Laugardagur 11.08.2018 - 17:43 - Rita ummæli

Engin vanræksla

Sárt er að sjá grandvaran embættismann, Ingimund Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sæta ómaklegum árásum fyrir það, að Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi norska seðlabankans og falið honum ýmis verkefni, sem hann er manna best fær um að leysa. Stundin segir Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hann og hinir tveir seðlabankastjórarnir fyrir bankahrun hafi gerst sekir um vanrækslu.

Fyrra málið var, að Landsbankinn bað um stórkostlega, leynilega gjaldeyrisfyrirgreiðslu í ágúst 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni, enda voru upphæðirnar stórar og aðgerðin sennilega ólögleg. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að rannsaka betur fjárhag Landsbankans. Bankastjórarnir bentu hins vegar á, að þeir höfðu ekkert vald til þess að rannsaka fjárhag bankans. Fjármálaeftirlitið fór með það vald.

Seinna málið var, að Glitnir bað um stórt gjaldeyrislán í september 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að afla frekari upplýsinga um fjárhag Glitnis. Enn bentu bankastjórarnir á, að þeir höfðu ekkert vald til að rannsaka fjárhag bankans.

Sjálfar ákvarðanirnar, sem seðlabankastjórarnir tóku, voru með öðrum orðum taldar eðlilegar, en Rannsóknarnefndin var þeirrar skoðunar, að þeim hefðu átt að fylgja minnisblöð og útreikningar. Þetta sýnir takmarkað veruleikaskyn. Um allan heim voru seðlabankastjórar og fjármálaráðherrar þessa dagana að taka mikilvægar ákvarðanir, sem þoldu enga bið. Fleiri minnisblöð og frekari útreikningar hefðu hvort sem engu breytt um bankahrunið.

Málsvörn seðlabankastjóranna hlaut óvæntan stuðning eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur, þegar hún hafði frumkvæði að því árið 2013, á meðan hún sinnti fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, að Alþingi samþykkti lög um auknar heimildir Seðlabankans til að óska upplýsinga frá fjármálastofnunum.

Danska Rangvad-nefndin, sem rannsakaði fjármálakreppuna þar, komst að þeirri niðurstöðu, að danska seðlabankann hefði skort valdheimildir til að stöðva vöxt bankanna þar í landi. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna í fjármálakreppunni, kvartaði undan því í endurminningum sínum, að hann hefði ekki haft nægar heimildir til að óska eftir upplýsingum um fjármálastofnanir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir