Mánudagur 19.8.2024 - 17:00 - Rita ummæli

Ólýðræðislegt?

Framundan er forsetakjör í Bandaríkjunum, og nýlega var kosið til þings í Bretlandi og Frakklandi. Þótt fyrirkomulag kosninga í þessum þremur löndum sé um margt ólíkt, er það sameiginlegt, að úrslit kosninga þurfa ekki að svara til atkvæðatalna. Verkamannaflokkurinn í Bretlandi fékk færri atkvæði en í síðustu kosningum, en miklu fleiri þingsæti. Skýringin var, að Íhaldsflokkurinn tapaði fjölda þingsæta, af því að í mörgum kjördæmum hirti Umbótaflokkurinn (Reform Party) af honum verulegt fylgi, svo að hann varð ekki lengur stærsti flokkurinn. Þjóðfylkingin í Frakklandi jók talsvert fylgi sitt í síðari umferð þingkosninganna, en af því að vinstri flokkar höfðu myndað bandalag gegn henni, skilaði það sér ekki í þingsætum. Vel getur verið, að forseti Bandaríkjanna verði kjörinn með minni hluta atkvæða samanlagt, vinni hann sigur í nokkrum ríkjum, sem ráðið geta úrslitum, en mörg önnur ríki eru næsta örugg vígi annars hvors stóra flokksins.

Sumir segja, að þetta sé ólýðræðislegt. Það er hæpið. Lýðræði er ekki fólgið í því að endurspegla atkvæðatölur, heldur í möguleikanum á að skipta friðsamlega um valdhafa, hafi þeir misst fylgi. „Höfuðkostur lýðræðis er sá, að það gerir kleift að losna við ríkisstjórn án þess að skjóta hana,“ sagði Vilmundur landlæknir Jónsson. Við einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi myndast oftast tveir flokkar, sem kjósa má um, svo að valið milli þeirra er skýrt og ábyrgðin tvímælalaus. Í bandaríska forsetakjörinu er síðan tilgangslaust að leggja saman atkvæðatölur úr einstökum ríkjum til að reikna út einhvern meiri hluta kjósenda. Það eru ríkin fimmtíu, sem kjósa forsetann, og hann þarf að hafa meiri hluta á kjörmannasamkomu, sem skipuð er fulltrúum frá ríkjunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:59 - Rita ummæli

Signubakkar

Ólíkt höfumst við að, hugsaði ég, þegar ég var staddur í París á Bastilludaginn 2024, 14. júlí. Æstur múgur réðst þennan dag árið 1789 á Bastilluna, drap virkisstjórann, hjó af honum höfuðið og skálmaði með það á spjótsoddi um götur. Þá reyndust aðeins sjö fangar vera geymdir í virkinu. Þótt ótrúlegt sé halda Frakkar þjóðhátíð þennan dag. Eru þeir raunar eina Vesturlandaþjóðin sem efnir til hersýningar á þjóðhátíðardegi sínum. Það var ekki að ófyrirsynju að Einar Benediktsson orti í kvæði frá París um hina blóðdrukknu Signu. Vel fer hins vegar á því að Íslendingar hafa gert fæðingardag hins friðsama, frjálslynda og margfróða leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar, Jóns Sigurðssonar, að þjóðhátíðardegi sínum.

Á Signubökkum þennan júlídag glumdi við þjóðsöngur Frakka, en hann er blóði drifinn hersöngur, eins og þessi vísuorð úr honum í þýðingu Matthíasar Jochumssonar sýna:

Fram til orrustu, ættjarðarniðjar,

upp á vígbjartri herfrægðarstund.

… Því, landar, fylkið fljótt,

og fjandmenn höggvum skjótt.

Þjóðsöngur Íslendinga er hins vegar sálmur eftir Matthías sem saminn var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og frumfluttur í Dómkirkjunni fyrir réttum 150 árum, 2. ágúst 1874, að Danakonungi viðstöddum, en hann hafði fyrr á árinu fært Íslendingum stjórnarskrá sem fól í sér mikilvægar réttarbætur. Þjóðsöngur okkar er að sönnu erfiður í flutningi, en háleitur og áreitnislaus í garð annarra þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Uppreisnin í Varsjá 1944

Böðullinn drepur tvisvar, fyrst með byssukúlunni, síðan með þögninni, sagði Elie Wiesel. Því skiptir máli að halda á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Eitt áhrifamesta safn, sem ég hef komið í, er í Varsjá. Það er um uppreisnina, sem hófst þar í borg 1. ágúst 1944, fyrir áttatíu árum.

Þetta var sorgarsaga. Með griðasáttmála í ágúst 1939 skiptu Hitler og Stalín Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Í beinu framhaldi réðst Hitler á Pólland 1. september og lagði undir sig vesturhluta landsins. Sögðu Bretland og Frakkland Þýskalandi stríð á hendur, enda voru ríkin tvö skuldbundin til að liðsinna Pólverjum í átökum. Stalín réðst á Pólland 17. september og lagði undir sig austurhlutann, en Bretar og Frakkar höfðust nú ekki að. Hitler rauf hins vegar griðasáttmálann í júní 1941 og réðst á Rússland. Hann hafði horft upp á hina löku frammistöðu Rauða hersins í vetrarstríðinu við Finna 1939–1940 og hélt, að auðvelt yrði að ráða niðurlögum ráðstjórnarinnar, en eftir það gæti hann beygt Breta eins og Frakka áður.

Liðu nú ár. Sumarið 1944 var ljóst, að nasistar væru að tapa stríðinu. Rauða hernum hafði vaxið ásmegin, og sótti hann fram til vesturs. Þá sá pólska andspyrnuhreyfingin sér leik á borði og hóf uppreisn í Varsjá. En Stalín stöðvaði her sinn á austurbakka Vislu, sem rennur í gegnum Varsjá. Þaðan fylgdust Rússar aðgerðalausir með nasistum berja niður uppreisnina af ótrúlegri grimmd. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum bandamanna, sem vörpuðu vistum niður í borgina, afnot af flugvöllum sínum. Hann vildi ekki sjálfstætt Pólland. Pólsku uppreisnarmennirnir gáfust upp 2. október. Hitler skipaði her sínum að leggja Varsjá í rúst, en fyrst gengu þýskir hermenn hús úr húsi og drápu alla, sem þeir gátu. Um þetta má ekki þegja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Kári Stefánsson og Matt Ridley

Í Morgunblaðinu 23. júlí deilir Kári Stefánsson forstjóri á vísindarithöfundinn Matt Ridley, sem var á rabbfundi í Háskólanum 17. júlí, meðal annars um uppruna kórónuveirunnar, en hún olli dauða meira en tuttugu milljóna manna og setti alla heimsbyggðina á annan endann í tvö ár. Kári segir, að „Matt virðist hafa lagt áherslu á kenningar um uppruna veirunnar sem eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær. Þær eru einfaldlega tilgátur sem eru studdar mjög fátæklegum gögnum ef nokkrum.“ Ég lærði það einmitt af vísindaheimspekingnum Karli R. Popper, eins og Kári hefur bersýnilega líka gert, að óhrekjanlegar kenningar eru varla vísindalegar. Þær mynda lokuð kerfi og geyma í sér skýringar á öllum frávikum, til dæmis marxismi og sálgreining. Þar hefur tilgátan alltaf rétt fyrir sér.

Ég bauð Kára á fundinn, en hann komst ekki. Hefði hann verið þar, þá hefði hann raunar heyrt mig spyrja Ridley, hvað þyrfti til að afsanna kenninguna um, að kórónuveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan, en Ridley telur það sennilegt og þó ekki sannað. Ridley svaraði: Ef eitthvert dýr finnst, sem ber veiruna í menn. Engin slík smitleið hefur fundist, ólíkt því sem var um aðra eldri kórónuveiru, sem upprunnin var í Guangdong-héraði í Kína og olli lungnafaraldri árið 2003 (SARS-1, sem kallað var, en heimsfaraldurinn núna heitir SARS-2). Tilgáta Ridleys um uppruna kórónuveirunnar er því í eðli sínu afsannanleg. Kári hefur rangt fyrir sér um þetta atriði. Væri hægðarleikur fyrir kínversk stjórnvöld að afsanna þessa tilgátu, væri hún röng, með því að opna allar gáttir fyrir vísindamönnum. Þess í stað hafa þau takmarkað mjög aðgang að upplýsingum. Hvers vegna hvílir þessi leynd yfir, ef engu er að leyna?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:57 - Rita ummæli

Aix, júlí 2024

Á sumarskóla hagfræðideildar Aix-Marseille-háskóla, eins stærsta háskóla Frakklands, í Aix-en-Provence 12. júlí 2024 var mér boðið að tala um norræna frjálshyggju. Í útúrdúr í upphafi kvaðst ég hafa komist að því í rannsókn minni á frjálslyndri íhaldsstefnu, að hin franska frjálshyggjuhefð hefði verið vanmetin, ekki síst af Frökkum sjálfum. Þeir Benjamin Constant, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville og Bertrand de Jouvenel hefðu seilst víðar og dýpra en breskir nytjastefnumenn.

Hin norræna frjálshyggjuhefð væri líka vanmetin, þótt Montesquieu hefði raunar viðurkennt, að vestrænt frelsi hefði orðið til með germönskum þjóðum. Snorri Sturluson hefði talið vald bundið samþykki þegnanna, en þeir mættu afhrópa konunga, sem færu ekki að lögum. Anders Chydenius hefði á undan breskum hugsuðum lýst gróða án taps og samstillingu án valdboðs. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði beitt sér fyrir alþýðumenntun í þágu lýðræðis og lýst samtakamætti frjálsra þjóða.

Velgengni Norðurlanda væri þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Þær hefðu brotist til bjargálna og tekjudreifing orðið tiltölulega jöfn, áður en jafnaðarmenn fengu völd á fjórða áratug tuttugustu aldar. Þessi velgengni hvíldi á traustu réttarríki með langa hefð að baki, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem hefði haft í för með sér verulegt traust manna í milli, en það auðveldaði lífsbaráttuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:56 - Rita ummæli

Kunnur vísindarithöfundur sækir Ísland heim

Einn kunnasti vísindarithöfundur heims, Matt Ridley, er staddur á Íslandi og ætlar að rabba við áhugamenn um stjórnmál, heimspeki og vísindi miðvikudaginn 17. júlí kl. 16.30 í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101. Er fundurinn á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Ridley hefur skrifað fjölda bóka, og kom ein þeirra út á íslensku árið 2014, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Hann er einn frjóasti hugsuður, sem nú er uppi, fjörugur fyrirlesari og lipur rithöfundur.

Þróunarkenning um kynlíf

Matthew White Ridley fæddist árið 1958, og var langalangafi hans hinn kunni húsameistari Sir Edwin L. Lutyens. Ridley lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla  árið 1983. Hann var vísindaritstjóri vikublaðsins Economist 1984–1987 og fréttaritari og síðan bandarískur ritstjóri blaðsins í Washington-borg 1987–1992. Eftir það hefur hann starfað sem sjálfstæður rithöfundur, en einnig haldið úti föstum dálki um vísindi í Wall Street Journal og The Times. Kona hans, Anya Hurlbert, er prófessor í taugalíffræði, og eiga þau tvö börn.

Árið 1993 gaf Ridley út bókina Rauðu drottninguna: kynlíf og þróun manneðlisins (The Red Queen: Sex and the Evolution of Human Nature). Nafnið vísar til rauðu drottningarinnar, sem kemur fyrir í bók Lewis Carrolls, Í gegnum spegilinn: og það sem Lísa fann þar(Through the Looking-Glass, and What Alice Found There), en sú bók er framhald Lísu í Undralandi og hefur komið út á íslensku. Rauða drottningin verður að hlaupa til þess að standa í stað. Í bókinni ræðir Ridley þá gátu, hvers vegna æxlun manna er tvíkynja, en ekki einkynja eins og margra annarra lífvera. Telur hann kynlíf með tveimur þátttakendum leiða til tiltölulega hagkvæmrar samsetningar erfðavísa. Jafnframt setur hann fram þá tilgátu, að í samkeppni einstaklinga um hylli hins kynsins hafi tilteknir hæfileikar valist úr, mannleg greind orðið til. Er bókin bráðskemmtileg aflestrar og full af hugvitsamlegum dæmum.

Þróunarkenning um dygðir

Árið 1996 gaf Ridley út bókina Uppsprettur dygðanna: Eðlisávísun mannsins og þróun samvinnu (The Origins of Virtue: Human Instincts and the Evolution of Cooperation). Þar heldur hann því fram, að maðurinn hafi í langri þróun öðlast sérstakan hæfileika til samskipta umfram önnur dýr, og þessi hæfileiki geri honum kleift að njóta ávaxta sjálfsprottinnar samvinnu. Maðurinn sé því ekki fæddur góður og spillist af því að búa með öðrum, eins og Rousseau og Marx kenndu, eða fæddur vondur og verði þess vegna að sæta hörðum aga, eins og Hobbes og Machiavelli trúðu, heldur verði hann smám saman góður á því að temja sér réttar reglur um samskipti, ekki síst frjáls viðskipti.

Næstu þrjár bækur Ridleys voru allar um mannlegar erfðir. Árið 1999 kom út Erfðamengi: Sjálfsævisaga tegundar í 23 köflum(Genome: The Autobiography of a Species in 23 Chapters), þar sem lýst er þeim litningum (chromosomes), sem ákveða erfðir mannsins. Árið 2003 kom út Eðli í krafti umhverfis: Erfðavísar: reynsla og það, sem gerir okkur mennsk(Nature via Nurture: Genes, Experience What Makes Us Human), þar sem lýst er samleik erfðavísa og umhverfis í þróun mannsins. Árið 2006 kom út Francis Crick: Maðurinn, sem réði táknmál erfðanna (Francis Crick: Discoverer of the Genetic Code), ævisaga hins heimskunna erfðafræðings. Hlaut Ridley verðlaun Vísindasögufélags Bandaríkjanna fyrir verkið. Í öllum þessum bókum naut sín hæfileiki Ridleys til að skrifa einfaldan texta um flókin mál.

Ritdeila við Bill Gates

Árið 2010 gaf Ridley út þá bók sína, sem til er á íslensku, Heimur batnandi fer. Ritdeila var háð um hana í Wall Street Journal í nóvember 2010. Í ritdómi sagðist auðjöfurinn Bill Gates sammála Ridley um, að auðlegð þjóða væri vegna viðskipta og verkaskiptingar. Þetta væri auðvitað ekkert nýtt, en Ridley tækist vegna þekkingar sinnar á dýrafræði að nefna mörg fróðleg dæmi. Gates kvaðst líka sammála Ridley um, að full ástæða væri til bjartsýni um framtíð mannkyns, væri rétt á málum haldið. Hins vegar væri hann ekki sami efasemdarmaður um þróunaraðstoð við Afríku og Ridley. Hann teldi einnig, að takmarka ætti mjög losun gróðurhúsalofttegunda. Í svari sínu kvaðst Ridley frekar treysta á tækniframfarir í krafti frelsis en framlög úr opinberum sjóðum, sem embættismenn ættu að ráðstafa. Frá 2010 hefur raunar orðið verulegur hagvöxtur í Afríku sunnan Sahara, en engum dettur í hug, að hann sé vegna þróunaraðstoðar. Erfiðlega hefur einnig gengið að ná samkomulagi um mikla takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda, enda með öllu óvíst, að neikvæðar afleiðingar hlýnunar séu meiri en hinar jákvæðu.

Árið 2015 gaf Ridley út bókina Þróun á öllum sviðum: Uppsprettur hugmynda (The Evolution of Everything: How Ideas Emerge). Þar útfærir hann þróunarkenningu Darwins: Sú regla, sem við sjáum í mannheimi og í dýraríkinu, er ekki sköpuð af neinum, heldur afleiðing náttúruvals, þar sem hæfustu tegundirnar, aðferðirnar og hugmyndirnar hafa haldið velli. Í mannheimi er þessi regla afleiðing víxlverkunar vitunda. Árið 2020 gaf Ridley út bókina Leið nýsköpunar og hvers vegna hún blómgast við frelsi (How Innovation Works: And Why It Flourishes in Freedom). Þar heldur hann því fram, að eitt helsta einkenni nútímans sé nýsköpun, en af henni hafi leitt stórkostlegar lífskjarabætur og margvíslegar róttækar breytingar mannlegs samlífs. En fáir skilji nýsköpun. Hún myndist aðallega að neðan og upp eftir í krafti frjálsra viðskipta, en ekki að ofan og niður eftir samkvæmt einhverjum áætlunum. Hún sé alltaf fólgin í mannlegum samskiptum, aðferð happa og glappa, tilrauna og mistaka. Hins vegar sé nýsköpun nú að minnka vegna opinberra afskipta og þunglamalegrar skriffinnsku.

Á slóð Leðurblökukonunnar

Ein nýjasta bók Ridleys hefur vakið mikla athygli, Faraldur: Leitin að upphafi kórónuveirunnar (Viral: The Search for the Origin of COVID-19) . Hann skrifar hana með dr. Alina Chan, sérfræðingi í Broad rannsóknarstofnuninni, sem Harvard-háskóli og Tækniháskólinn í Massachusetts, MIT, reka sameiginlega. Heimsfaraldurinn, sem kórónuveiran frá Kína olli, kostaði líklega um tuttugu milljónir mannslífa og var fimmti mannskæðasti faraldur mannkynssögunnar, á eftir Spánsku veikinni 1918–1920, Svartadauða hinum fyrri 541–549, eyðnifaraldrinum frá 1981, og Svartadauða hinum síðari 1346–1353. Jafnframt hafði faraldurinn margvísleg áhrif á líf flestra jarðarbúa, samgöngur stöðvuðust, skólum var lokað, fyrirtæki hættu rekstri, að kreppti í atvinnulífi. Það skiptir því miklu máli að finna upphaf kórónuveirunnar, sem olli þessum ósköpum, svo að sagan endurtaki sig ekki, og er tómlætið um það furðulegt.

Í upphafi töldu flestir, að kórónuveiran hefði stokkið yfir í menn úr dýrum á útimarkaði í Wuhan-borg. Mörg dæmi voru kunn um áþekkan feril smitsjúkdóma, og veiran er náskyld ýmsum öðrum veirum, sem hleypt hafa af stað farsóttum, en fyrstu hýslarnir eru oftast leðurblökur. En gallinn var sá, að ekki fannst neitt dýr, sem átti að hafa borið þessa veiru í menn. Kínverski kommúnistaflokkurinn neitaði líka allri samvinnu við erlenda vísindamenn um rækilega rannsókn á upphafi veirunnar. Í Wuhan starfar mikil rannsóknarstofnun í veirufræði. Vefur hennar um veirugreiningar var skyndilega tekinn niður. Skráning dauðsfalla var í upphafi ekki eðlileg (þeir einir voru skráðir dánir af völdum veirunnar, sem sannanlega höfðu verið á útimarkaðnum). Margt annað furðulegt gerðist. Til dæmis var fréttamönnum meinaður aðgangur að koparnámu í Yunnan, þar sem nokkrir starfsmenn höfðu greinst með svipaðan veirusjúkdóm árið 2012. Þar var allt fullt af leðurblökum, sem báru í sér veirur sömu ættar og kórónuveiran skæða, og hafði forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar í Wuhan, dr. Shi Zhengli, iðulega kölluð Leðurblökukonan, margoft gert sér ferð þangað til að safna sýnum. Kórónuveiran er óvenjusmitnæm, vegna þess að hún er með sérstakt grip, sem auðveldar henni leið inn í mannslíkamann. Annaðhvort myndaðist þetta grip náttúrlega eða var sett utan á hana. Leðurblökukonan og bandarískur samstarfsmaður hennar, dr. Peter Daszak, höfðu einmitt sótt árangurslaust um styrk árið 2018 til að rannsaka, hvernig setja mætti slíkt grip inn í veirur sömu ættar. Daszak samdi ávarp, sem birtist í hinu virta læknatímariti Lancet 19. febrúar 2020 og 27 vísindamenn skrifuðu undir, þar sem þeir vísuðu algerlega á bug tilgátunni um leka frá rannsóknarstofu. Daszak leyndi því eins lengi og hann gat, að hann var einn höfundur ávarpsins og að hann hafði margvísleg tengsl við rannsóknarstofuna í Wuhan.

Bresk stjórnmál

Sjálfur telur Matt Ridley sennilegt, en þó ósannað, að kórónuveiran hafi lekið út af rannsóknarstofunni í Wuhan. En hann hefur haft margt fleira fyrir stafni en bókaskrif. Hann var stjórnarformaður Northern Rock bankans 2004–2007, en sá banki var eitt fyrsta fórnarlamb lausafjárskortsins, sem myndaðist skyndilega á fjármálamörkuðum árið 2007 og kom hart niður á bönkum með innlán til skamms tíma og útlán til langs tíma. Ridley, sem er fimmti vísigreifi Ridley og býr á sveitasetri í Norður-Englandi, sat í lávarðadeildinni bresku fyrir Íhaldsflokkinn 2013–2021. Þar var hann eindreginn stuðningsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hann hefur því frá nógu að segja og ekki aðeins almæltum tíðindum.

(Grein í Morgunblaðinu 16. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:55 - Rita ummæli

Úrslit kosninga

Tvennar kosningar voru nýlega háðar í Evrópulöndum, 30. júní og 7. júlí í Frakklandi og 4. júlí í Bretlandi. Af einhverjum ástæðum hafa vinstri menn á Íslandi rangtúlkað úrslitin sem sérstaka vinstri sigra.

Í Frakklandi sameinuðust vinstri flokkar í seinni umferð til að þrautnýta kosningafyrirkomulagið, en bandalag þeirra tapaði þrátt fyrir það 6%. Kjörsókn var talsvert meiri þá en í fyrri umferð. Miðflokkur Macrons tapaði 14% í seinni umferð, en miðflokkur gaullista 4%. Þjóðfylking Marine Le Pens bætti hins vegar við sig 20% í seinni umferð frá því í síðustu kosningum. Hún hlaut hins vegar ekki meiri hluta á franska þinginu eins og hún hafði vonað.

Í Bretlandi bætti Verkamannaflokkurinn við sig tæpum 2% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn innan við 1%, þótt flokkarnir hefðu lengi verið í stjórnarandstöðu. Undir forystu Sir Keir Starmers hlaut Verkamannaflokkurinn lægra hlutfall en í síðustu kosningum. Íhaldsflokkurinn tapaði miklu fylgi, 20%, enda ráðvilltur og sjálfum sér sundurþykkur. Sigurvegari kosninganna var flokkur Nigel Farages, sem bætti við sig 12% og varð þriðji stærsti flokkurinn.

Í báðum löndum töpuðu mið- og hægri flokkar, sem hafa að engu vilja kjósenda um að stöðva hömlulausan straum hælisleitenda frá múslimalöndum og þróunina í átt til miðstýringar í Evrópusambandinu, fylgi til hægri flokka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:54 - Rita ummæli

Cluj, júní 2024

Cluj (frb. Klúds) er næststærsta borg Rúmeníu, og hefur Transylvaníu löngum verið stjórnað þaðan. Á þýsku hét Transylvanía áður fyrr Siebenbürgen, Sjöborgaland, og var Cluj ein borganna sjö og hét þá Klausenburg. Þá var Sjöborgaland hluti Habsborgarveldisins, en var sameinað Rúmeníu eftir fyrri heimsstyrjöld. Cluj er notaleg og hreinleg borg, og prýða hana mörg falleg hús frá Habsborgartímanum. Þar er stærsti háskóli Rúmeníu, Babes-Bolyai, og talaði ég þar 30. júní 2024 á ráðstefnu.

Erindi mitt nefndist „Evrópusambandið eftir nýliðnar kosningar til Evrópuþingsins“. Ég kvað evrópska kjósendur afdráttarlaust hafna tveimur hugmyndum, sem skriffinnarnir í Brüssel reyna að troða upp á þá. Önnur er ótakmarkaður innflutningur fólks, sem vill ekki laga sig að siðum og venjum Evrópuþjóða. Hin er afnám þjóðríkisins og tilraun til að breyta Evrópusambandinu í stórveldi, sem keppt gæti við Bandaríkin.

Hvað er til ráða? Að efla nálægðarregluna, sem er í orði kveðnu leiðarstjarna ESB, en hún er, að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim, sem þær varða. Í því sambandi reifaði ég ýmsar tillögur, til dæmis um stofnun sérstaks dómstóls, sem úrskurðaði um verkaskiptingu og valdsvið ESB og aðildarríkja þess í ljósi nálægðarreglunnar, og um að flytja löggjafarvaldið frá framkvæmdastjórn ESB til Evrópuþingsins, en breyta framkvæmdastjórninni í stjórnsýslustofnun. ESB er komið til að vera, en kjörorð þess ætti auk frjálsra viðskipta að vera valddreifing.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:53 - Rita ummæli

Ævisaga Miltons Friedmans

Jennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:52 - Rita ummæli

Danmörk til fyrirmyndar, um margt

Bandaríkjamönnum hefur orðið tíðrætt um Danmörku hin síðari ár. Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders bendir á landið sem sérstaka fyrirmynd. Hagfræðingurinn Jeffrey Sachs telur, að dæmi Danmerkur og annarra Norðurlanda afsanni þá skoðun Friedrichs A. von Hayeks, að aukin ríkisafskipti skerði frelsi og leiði að lokum til lögregluríkis. Heimspekingurinn Francis Fukuyama heldur því á hinn bóginn fram, að í Danmörku hafi tekist að efla þá samkennd og almennu lýðmenntun, sem lýðræðinu sé nauðsynleg.

Eitt frjálsasta hagkerfi í heimi

Þegar að er gáð, sést, að Sanders og Sachs hafa rangt fyrir sér. Danmörk er síður en svo draumríki sósíalista. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum Fraser stofnunarinnar í Kanada á atvinnufrelsi var danska hagkerfið árið 2021 hið 7. frjálsasta af 165 hagkerfum í heimi, á eftir hagkerfum Singapúr, Hong Kong, Sviss, Nýja Sjálands, Bandaríkjanna og Írlands. (Ófrjálsustu hagkerfin eru hins vegar í Venesúela, Simbabve, Sýrlandi, Súdan, Jemen, Íran og Líbíu. Hagkerfi Norður-Kóreu og Kúbu eru ekki mæld vegna skorts á áreiðanlegum upplýsingum. Íslenska hagkerfið var hið 22. frjálsasta árið 1990, hið 7. frjálsasta 2004 og hið 14. frjálsasta 2021.)
Fukuyama hefur hins vegar rétt fyrir sér. Danmörk er um margt til fyrirmyndar. Hann bendir líka á, að ein skýringin á því sé, hversu áhrifamikill hinn merki hugsuður, skáld, félagsmálafrömuður, prestur og stjórnmálamaður Nikolaj F. S. Grundtvig var. Hann er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar úr íslensku á dönsku og setti fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka ritað Egils sögu. Grundtvig var fylgismaður þjóðlegrar frjálshyggju, sem hann sótti ekki síst í hinn auðuga norræna menningararf. Eitt meginstefið í ritum Snorra er til dæmis munurinn á góðum konungum og vondum: Góðu konungarnir virtu lög, héldu uppi friði og lögðu á hóflega skatta. Vondu konungarnir butu lög, háðu stríð og þyngdu skattbyrðina. Snorri lýsir því, hvernig þeir voru settir af, gengju þeir of langt að góðra manna yfirsýn.

Þjóðleg frjálshyggja

Jafnvel á einveldistímanum danska frá 1660 til 1849 virti Danakonungur í aðalatriðum meginreglur réttarríkisins, sem birtust í upphafi Jyske lov, Jótalaga, frá 1241: Með lögum skal land byggja. Undir lok átjándu aldar hafði Adam Smith líka veruleg áhrif í Danmörku, en vinir hans og lærisveinar beittu sér fyrir því, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku fyrst erlendra mála. Einokunarverslunin við Ísland og Finnmörku var afnumin, vistarband fellt úr gildi, konungsjarðir seldar og jörðum gósseigenda skipt upp, svo að dönskum sjálfseignarbændum fjölgaði úr tíu af hundraði í tvo þriðju bænda. Árið 1797 voru tollar lækkaðir verulega. Árið 1848 krafðist danskur almenningur þess síðan, að einveldið viki. Konungur lét undan, og 5. júní 1849 tók ný og frjálsleg stjórnarskrá gildi. Grundtvig sat á stjórnlagaþinginu, en helsta áhyggjuefni hans var, þegar valdið færðist úr höndum konungs, að það lenti ekki í höndum lýðskrumara og upphlaupsmanna.

Lýðurinn varð að fara gætilega með það vald, sem konungurinn hafði áður. Grundtvig beitti sér þess vegna fyrir alþýðumenntun í lýðskólum. Hann taldi málfrelsið einhverja helstu stoð upplýsts lýðræðis og orti frægt kvæði (Nordisk mytologi) um, að þetta frelsi væri norræn hugsjón, sem næði ekki síður til Loka en Þórs. Jafnframt var Grundtvig þjóðernissinni, sem taldi Dani eiga að rækta sögulega arfleifð sína og tungu, vakna til vitundar um sjálfa sig sem eina þjóð. En hann var frábitinn allri ágengni. Til dæmis lagði hann það til í deilum um Slésvík, þar sem norðurhlutinn var dönskumælandi og suðurhlutinn þýskumælandi, að héraðinu yrði skipt samkvæmt vilja íbúanna sjálfra. Varð það úr löngu eftir daga hans, þegar íbúarnir fengu að greiða um þetta atkvæði. Í öðru frægu kvæði (Folkeligt skal alt nu være) sagði hann, að þjóð mynduðu þeir, sem vildu vera þjóð, tala eigið móðurmál og eiga eigið föðurland.

Hinn danski þjóðarandi

Danir töldu sig bíða mikinn hnekki, er þeir misstu fyrst Noreg í hendur Svía 1814 og síðan Slésvík og Holtsetaland í hendur Þjóðverja 1864. En það var ekki síst fyrir áhrif Grundtvigs, sem þeir sneru ósigri í sigur, virkjuðu jafnt einkaframtak og samtakamátt og gerðust ein helsta menningarþjóð Norðurálfunnar. Einkunnarorð þeirra urðu þau, sem annað skáld, Hans Peter Holst, orti: Hvað udad tabes, skal indad vindes, úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Matthías Jochumsson orti í orðastað iðnjöfursins C. F. Tietgens, þegar hann gaf ungum íslenskum athafnamanni ráð:

Ég býð ekki Íslandi ölmusunáð;

ég ætla að gefa ykkur heillaráð:

Sá blessaðist aldrei í heimi hér,

sem hafði’ekki trú á sjálfum sér.

Þið eigið sjálfir að leysa landið,

losa’ykkur sjálfir við okurbandið.

Tietgen var einmitt einn af lærisveinum Grundtvigs og kostaði af honum styttuna, sem stendur fyrir framan Marmarakirkjuna í miðborg Kaupmannahafnar og óteljandi Íslendingar hafa gengið fram hjá.

Hinn frjálslyndi danski þjóðarandi sýnir sig ekki aðeins í orði, heldur líka í verki, eins og nefna má um tvö dæmi. Nasistar höfðu hernumið Danmörku vorið 1940, og eftir að danska stjórnin hafði í ágúst 1943 lagt niður völd í mótmælaskyni við yfirgang þeirra, hugðust þeir handsama alla danska gyðinga. Þetta spurðist út, og tóku þá Danir, háir og lágir, þegjandi og hljóðalaust, saman höndum um að koma þúsundum danskra gyðinga yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Þegar nasistar brunuðu á hervögnum sínum um Danmörku í októberbyrjun 1943 í leit að gyðingum, gripu þeir víðast í tómt. Af 7.800 dönskum gyðingum sluppu 7.220 yfir sundið, en aðeins 464 gyðingar náðust og voru sendir í fangabúðir. Hitt dæmið þekkja Íslendingar. Þótt Danir hefðu ólíkt ýmsum öðrum þjóðum komist löglega yfir íslensk handrit, ákváðu þeir að skila þeim til Íslands. Bretar og Frakkar taka hins vegar ekki í mál að skila til heimalandanna dýrgripum, sem þeir rændu í Grikklandi, Egyptalandi og víðar.

Umbætur síðustu áratuga

Danski flokkurinn Venstre hefur einkum haldið minningu Grundtvigs á lofti, og margir forsvarsmenn hans hafa verið eindregnir frjálshyggjumenn í anda hans. Má sérstaklega nefna hinn sjálfmenntaða bónda Thomas Madsen-Mygdal, forsætisráðherra 1926–1929, og hagfræðinginn Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra 2001–2009 og síðar framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fogh-Rasmussen birti árið 1993 fróðlega bók, Fra socialstat til minimalstat (Úr félagshyggjuríki í lágmarksríki), þar sem hann benti á ýmsar leiðir til auka atvinnufrelsi og hagsæld í Danmörku. Eftir að hann varð forsætisráðherra, fór hann þó varlegar en margir samherjar hans vildu, og varð frægt í sjónvarpskappræðum, þegar leiðtogi jafnaðarmanna reif úr bók hans margar blaðsíður, sem hann taldi úreltar. Að vísu tókst Fogh-Rasmussen að stöðva skattahækkanir og auka atvinnufrelsi nokkuð, og árið 2009 voru skattar lækkaðir talsvert í Danmörku. Danska hagkerfið fór úr því að vera hið 17. frjálsasta í heimi árið 1985 í að vera hið 7. frjálsasta árið 2021.

Nú er hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem aðstoðaði Fogh-Rasmussen við að skrifa bókina, staddur á Íslandi og ætlar að tala um „Reforming the Welfare State: The Case of Denmark“ þriðjudaginn 25. júní kl. 16.30 í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll (Nasa). Brøns-Petersen var deildarstjóri í efnahagsráðuneytinu 1993–1999 og skrifstofustjóri skattaráðuneytisins 1999–2013, svo að hann gjörþekkir innviði danska hagkerfisins. Hann er nú sérfræðingur og ráðgjafi rannsóknarstofnunarinnar CEPOS í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt við Kaupmannahafnarháskóla og Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, er höfundur nokkurra bóka og er félagi í Mont Pelerin samtökunum, alþjóðasamtökum frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði vorið 1947. Verður fróðlegt að heyra mat hans á því, hvað Dönum hefur tekist — og mistekist — í fjármálum og atvinnumálum síðustu áratugi.

(Grein í Morgunblaðinu 24. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir