Laugardagur 07.07.2018 - 10:47 - Rita ummæli

Knattspyrnuleikur eða dagheimili?

Þegar ég fylgdist með heimsmeistaramótinu í knattspyrnu 2018, rifjaðist upp fyrir mér samanburður, sem Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði á hægri- og vinstristefnu á ráðstefnu Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, 18. mars 1961. Hægrimenn teldu, að ríkið ætti að gegna svipuðu hlutverki og dómari og línuverðir í knattspyrnuleik. Það skyldi sjá um, að fylgt væri settum reglum, en leyfa einstaklingunum að öðru leyti að keppa að markmiðum sínum á sama velli. Vinstrimenn hugsuðu sér hins vegar ríkið eins og fóstru á dagheimili, sem ætti að annast um börnin, en um leið ráða yfir þeim. Alkunn hugmynd sænskra jafnaðarmanna um „folkhemmet“ er af þeirri rót runnin.

Auðvitað er hvorug líkingin fullkomin. Lífið er um það frábrugðið knattspyrnuleik, að ekki geta allir verið íþróttakappar. Börn, gamalmenni, öryrkjar og sjúklingar þarfnast umönnunar, þótt búa megi svo um hnúta með sjúkratryggingum og lífeyrissjóðum, að sumt geti þetta fólk greitt sjálft fyrir umönnun annarra. Hin líkingin er þó sýnu ófullkomnari. Með skiptingunni í fóstrur og börn er gert ráð fyrir, að einn hópur hafi yfirburðaþekkingu, sem aðra vanti, svo að hann skuli stjórna og aðrir hlýða. Sú er hins vegar ekki reyndin í mannlegu samlífi, þar sem þekkingin dreifist á alla mennina.

Vinstrimenn hafa því margir horfið frá hugmyndinni um ríkið sem barnfóstru. Þeir viðurkenna, að lífið sé miklu líkara knattspyrnuleik en barnaheimili. En þeir vilja ekki láta sér nægja eins og hægrimenn að jafna rétt allra til að keppa á vellinum, heldur krefjast þess líka, að niðurstöður verði jafnaðar. Ef eitt lið skorar átta mörk og annað tvö, þá vilja vinstrimenn flytja þrjú mörk á milli, svo að fimm mörk séu skráð hjá báðum. Hægrimenn benda á það á móti, að þá dragi mjög úr hvatningunni til að leggja sig fram, jafnframt því sem upplýsingar glatast um, hverjir séu hæfastir. Það er einmitt tilgangur sérhverrar keppni að komast að því, hver skari fram úr hvar, svo að ólíkir og misjafnir hæfileikar þeirra geti nýst sem best.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júlí 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir