Sunnudagur 19.4.2015 - 17:27 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin er rausnaleg við Kristján Loftsson

Kjarninn reiknaði  það út að heildarvirði makrílkvótans væri um 150 milljarða króna, sem ríkisstjórninn ætlar að úthluta endurgjaldslaust með nýja makrílfrumvarpinu, Ef ríkisstjórn undir forystu framsóknarmannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kemur frumvarpinu í gegnum þingið, þá mun um 15% kvótans renna til HB Granda.  Kristján Loftsson er langstærsti eigandi HB Granda en ætla má að hann ráði yfir um 40% af hlutafé fyrirtækisins í gegnum fyrirtæki sín Vogun og Hampiðjuna.   Það er því ljóst að Framsóknarflokkurinn sem setur að eigin sögn manngildi ofar auðgildi, vill afhenda einum manni sameiginlega auðlind landsmanna sem metin er 9 milljarðar króna og það án endurgjalds!

Vel að merkja að kvótinn sem lagt er til að Kristján Loftsson fái í sinn vasa er  meiri en allur kvóti  í makríl sem ætlaður er til strandveiðiflotans hringinn í kringum landið. Með þessari ákvörðun er ríkisstjórnin að undirstrika að hún sé fyrst og síðast ríkisstjórn ríka fólksins.

Eitt er víst að ef frumvarpið verður samþykkt, þá mun Kristján Loftsson hafa ráð á að splæsa öðrum umgangi af íspinnum á liðið.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.4.2015 - 12:51 - FB ummæli ()

Blaðrað um kerfisbreytingar

Framámenn Framsóknarflokksins fara mikinn í að boða miklar skipulagsbreytingar í húsnæðismálum.  Breytingarnar sem sagðar eru til langrar framtíðar eru lagðar fram algerlega óútfærðar og á allra síðustu stundu!  Það er ekki einu sinni búið að meta kostnað við nýju frumvörpin sem komin eru fram.  Sérkennilegt er að ráðherrann sem ber ábyrgð á málflokknum, Eygló Harðardóttir og töfunum sem hafa orðið á málinu, virðist ekki skynja alvarleika málsins, heldur hefur það í flimtingum. Hún sendi starfsfólki fjármálaráðuneytisins orkustangir til að flýta fyrir einhverjum  útreikningum.  Ekki er þetta stórmannlegt hjá ráðherranum að reyna varpa pólitískri ábyrgð sinni yfir á óbreytt starfsfólk í ráðuneytum.

Allt blaðrið um að koma á nýju kerfi er vægast sagt ótrúverðugt og virðist vera leið ríkisstjórnarinnar að komast hjá umræðu um kjarna málsins.  Hann er að stjórnin hefur lítið sem ekkert gert í húsnæðismálum þeirra sem illa stóðu þegar stjórnin tók við völdum – Staða þeirra hefur versnað á kjörtímabilinu.  Margvíslegar leiðir eru til þess að bæta hag stöðu þessa hóps innan núverandi kerfis ef einhver vilji er hjá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum.  Fyrst ber að telja að lækka raunvexti, afnema verðtryggingu, hækka framlög til húsaleigubóta og breyta tekjuviðmiðum þannig að húsaleigubætur nái til millitekjufólks.

Hvað varð um slagorðið: Engar nefndir – bara efndir? Breyttist það í bara bull og bið?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2015 - 12:51 - FB ummæli ()

Samfylkingin á krossgötum

Það var gott hjá Sigríði Ingibjörgu að bjóða sig fram gegn Árna Páli í formannskjöri Samfylkingarinnar.  Hún greindi hreinskilnislega frá stöðu flokksins og þeirri áru sem umlykur ímynd Samfylkingarinnar. Að mínu viti er ekki persónan Árni Páll Árnason mein flokksins, en hann er sætur og yfirleitt prúður.  Vandinn er sú ábyrgðalausa stefna sem flokkurinn lét leiða sig inn á til að komast til valda með Sjálfstæðisflokknum í hrunstjórninni og síðan öfugsnúin forgangsröðun vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna lagði alla krafta sína í að endurreisa óbreytt fjármálakerfi, þvælast fyrir breytingum á stjórnarskrá, standa vörð um ömurlegt kvótakerfi og síðan að sækja um aðild að Evrópusambandinu þrátt fyrir að þingmeirihluti væri ekki fyrir aðild.

Helstu mistök Árna Páls sem formanns voru að fara ekki í neina vinnu við að endurskoða stefnu flokksins. Ekki hefur Samfylkingin verið áberandi í umræðu um að koma á nýrri stjórnarskrá og beinu lýðræði eða nokkurri endurskoðun á fjármálakerfinu.  Formaður Samfylkingarinnar hefur lokað á umræðu sem miðar að endurskoðun á stjórn fiskveiða í átt að jafnræði og hefur haldið fast í óbreytt kerfi með þeirri breytingu að hækka álögur á atvinnugreinina. Það er ljóst að enginn sem tengist greininni á nokkurn hátt sér nokkurt ljós í tillögum Samfylkingarinnar – hvorki þeir fáu sem vilja halda í þrönga sérhagsmuni og hvað þá hinir sem vilja raunverulegar breytingar.

Það munaði einu atkvæði að Árni Páll væri flautaður út af vellinum af landsfundarfulltrúum en mér finnst ekki ólíklegt að hann hefði fengið rauða spjaldið með almennari kosningu í flokknum. Nú er spurningin sú hvort að forysta Samfylkingarinnar muni taka þá vantraustsyfilýsingu helmings landsfundarfulltrúa alvarlega og taka stefnuna til raunverulegrar endurskoðunar.  Sjálfur á ég síður von á því og tel líklegra að forystan reyni áfram með óbreytta stefnu og fækki þá áfram í þeim hópi kjósenda sem telja flokkinn vænlegan kost.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.3.2015 - 22:57 - FB ummæli ()

Ósvífnar rangfærslur Sjálfstæðisflokksins

Í síðdegisþætti Útvarps Sögu var Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fenginn af Pétri Gunnlaugssyni til að ræða um sjávarútvegsmál.  Málflutningur þingmanns Sjálfstæðisflokksins einkenndist af beinum rangfærslum, s.s. að aldrei væri landað meiri afla en nú í Sandgerði og á norðanverðum Vestfjörðum  og tiltók hann þá sérstaklega Bolungarvík í því sambandi.  Sömuleiðis hélt hann því fram að  95% af kvótanum hefði skipt um hendur og að þjóðir heims öfunduðu Íslendinga af kvótakerfinu.

Mér finnst það verðugra verkefni fyrir fréttahauka landsmanna að ganga eftir því hvers vegna í ósköpunum formaður Atvinnuvegnefndar á hinu háa Alþingis skuli halda fram þvílíku kjaftæði. Það sér  það hver maður í hendi sér að landaður afli á norðanverðum Vestfjörðum hefur dregist gríðarlega saman og ekki hve síst í Bolungarvík.  Í Bolungarvík voru gerðir út togararnir Dagrún og Heiðrún og í Bolungarvík var einnig rækju- og loðnuverksmiðja en nú er ekkert af framangreindu.  Það hefur svo sannarlega verið landað meiri afla áður í öllum fjörðum Vestfjarða og einnig í Sandgerði. Þetta á Jón Gunnarsson að vita rétt eins og að hann veit að það er alls ekki rétt að 95% af gjafakvótanum hafi skipt um hendur og sé að mestu kominn í hendurnar á litlum fjölskyldufyrirtækjum  eins og hann gaf í skyn.  Staðreyndin er að þeir sem voru stórir fyrir daga kerfisins hafa notað aðstöðu sína til að sölsa undir sig veiðiheimildir minni útgerða.

Fyrir utan allar rangfærslurnar, þá var vægast sagt sérkennilegt að hlýða á fulltrúa evrópsks stjórnmálaflokks, sem kallar sig  lýðræðislegan hægriflokk, finna alla mögulega og ómögulega meinbugi á því að heiðarleg samkeppni á jafnræðisgrundvelli ráði í undirstöðuatvinnugrein landsmanna.

Áhugavert var að þingmaður Sjálfstæðisflokksins reyndi hvað hann gat að leiða talið frá stjórn fiskveiða og að óskyldum málum, s.s. stóriðju, orkuöflun og ferðaþjónustu.  Ef að Sjálfstæðismenn vissu ekki upp á sig skömmina og væru í raun og sanni stoltir af kvótakerfinu þá væru þingmenn ekki á stöðugum flótta undan umræðunni og settu málið á dagskrá sem víðast.

Svo er alls ekki, heldur eru þeir á stöðugum flótta, líkt og nýi lögreglustjórinn í Reykjavík.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.3.2015 - 21:38 - FB ummæli ()

Ríkissjóður the biggest lúser!

Ég gat ekki annað en varist brosi þegar ég renndi yfir glænýtt uppkast fjármálaráðherra að frumvarpi að lögum um breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tillaga fjármálaráðherra gefur lögbrjótum umþóttunarfrest til 30. júní 2016 til þess að gera það upp við sig hvort að þeir kæri sig um að fara  skattalögum, án þess að sæta ábyrgð. Það sem sætir sérstakri furðu er að tillagan er sett fram á þeirri stundu sem yfirvöldum gefst kostur á að fá greinargóðar og áreiðanlegar upplýsingar um lögbrjótana!

Það er kristaltært að fjármálaráðherra hefur alls ekki verið að hugsa um hag ríkissjóðs þegar tillagan var samin heldur að raska ekki ró auðmanna sem mokað hafa fjármunum í útlend skattaskjól.  Það er rétt að setja tillöguna í samhengi við niðurskurð ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á fjármunum til Sérstaks saksóknara.

Það væri eftir öðru á mínum gamla vinnustað ef að búið væri að semja við Vg, S og BF um að tillagan um sérstaka gæsku til handa auðmanna renni hratt og örugglega í gegn sem landslög.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.3.2015 - 21:29 - FB ummæli ()

Hetja RÚV er Björgólfur Thor!

Í fréttum RÚV var greint frá því að Björgólfur Thor hefði náð þeim mikilvæga áfanga að komast á ný á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Ekki gat fréttamaður RÚV leynt aðdáun sinni á einstöku afreki Björgólfs.

Í fréttinni var hins vegar ekki getið um fyrri afrek kappans sem voru þau að skuldsetja helstu fyrirtæki og fjármálastofnanir landsmanna langt upp fyrir rjáfur og flækja íslenskan almenning í milliríkjadeilur vegna Icesave-reikninganna. Fyrirtækin sem tæmd voru af eignum og skilin eftir skuldsett og gjaldþrota voru m.a. hið aldargamla Eimskipfélag Íslands og Landsbanki Íslands.

Reyndar er íslenska bankagjaldþrotið eitt af stærri gjaldþrotum fyrirtækja veraldarsögunnar og að auki var lánið sem eignarhaldsfélag Björgólfsfeðga tók til að greiða fyrir ríkisbankann Landsbanka Íslands á sínum tíma aldrei greitt. Mér fannst það því nánast kjánalegt að horfa á ágætan fréttamann íslenska ríkisins lýsa gagnrýnislaust sigrum „athafnamannsins“ Björgólfs Thors  Björgólfssonar.

Augljóst ætti að vera hverri skyni borinni veru að ábyrgðarlaus skuldsetning höfuðpaura hrunsins hefur haft gríðarlegar afleiðingar fyrir fjárhag þjóðarinnar sem birtist m.a. í bágbornu húsnæði Landspítalans, of litlu viðhaldi vega, háum sköttum, tapi lífeyrissjóða og forsendubresti heimila.

Mér finnst ekki ósanngjarnt að RÚV setji hlutina af og til í samhengi.

Lán Búnaðarbankans til Samson til kaupa á Landsbankanum

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.2.2015 - 18:15 - FB ummæli ()

Er búið að ÍNN-væða RÚV?

Eitt af hlutverkum RÚV er að gæta  óhlutdrægni í frásögn og túlkun  og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem varða almenning.

Ríkisstjórnin hafði áform um að leggja fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða sem fól að sögn kunnugra minnst um hvernig stjórna ætti veiðum úr villtum dýrastofnum.  Frumvarpið fjallaði  nefnilega að nær öllu leyti um að gefa örfáum einokunarrétt til áratuga á að nýta fiskimiðin og sömuleiðis heimildir til veðsetningar og sölu á sameigninni. Frumvarpið snérist því augljóslega ekki um stjórn veiða heldur fyrst og fremst  um afhendingu á almannaeign til örfárra og síðan kvótabrask.

RÚV  hefur  alls ekki haft í heiðri framangreint lögbundið hlutverk sitt í umfjöllun um málið, heldur hefur verið vettvangur einhliða áróðurs þröngra hagsmunasamtaka. RÚV  hefur ítrekað opnað fyrir krana áróðurs og hæpinna fullyrðinga SFS (áður LÍÚ) um ágæti núverandi einokunarkerfis og nauðsyn þess  að festa það í sessi til eilífðar.  RÚV hefur ekki spurt einnar gagnrýninnar spurningar um ágæti kerfis sem skilar helmingi minni þorskafla en fyrir daga þess, – engrar spurningar um hvers vegna íslenskur fiskur hefur farið halloka á erlendum mörkuðum, – engrar spurningar um  tvöfalda verðlagningu á fiski og ekki heldur um samfélagsleg áhrif kerfisins.

Í Vikulokunum í  morgun hélt hrein og tær kranablaðamennska RÚV áfram. Fréttamaðurinn,  sem óvart er dóttir fyrrverandi ráðherra sem var einn helsti áhrifamaður þess að frjálsu framsali veiðiheimilda var komið á,  fékk framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ)  til að dásama í rólegheitunum einokunarkerfi sem kemur algerlega í veg fyrir alla nýliðun. Málflutningur framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ)  var mjög ósvífinn – Hvað á það að þýða hjá framkvæmdastjóranum að  gefa það í skyn að auðlindagjaldið sé helsta orsök þess að byggð vítt og breitt um landið  s.s. í Grímsey sé að leggjast af? Auðvitað er það sjálft kerfið sem veldur því og  við svona dellumálflutning á blaðamaður sem vill standa undir nafni að gera athugasemd.

Ég hef það á tilfinningunni að ástandið á RÚV hafi versnað frá því að Magnús Geir Þórðarson tók við sem útvarpsstjóri. Umræðuþættir hafa annað hvort verið teknir af dagskrá eða þá að  þeir eru orðnir líkari þeim sem er að finna á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem Já-hirð Sjálfstæðisflokksins hittist og mærir LÍÚ og Sjálfstæðisflokkinn, í tíma og ótíma. Ef að RÚV væri að standa sig, þá væri beinlínis verið að leita eftir vel rökstuddum andstæðum sjónarmiðum um stjórn fiskveiða, í stað þess að útvarpa eingöngu billegum áróðri fjársterkra einokunarfyrirtækja.

Það kæmi mér ekki á óvart ef að norska ríkisútvarpið verður á undan RÚV með umfjöllun um íslenska kvótakerfið með hlutlægum hætti.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.2.2015 - 23:55 - FB ummæli ()

Stjórnarandstaðan er föst í frösum

Það var einkennilegt að hlusta á viðbrögð  stjórnarandstöðunnar við þeim fréttum að ríkisstjórnin væri hætt við að leggja fram umdeilt frumvarp um stjórn fiskveiða.  Rætt var við leiðtoga Samfylkingar, BF og síðan Steingrím J. sem enn virðist ráða því sem hann ráða vill í Vg.  RÚV sleppti því algerlega að taka púlsinn á Pírötum við vinnslu frétttarinnar. Ég saknaði þess að fá ekki fá ekki að heyra í þeim þar sem málflutningur hinna var ekki upp á marga fiska.

Ekki bar á öðru en að þremenningarnir söknuðu þess sárlega að frumvarpið hefði ekki komið fram þrátt fyrir að það mætti skilja á félögunum að frumvarpið væri ónýtt!

Inntak rökstuðnings formanns Samfylkingarinnar virtist vera vel æfðir frasar, beint frá LÍÚ, um að ríkisstjórnin væri að koma greininni í nagandi óvissu. Steingrímur J., sem þekkir mjög til deilna, tók sér stöðu stjórnmálaskýranda og sá fyrir sér djúpstæðar deilur á stjórnarheimilinu, þar sem að ríkisstjórnin gæti ekki klárað mál. Formaður BF var að venju undrandi á öllu málinu og ekki leyndi sér að hann var vonsvikinn yfir stöðu mála.

Með því að festa sig í gamalkunnum frösum er stjórnarandstaðan að skila auðu í umræðunni um stjórn fiskveiða.  Lítill vilji virðist vera hjá öðrum flokkum en Pírötum til að skoða gagnrýni á núverandi kerfi.  Reynsla síðustu áratuga hefur sýnt okkur að kvótakerfi í blönduðum botnfiskveiðum er afar vond aðferð við að stjórna veiðum og miklu nær að beita sóknarstýringu. Kerfið hefur reynst illa en þorskveiðin nú hér við land er um helmingur af því sem hún var fyrir daga kerfisins og ýsuveiði við sögulegt lágmark.

Stjórnarandstaðan gerir ekki neinn ágreining um tvöfalda verðlagningu á fiski, sem hefur þær afleiðingar að sjómenn fá ekki sömu laun fyrir sömu vinnu og það sem sparast rennur beint í vasa útgerðarinnar.  Tvöfalda verðlagningin kemur í veg fyrir eðlilega samkeppni og nýliðun í matvælavinnslu.

Stjórnarandstaðan virðist vera algerlega föst í frösum einangraðra hagsmunasamtaka og ekki hafa burði til að taka stjórn fiskveiða til opinnar og málefnalegrar umræðu.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.1.2015 - 16:07 - FB ummæli ()

Út úr hvaða hól kemur Sigmundur Davíð?

Í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun,  fékk forsætisráðherrann okkar langt viðhafnarviðtal, þar sem að hann fór yfir sýn sína á stjórn landsins. Sigurjón M. Egilsson stjórnandi þáttarins fer ekki þá leið að vera mjög gagnrýnin á svör viðmælandans líkt og Helgi Seljan er þekktur fyrir. Nei, það er frekar að Sigurjón M. Egilsson veiti viðmælandanum stuðning og í morgun hafði ég á tilfinningunni að stjórnandinn héldi beinlínis í hendina á forsætisráðherra.  Þessi tækni hefur sína miklu kosti, þar sem að sá sem situr fyrir svörum hættir til að fara á flug og segja heldur meira en ella.  Það var einmitt það sem Sigmundur Davíð gerði í morgun hann tókst á loft og beraði hversu illa upplýstur hann er m.a. um málefni sjávarútvegsins.

Sigmundur Davíð fullyrti að á öðrum stöðum í heiminum en á Íslandi, væri stunduð ríkisstyrkt ofveiði – Um hvað er maðurinn að tala og hvaða rugl er þetta? Það á að minnsta kosti ekki við í Færeyjum, Rússlandi og Noregi.  Í ESB er farið nokkuð nákvæmlega eftir sömu „vísindalegu ráðgjöf“ ICES og gert er hér á Íslandi og er árangurinn þar eins og hér – hörmulegur!  Þorskveiðin nú á Íslandsmiðum er helmingurinn af því sem veiðin var fyrir daga kvótakerfisins.

Norskur sjávarútvegur gengur vel og frelsi til nýliðunar í greininni er með þeim hætti að íslenskir smábátasjómnenn sem hafa hrakist úr landi vegna atvinnuhafta illræmds kvótakerfis eru að byggja upp sínar útgerðir í Noregi.

Undarlegt var að hlýða á forsætisráðherra gefa sig út fyrir að hann væri verndara sjávarbyggðanna.  Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan fiskvinnslufólk var flutt nánast nauðungarflutningum úr kjördæmi forsætisráðherra og til Suðurnesja. Það er ljóst að að ef núverandi kerfi verður fest í sessi, þá mun það halda áfram að koma harkalega niður á sjávarbyggðunum. Núverandi kerfi er vissulega gott fyrir stórútgerðina, en ekki fyrir starfsfólk í greininni. Alengt er að fiskvinnslufólk fái greitt útborgað rétt liðlega 200 þúsund krónur á mánuði, sjómenn fá ekki greiddan hlut af raunvirði aflans heldur er farið eftir Verðlagsstofuverði sem tugum prósenta lægra. Allur almenningur tapar á tvöföldu verðlagningunni þar sem að hún  ýtir undir „hækkun í hafi“.  Afurðir eru seldar á undirverði út úr landinu í gegnum sölufyrirtæki stórútgerðanna,  þar sem hagnaðurinn hverfur inn í skattaparadísir.

Vonandi fer forsætisráðherra í það verka að kynna sér raunverulega ástand í sjávarbyggðum landsins.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.10.2014 - 22:24 - FB ummæli ()

Eru fangelsin betri staður fyrir börn en Skagafjörður?

Fyrir einu og hálfu ári síðan, var mikil umræða í fjölmiðlum um vistun sakhæfra barna í almennum fangelsum.  Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði af því tilefni, að koma yrði upp úrræði sem fyrst til að uppfylla þær kröfur sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna  gerði þ.e. að börn sem dæmd séu í fangelsi afpláni ekki með fullorðnum.

 Nú þegar verið er að koma rækilega á móts við óskir Barnaverndarstofu og gera samning um rekstur stofnunar í Skagafirði sem vistar ungmenni sem hafa gerst brotleg við lög, þá hefði maður að óreyndu ætlað, að þeir sem hafa þann starfa að gæta hagsmuna barna, hefðu getað séð tækifæri á að gleðjast.  Nei svo er alls ekki heldur er reynt að rífa niður það góða starf sem unnið hefur verið í gegnum árin í Háholti.

Neikvæð og nánast rætin viðbrögð starfsmanna Barnaverndarstofu í fjölmiðlum, gefa því miður til kynna að þeir hafi ekki hag barnanna sem um ræðir í forgangi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur