Sárt er að sjá grandvaran embættismann, Ingimund Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sæta ómaklegum árásum fyrir það, að Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi norska seðlabankans og falið honum ýmis verkefni, sem hann er manna best fær um að leysa. Stundin segir Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hann og hinir tveir seðlabankastjórarnir fyrir bankahrun hafi gerst sekir um vanrækslu.
Fyrra málið var, að Landsbankinn bað um stórkostlega, leynilega gjaldeyrisfyrirgreiðslu í ágúst 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni, enda voru upphæðirnar stórar og aðgerðin sennilega ólögleg. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að rannsaka betur fjárhag Landsbankans. Bankastjórarnir bentu hins vegar á, að þeir höfðu ekkert vald til þess að rannsaka fjárhag bankans. Fjármálaeftirlitið fór með það vald.
Seinna málið var, að Glitnir bað um stórt gjaldeyrislán í september 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að afla frekari upplýsinga um fjárhag Glitnis. Enn bentu bankastjórarnir á, að þeir höfðu ekkert vald til að rannsaka fjárhag bankans.
Sjálfar ákvarðanirnar, sem seðlabankastjórarnir tóku, voru með öðrum orðum taldar eðlilegar, en Rannsóknarnefndin var þeirrar skoðunar, að þeim hefðu átt að fylgja minnisblöð og útreikningar. Þetta sýnir takmarkað veruleikaskyn. Um allan heim voru seðlabankastjórar og fjármálaráðherrar þessa dagana að taka mikilvægar ákvarðanir, sem þoldu enga bið. Fleiri minnisblöð og frekari útreikningar hefðu hvort sem engu breytt um bankahrunið.
Málsvörn seðlabankastjóranna hlaut óvæntan stuðning eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur, þegar hún hafði frumkvæði að því árið 2013, á meðan hún sinnti fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, að Alþingi samþykkti lög um auknar heimildir Seðlabankans til að óska upplýsinga frá fjármálastofnunum.
Danska Rangvad-nefndin, sem rannsakaði fjármálakreppuna þar, komst að þeirri niðurstöðu, að danska seðlabankann hefði skort valdheimildir til að stöðva vöxt bankanna þar í landi. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna í fjármálakreppunni, kvartaði undan því í endurminningum sínum, að hann hefði ekki haft nægar heimildir til að óska eftir upplýsingum um fjármálastofnanir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.)
Rita ummæli