Laugardagur 31.03.2018 - 09:38 - Lokað fyrir ummæli

Hvað segi ég í Las Vegas?

Mánudaginn 2. apríl 2018 flyt ég erindi um íslenska bankahrunið á alþjóðlegri ráðstefnu APEE, Association of Private Enterprise Education, í Las Vegas í Nevada-ríki. Málstofan, sem ég sæki, er helguð peningum og bankamálum. Þar munu aðrir fyrirlesarar meðal annars ræða um, hvort afnema megi brotaforðakerfi (fractional reserves) banka til að koma í veg fyrir útþenslu þeirra og peningaprentun.

Í erindi mínu nálgast ég vandann úr annarri átt. Fyrsti lærdómurinn af bankahruninu íslenska er, að það þarf ekki nauðsynlega að vera slæmt fyrir hagkerfið, að bönkum sé ekki bjargað með skattfé almennings. Ísland dafnar vel.

Annar lærdómurinn er, að í öngum sínum haustið 2008 fundu Íslendingar úrræði: Það var, að ríkið ábyrgðist ekki bankainnstæður, heldur veitti innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka. Áhyggjuefnið í fjármálakreppu er síður eigendur bankanna og aðrir lánardrottnar en innstæðueigendur.

Þriðji lærdómurinn er, að afnema má ríkisábyrgð á innstæðum, ef innstæðueigendur hafa að lögum forgangskröfur í bú banka. Þá munu aðrir lánveitendur banka taka öruggari veð en nú gerist, og þeir fara gætilegar og þenjast ekki stjórnlaust út. Ríkisábyrgð skapar freistnivanda: Þegar vel gengur, hirðir bankinn ávinninginn. Þegar illa gengur, bera skattgreiðendur kostnaðinn.

Fjórði lærdómurinn er, að óbundið vald verður alltaf misnotað, eins og breska Verkamannaflokksstjórnin misnotaði hryðjuverkalög til að reyna að beygja Íslendinga.

Fimmti lærdómurinn er, að smáþjóðir standa alltaf einar, þegar á reynir. Stórþjóðir veita þeim þá og því aðeins aðstoð, að þær sjái sér hag í því.

Sjötti lærdómurinn er, að miklu máli skipti að hafa röggsama forystu í Seðlabankanum. Fyrir bankahrun höfðu seðlabankastjórarnir margsinnis varað við útþenslu bankanna og bent á úrræði gegn henni, til dæmis flutning Kaupþings til útlanda, sölu Glitnis banka í Noregi og flutning Icesave-innstæðna Landsbankans úr útibúi í banka. Í bankahruninu beittu þeir sér fyrir afgirðingu Íslands (ring-fencing) til að takmarka áhættu, og þegar ráðherrar Samfylkingarinnar voru í öllu írafárinu hættir að hlusta á þá, sendu þeir einkaþotu eftir sérfræðingum JP Morgan, sem sannfærðu ráðherrana loks um, að þetta væri eina raunhæfa lausnin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. mars 2018.)

Flokkar: Óflokkað

»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir