur verið veitt langt umfram tillögur fiskifræðinga í mörg ár og stofninn hefur sífellt stækkað og nú eru veidd þar um ein milljón tonna af þorski. Þeir hafa þeir gefið frjálsar veiðar öllum bátum að 11 metrum. Og þetta á við um veiða á öll þau veiðarfæri sem hefð er fyrir. Af hverju eru handfæraveiðar ekki frjálsar hjá okkur? Er virkilega talin hætta á að handfæri ógni fiskistofnum? Það getur varla verið satt.

Er það pólitískt markmið að nota öll tækifæri til að banna fólki að bjarga sér? Í meira en þúsund ár fiskuðu íbúar sjávarþorpanna umhverfi Ísland í sátt við náttúru lands og sjávar. Og þorpin umhverfis landið byggðust upp kringum útgerð og vinnslu aflans. Í dag er mannlíf margra þessara sjávarþorpa nánast svipur hjá sjón, enda  í nokkrum skilningi komið á uppboðsmarkaði kvótagreifa LÍÚ.

 

Að lokum

Í byrjun apríl s.l. birtust  niðurstöður úr nýjasta ralli Hafró en það er þeirra mæling á stærð fiskstofna og er notuð  til að ákvarða aflamark næsta árs.

Þar kemur fram að vísitala þorsks hefur  lækkað 2 ár í röð, samtals um 25% frá 2012, og lítil von sé um betri nýliðun.  Um nokkurt skeið hefur verið dregið úr sókn til að stofninn muni stækka en það gengur ekki eftir, þvert á móti. Með þessari litlu sókn, 20%,  miðað við 35% fyrir kvótakerfi, hafa tapast gríðarleg verðmæti.

 

Virðingarfyllst:

Árni Gunnarsson f.v.  ferskfiskmatsmaður   –   arnireykur@hive.is

Grétar Mar jónsson skipstjóri  –  sími 8451546

Jón Kristjánsson fiskifræðingur   –   jonkr@mmedia.is

Sigurjón Þórðarson líffræðingur  –  sigurjon@sigurjon.is

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.4.2014 - 21:57 - FB ummæli ()

Morgunblaðið og Húsavík

Framtíð fiskvinnslu á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi er í mikilli óvissu vegna áætlana Visis hf. um að leggja alla starfsemi niður á framangreindum stöðum.  Bæjarráð Norðurþings hefur samþykkt að óska eftir viðræðum við Visi hf. um að festa kaup á starfsemi fyrirtækisins á Húsavík.  Það kemur verulega á óvart í ljósi erfiðrar skuldastöðu Norðurþings að ekki skuli vera nefndar aðrar leiðir til lausnar en að setja á stofn nýja bæjarútgerð á Húsavík. Sveitarfélagið Norðurþing skuldar liðlega tvöfaldar árlegar tekjur sínar og eru skuldirnar því vel umfram lögbundið skuldaþak sveitarfélaga.

Miklu nærtækara væri að sveitarfélagið krefðist gagngerra breytinga á stjórn fiskveiða og að fiskur verði verðlagður á opnum fiskmarkaði.  Með því síðarnefnda væri ekki verið að taka eitt né neitt frá neinum útgerðum heldur að tryggja þeim hæsta verð sem er í boði hverju sinni.  Fiskvinnslur í sjávarbyggðunum væru þá ekki ofurseldar aflaheimildum einstaka útgerða heldur gætu þær sótt hráefni til vinnslu á jafnræðisgrunni á opnum fiskmarkaði. Sömuleiðis stendur það fórnarlömbum kerfisins nærri að krefjast gagngerra breytinga og gagnrýnar umræðu á algert árangursleysi kvótakerfisins. Þorskveiðin í ár er 100 þúsund tonnum minni en hún var árið 1924 og ef farið verður áfram í blindni eftir ráðgjöf reiknisfiskifræðinnar, þá stefnir í verulegan niðurskurð á næsta ári.

Annars er það tímanna tákn um  óháða blaðamennsku á Íslandi að í stjórn Visis hf. skulu sitja tveir stjórnarmenn sem eru nátengdir útgáfu Morgunblaðsins – annar er reyndar útgefandi blaðsins og situr beinlínis á vegum útgáfufélags Morgunblaðsins í stjórninni og hinn á vegum eins af stærstu eigendum blaðsins.  Skipan stjórnar útgerðarfélagsins Visis hf. ætti  örugglega að vera íhugunarefni fyrir marga af lesendum blaðsins á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi og sérstaklega þá sem útgerðarfélagið hyggst flytja hálfgerðum nauðungarflutningum til Grindavíkur.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.4.2014 - 21:41 - FB ummæli ()

Grátlegt brjálæði!

Enn á ný berast staðfestar fréttir af því að veiðistjórn Hafró gangi ekki upp. Þorskstofninn er á niðurleið og sú stefna að veiða minna til að geta veitt meira seinna hefur ekki skilað  neinu nú frekar en áður. Þetta er ekkert nýtt heldur hefur stofninn sveiflast niður á við margoft þó að farið hafi verið nákvæmlega eftir  ráðgjöf reiknifiskifræðinga í rúma tvo áratugi. Albert Einstein sagði  það vera brjálæði að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur og búast við annarri niðurstöðu en áður.

Á Íslandi er ekki hlustað á þá sem haf ítrekað bent á skynsamlegri leiðir og brjálæðinu haldið áfram.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur