Miðvikudagur 24.4.2013 - 00:06 - FB ummæli ()

Hert lúða – Er kreppa á Íslandi?

Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég er að keyra um landið eða þá á sundi – hvort að það sé raunveruleg kreppa í landinu? þetta kunna að hljóma undarlegar vangaveltur á sama tíma og og það berast í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum fréttir af hækkandi lyfjakostnaði, snjóhengjum og ónýtum vegum.

Ástæðan fyrir efasemdum mínum er ekki einungis bygging Hörpu og stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur eða þá  áform um tug milljarða spítalabyggingar eða þá tryllingsleg kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, sem hljóta að slá heimsmet. Ástæðan er ekki síst dellan sem þrífst í kringum stjórn fiskveiða. Við öllu hugsandi fólki blasir dellan og er af mörgu að taka.

Einna verst er árangursleysið og sóunin í kerfinu og ætla ég að nefna hér eitt örlítið dæmi, sem er reglugerð um að andvirði lúðuafla skuli verða gert upptækt. „Árangurinn“ er að magn landaðrar lúðu hefur dregist saman um 90% frá því að reglugerðin var sett. Hver heilvita maður áttar sig á að þær tölur endurspegla ekki breytingar á raunverulegri veiði. Að minnsta kosti er víða hægt að fá herta lúðu og get ég staðfest að hún smakkast afbragðs vel.

Bara þessi eina reglugerð skaðar gjaldeyrisöflun þjóðarinnar um mörghundruð milljónir króna árlega. Mér finnst merkilegt að enginn flokkur, fyrir utan Dögun, opnar á grundvallarendurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hjá fjórflokknum og fylgifiskum hans snýst stefnan meira og minna um hversu mikið á að skattleggja núverandi vitleysiskerfi. Hagsmunaöflin í sjávarútveginum þora lítið að hreyfa við kerfinu af ótta við að missa spón úr sínum sérúthlutunaraski. Það sem meira er: virtasti blaðamaður landsins og lærifaðir þjóðarinnar á sviði mennta, menningar og viðurkenndra skoðana, Egill Helgason, hefur slegið það út af borðinu, eins og hverja aðra fásinnu, að hægt sé að afla meiri verðmæta úr hafinu.

Ef Íslendingar vilja koma sér út úr kreppunni eru svo sannarlega ýmsir vegir færir. Við þurfum að líta okkur nær, nýta það sem við höfum og fara betur með það sem við eigum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.4.2013 - 23:18 - FB ummæli ()

Er margföldunartaflan hætt að virka á Íslandi?

Ég var að horfa á Illuga Gunnarson þingmann, á stöð 2. Í máli hans kom fram að stefna Sjálfstæðisflokksins væri að leyfa fólki að greiða skattfrítt  100 þúsund krónur inn á lán, á mánuð.  Þannig gæfi ríkissjóður eftir 40 þús krónur, á hvern einstakling á mánuði. Á ári yrði upphæðin 40 þúsund kr.  x 12 mán = 480 þús kr. í eftirgjöf.  Ef við gefum okkur að flestir fari þessa leið, enda margborgar hún sig þótt fólk þyrfti að skuldsetja sig fyrir henni, þá lítur dæmið svo út: 480 þús x 150 þús skattgreiðendur = 72.000.000.000 eða 72 milljarðar.  Þetta sagði Illugi að myndi kosta ríkissjóð 16 milljarða!  Kann Illugi og Sjálfstæðisflokkurinn ekki á reiknivél?  Hvað eru blaðamenn að reikna og allar greiningadeildirnar sem hafa verið endurlífgaðar?

Mögulega hefur margföldunartaflan einnig hrunið í hruninu – var ég þó að vona að hún væri enn uppistandandi á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.4.2013 - 18:40 - FB ummæli ()

Óforsvaranlegt kosningaloforð

Ekki þarf mikinn hugsuð til þess að sjá að kosningaloforð Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokksins ganga alls ekki upp.  Í stuttu máli fela þau í sér að ríkissjóður muni verða af megninu af skatttekjum á launatekjur einstaklinga.  Lofað er hundrað milljarða króna skattafslætti með því skilyrði að peningarnir renni inn í bankana til að greiða niður stökkbreyttu lánin.  Auk þess lofar Sjálfstæðisflokkurinn að lækka alla skatta og sömuleiðis að stórauka ríkisútgjöld.  Leið Sjálfstæðisflokksins er leið til gjaldþrots ríkissjóðs á mettíma.

Mér finnst Bjarni Ben komast furðu létt frá þessum tillögum sínum en í Mogganum í dag segir hann að tillögurnar séu hluti af „heildstæðri efnahagsáætlun“.  Ekki fer mikið fyrir rannsóknarblaðamennsku á Morgunblaðinu frekar en á ýmsum öðrum fjölmiðlum.

Það er helst að það hafi sést glitta í rannsóknarblaðamennsku hjá RÚV, þegar þeir tóku formann flokksins Sturla Jónsson í viðtal og fóru nokkuð rækilega yfir vörubílarekstur formannsins, en ég er nokkuð viss um að fjárfestingar hans og skuldsetning fyrir hrunið verði að teljast varfærnar miðað við tillögur margra stjórnmálaflokka þessa dagana. Sömuleiðis tel ég að afskriftir bankakerfisins á formann flokksins Sturla Jónsson verði að teljast örsmáar í samanburði við þær sem tengdust fyrirtækjarekstri formanns Sjálfstæðisflokksins. Kindugt má telja að spyrlar RÚV töldu ástæðu til þess að velta Sturlu upp úr hans óförum í viðskiptalífinu en engin sá ástæðu til þess að spyrja formann Sjálfstæðissflokksins um ógöngur hans.

Mér finnst tímabært að rannsóknarblaðamenn dragi fram vasareiknana og svari þeirri spurningu hvernig dæmi um tillögur flokkanna koma til með að líta út í raun. Að gefnu tilefni er tillögunni einnig beint til Morgunblaðsins.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.4.2013 - 14:02 - FB ummæli ()

Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á gjaldþrot

Talsvert hefur borið á gagnrýni á hókus pókus leið Framsóknarflokksins út úr skuldafeni heimilanna, sem gengur í stuttu máli út á að erlendir kröfuhafar færi hressilega niður kröfur sínar í því langdregna uppgjöri sem fer nú fram í tengslum við hrunið.  Fyrir kröfuhafa getur verið skynsamlegt að gefa eftir skuldir sem augljóslega eru það háar að þær séu ofviða skuldaranum.  Það verður sem sagt gert samkomulag um að  hætta að innheimta peninga sem ekki eru til.  Helsti veikleikinn í töfrunum felst í því að skyndilega verða til mikil verðmæti úr fjármunum sem ekki voru til og síðan hvernig þeim verður síðan veitt sérstaklega inn á heimili landsmanna.

Minna hefur farið fyrir gagnrýni á gjaldþrotaleið Sjálfstæðisflokksins, sem felst í því að nota tekjuskatt einstaklinga til þess að greiða  fasteignaskuldir heimilanna  við fjármálakerfið, um 20%.  Fasteignaskuldir heimilanna eru nú um 1.300 milljarðar, þannig  að heildarkostnaður ríkissjóðs verður um 260 milljarðar króna við þessa aðgerð Sjálfstæðisflokksins.

Í ár er áformað að innheimta um 130 milljarða króna  í tekjuskatt af einstaklingum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er í raun að boða að ríkissjóður verði af öllum tekjuskatti í tvö ár!  Ekki nóg með það þá boðar flokkurinn stórtækar skattalækkanir, m.a. lækkun tryggingagjalds, virðisaukaskatts og tekjuskatts auk auðlindagjalds. Ofan í kaupið boðar flokkurinn stóraukin ríkisútgjöld, sem varið verður í hin ýmsustu verkefni!   Kjósendur ættu að sjá í hendi sér að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að bjóða þeim upp á neitt annað en gjaldþrot ríkisins.

Flokkurinn virðist ekkert hafa lært af hruninu.

Það er ótrúlegt að hvorugur flokkurinn skuli leggja til auðveldustu leiðina til að auka tekjur landsmanna, þ.e. að endurskoða stjórn fiskveiða.

Ég hvet kjósendur til að kynna sér ábyrgari stefnu Dögunar á því að koma á móts við skuldavanda heimilanna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.4.2013 - 19:47 - FB ummæli ()

Morgunblaðið hrasar

Morgunblaðið er eldra en flestar stofnanir landsins, nýlega orðið aldargamalt. Það má segja að það sé orðið hluti af „kerfinu“ og þegar það birtir fregnir af ríkisstofnunum er hætt við því að gagnrýni skorti.

Í Morgunblaðinu í dag segir af miklum árangri Hafrannsóknarstofnunar við að byggja upp þorskstofninn. Þessu til staðfestingar er sýnt línurit af útgefnum kvóta frá 1984 til dagsins í dag og vitnað í niðurstöður nýafstaðins vorralls stofnunarinnar.

Horft er framhjá þeirri staðreynd að niðurstaða Hafró sýndi að stofninn hefur farið minnkandi frá því í fyrra og að útgefinn kvóti endurspeglar ekki alltaf raunverulega veiði. Aldurssamsetning stofnsins nú, gefur til kynna að vegna þess hversu gamall fiskurinn er orðinn og að yngri árgangar eru fáliðaðir í stofninum, þá eru allar líkur á að stofninn fari ört minnkandi á næstu árum.

Ekki er heldur einu orði minnst á að þegar lagt var af stað í núverandi stjórnun var stefnt að því að fá 500 þúsund tonna jafnstöðuafla af þorski á ári og losna við sveiflur í aflabrögðum.

Um síðustu aldamót töldu sömu sérfræðingar að sú stefna, að veiða minna til að geta veitt meira seinna, væri loksins að skila árangri. Margir muna eftir því hvernig fór um sjóferð þá. Menn töldu sig vera að ná verulegum árangri með stjórnuninni og að  niðurskurðurinn á tíunda áratugnum væri loksins að skila ávexti, en í kjölfarið kom mikill niðurskurður á veiðiheimildum. Aftur töldu menn sig vera að sjá árangur af stjórnuninni næstu árin. Enn eitt bakslagið kom árið 2007 og nú árið 2013 telja sömu aðilar enn á ný að stórkostlegur árangur sé handan við hornið, það eina sem skorti á sé að það vanti nýliðun í stofninn.

Athyglisvert er að fram kemur í Morgunblaðinu að það eina sem vantar upp á að uppbyggingin heppnist, sé að það komi sambærileg nýliðun í þorskstofninn og  var á árunum fyrir árið 1985, þ.e. á þeim árum sem meint ofveiði á að hafa farið fram.

Ætla menn ekki að fara að tengja að þegar veiðar eru minnkaðar þá er eðlilega minna pláss fyrir nýliðun í stofninum.

Sérfræðingar Morgunblaðsins ættu að taka saman meðaltals þorskafla síðustu 10 ára og bera hann saman við meðaltöl áratugina á undan. Nokkuð ljóst er að þeir myndu komast að því að veiðiráðgjöfin hefur ekki leitt til aukins afla heldur stöðugt minni afla. Það er því tímabært að fara málefnalega yfir gagnrýni á veiðiráðgjöfina og gaumgæfa hvort ekki sé hægt að gera betur. Augljóst er að við erum ekki á réttri leið.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag kokgleypti gleðifréttirnar um meintan árangur fiskveiðiráðgjafarinnar, en skammaði samt sem áður núverandi stjórnarflokka fyrir árásir á sjávarútveginn! Staðreyndin er því miður sú að núverandi stjórnarflokkar hafa viðhaldið sömu stjórnun og Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðhyllst síðustu tvo áratugina, þess vegna hefði leiðarahöfundur frekar átt að þakka Steingrími J. fyrir.

Eini ágreiningur Sjálfstæðisflokksins og stjórnarflokkanna snýst ekki um stjórnun sjálfra veiðanna heldur um skattlagningu á hagnaði þeirra örfáu sem hafa sérréttindi til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.3.2013 - 16:25 - FB ummæli ()

Sigurður Ingi og Ólína eru Samherjar

Leikrit fjórflokksins er orðið langdregið, þreytt og mjög dýrt fyrir þjóðfélagið.

Látið er í veðri vaka að staðið sé í meiriháttar deilum, en þegar betur er að gáð er varla blæbrigðamunur á þrætuefnunum. Skólabókardæmi um það er deila Ólínu Þorvarðardóttur, spunameistara „nýs fiskveiðistjórnunarfrumvarps“, og Sigurðar Inga Jóhannssonar framsóknarmanns um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár.

Bæði eru þau sammála um að stjórna áfram með núverandi kvótakerfi og hindra nýliðun í greininni þó svo að kerfið hafi gefist afar illa, hvetji til brottkasts og hafi brugðist öllum upphaflegum markmiðum sínum. Þorskaflinn nú er rétt um þriðjungur þess sem hann var fyrir daga kvótakerfisins.

Ljóst er að bæði vilja þau halda áfram með kerfið óbreytt og fara í engu yfir vel rökstudda gagnrýni á kerfið. Einfaldar breytingar og aukið frelsi til fiskveiða gætu orðið gríðargóður búhnykkur fyrir þjóðarbúið.

Samherjarnir eru sammála um að festa núverandi kerfi í sessi, eina ágreiningsmálið er að Ólína vill skattleggja einokunarréttindin aðeins meira heldur en Sigurður Ingi.

Það er bara óvart þannig að 82,5% þjóðarinnar staðfesti það í kosningunum 20. október sl. að auðlindirnar ættu að vera í þjóðareign. Þessi opinberun Framsóknarflokksins á andstöðunni við þjóðarviljann í þessu máli gæti reynst flokknum dýrkeypt í komandi kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.3.2013 - 21:46 - FB ummæli ()

Samfylkingska Magnúsar Orra

Kjaftæðið í þingmönnum Samfylkingarinnar virðist ekki eiga sér nein takmörk. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram, gat ekki á heilum sér tekið í kvöldfréttum RÚV yfir því að mál, sem hann hefur þóst vilja ná í gegn, yrði sett á dagskrá. Þá hét það að málið væri sett í fullkomið uppnám og Samfylkingin vildi reyna að þjóðarvilji næði fram að ganga. Þá vill hann standa uppi með plagg sem fær góða umræðu á Alþingi.

Skjaldborg Samfylkingarinnar um heimilin snerist upp í að verða skjaldborg um verðtryggingu og óbreytt fjármálakerfi. Boðuð breyting á kvótakerfinu varð, eftir fjögurra ára meðgöngu Samfylkingarinnar, að tillögu um að festa kerfið í sessi næstu tvo áratugina.

Það er engin leið að átta sig á merkingu Samfylkingskunnar, sem forystumenn flokksins tala. Skilningur þeirra virðist vera mótsagnakenndur og ruglandi.

Það er hneyksli að þjóðinni skuli vera boðið athugasemdalítið upp á jafn þversagnakenndan málflutning.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.3.2013 - 00:03 - FB ummæli ()

Eru matarmiðar framtíðin?

Í morgun vaknaði ég við suðið í Villa Egils á Bylgjunni, sem mælti mjög fyrir verðtryggingunni og lífeyrissjóðakerfinu sínu. Að hans mati ber engan skugga á kerfið og engu þarf að breyta, nema þá helst að auka greiðslur í sjóðina úr 12% í 15,5%.

Staðreyndin er sú að flatur launaskattur, þ.e. tryggingagjaldið, er um 8% af öllum launagreiðslum. Tekjuskatturinn er um 40% og núna vilja ASÍ og SA taka enn stærri skerf, eða 15,5% af heildarlaunum í lífeyrissjóð. Þegar síðan bætast við síhækkandi álögur og afborganir af verðtryggðum lánum er nánast ekkert eftir í vasa launþega.

Ef fram heldur sem horfir, að sovétlífeyrissjóðakerfið, sem ráðstafar fjármagni lífeyrissjóðanna til útvalinna fyrirtækja, þá verður næsta skref að úthluta matarmiðum til lýðsins í útvöldum verslunum staðreynd. Nú er að sjá hvort að nýr formaður SA, Björgólfur Jóhannsson, muni snúa frá þeirri stefnu, sem framkvæmdastjórinn hefur markað, eða halda áfram vegferðinni að sovétlífeyrissjóðakerfi á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.3.2013 - 11:28 - FB ummæli ()

Dauðir lifna en daufir heyra ekki

Það má segja að dauðir hafi lifnað við þegar litið er á  fréttir BBC , sem sýna  gríðarlega góða veiði úr þorskstofninum í Norðursjónum, sem sagður var nær útdauður af reiknisfiskifræðingum ESB.

Daufir íslenskir fjölmiðlar virðast ekki vilja heyra tíðindin, en þeir voru hins vegar fljótir að flytja „fréttir“  frá einhverjum fræðingnum sem hafði reiknað það út að það væri færri en 100 eldri þorska að finna í öllum Norðursjónum!

Augljóst er á frétt BBC að þessir fáu þorskar virðast allir hafa lent í netum Peter Bruce skipstjóra og sömuleiðis hafa bæst í hópinn þó nokkrir fiskar sem risið hafa upp frá dauðum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2013 - 23:53 - FB ummæli ()

Innanhússrannsókn Samtaka Atvinnulífsins

Það sló mig að lesa ræðu fráfarandi formanns Samtaka Atvinnulífsins, en það var einkum tvennt sem hann óttaðist mest, þ.e. að laun landsmanna hækkuðu og svo hitt að verðtryggingin yrði afnumin.   Sönglið úr herbúðum SA er einkar falskt.

Ekki er boðlegt að kenna óhóflegum hækkunum launa almennings um óðaverðbólguna frá hruni.  Kjör launafólks hafa rýrnað mjög og stefnir landið hraðbyri í að verða láglaunaland á evrópskan mælikvarða. Miklu nær væri að Samtök Atvinnulífsins beittu sér fyrir innanhússrannsókn á orsökum verðbólgunnar og líta þá sérstaklega til innstreymis erlends lánsfjár í þúsunda milljarðakrónatali, sem dælt var inn í uppblásin fyrirtæki og í kvótakaup.  Samtökin gætu líka skoðað hvar ábyrgð þeirra liggur á því að hafa glatað mörghundruð milljörðum af lögbundnum sparnaði launafólks í glæfralegum fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

Það felst enginn stöðugleiki og framþróun í því að gera nákvæmlega allt eins og fyrir hrun, hvort sem það er séríslenska verðtryggingin, lífeyrissjóðakerfið eða kvótakerfið.  Öllum ætti að vera ljóst, og þá sérstaklega áhrifamönnum SA, sem margir hverjir hafa fengið ríkulegar afskriftir sjálfir, að sjálfvirkar hækkanir á skuldum Jóns og Gunnu ganga ekki.  Dæmið gengur alls ekki upp þegar ekki er hægt að hækka laun þeirra og þaðan af síður þegar SA og ASÍ vilja moka ennþá stærri hluta launa þeirra inn í lífeyrissjóðasukkið.

Auðveldasta leiðin til þess að auka verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins er að auka frelsi til fiskveiða.  Núverandi kvótakerfi skilaði minni þorskafla á árinu 2011 en kom á land af Íslandsmiðum árið 1913. Er ekki kominn tími til að tengja?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur