Þriðjudagur 14.08.2018 - 18:27 - Rita ummæli

Bréfaskipti vegna skýrslu til fjármálaráðuneytisins

Fréttablaðið hefur með tilvísun til upplýsingalaga beðið um afrit af bréfaskiptum vegna skýrslu minnar fyrir fjármálaráðuneytið. Ég hef ekkert við það að athuga, og hér eru bréfin (ég sleppi stuttum skeytum um, hvenær menn geti náð hver í annan í síma, ávörpum og kveðjuorðum o. sv. frv.).

Heiðar Örn Sigurfinnsson á RÚV sendir bréf til fjármálaráðuneytisins 14. október 2015:

Hefur Félagsvísindastofnun/Hannes Hólmsteinn skilað niðurstöðum sínum um erlenda áhrifaþætti hrunsins? Skv samningi sem við hann var gerður voru verklok áætluð í byrjun september, s. l., og þá átti lokagreiðsla að fara fram. Hvað hefur Félagsvísindastofnun/Hannes Hólmsteinn fengið greitt mikið fram á þennan dag fyrir þessa skýrslu?

Fjármálaráðuneytið framsendi þessa fyrirspurn á Félagsvísindastofnun, sem svaraði sama dag:

Því miður hafa orðið nokkrar tafir á rannsókninni sem unnin er á Rannsóknasetri í stjórnmálum og efnahagsmálum sem er eitt af fimm rannsóknasetrum sem heyra undir Félagsvísindastofnun. Tafirnar skýrast einkum af því að langan tíma hefur tekið að ná viðtölum við nokkra lykilaðila. Gert er ráð fyrir að stutti skýrslu verði skilað fyrir áramót en lokaskýrslu fljótlega eftir áramót. Í samræmi við verksamning og framvindu verksins hefur Félagsvísindastofnun/Rannsóknasetur í stjórnmálum og efnahagsmálum fengið greiddar 7,5 milljónir kr. Gert er ráð fyrir lokagreiðslu 2,5 milljónum króna þegar verkefninum lýkur með skilum á skýrslu.

Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu og Félagsvísindastofnunar bréf 2. mars 2017 vegna munnlegra fyrirspurna:

Trúnaðarmál. Þakka þér fyrir símtalið. Það var gott, að við skyldum fá tækifæri til að fara yfir málið. Eins og ég sagði þér áðan, get ég lokið þeirri 40–50 bls. skýrslu, sem kveðið var á um í samningi fjr. og Félagsvísindastofnunar, núna í fyrri hluta mars, eins og beðið var um. En sú skýrsla yrði aldrei annað en útdráttur úr langri skýrslu og rækilegri, sem ég er mjög langt kominn með, og er nú um 600 bls. Það er einmitt gott að gera slíkan útdrátt, því að hann væri góður inngangur að lengri skýrslunni. Ég vil hins vegar, að aðrir aðilar fari yfir skýrslurnar, áður en þær verða birtar. Þar er um að ræða samstarfsmenn mína, Ásgeir Jónsson, Birgi Þór Runólfsson og Eirík Bergmann. Síðan vil ég gefa þeim, sem rætt er um í skýrslunni eða skýrslunum, tækifæri til að koma með athugasemdir og ætla því að minnsta kosti mánuð. Margar ástæður eru til þess, að skýrslan hefur tafist:

1) Efnið reyndist viðameira en ég hélt.

2) Erfitt hefur verið að ná tali af ýmsum erlendis.

3) Ýmislegt efni, þ. á m. fundargerðir Englandsbanka, átti að birtast síðar en nam skýrslulokum, og var sjálfsagt að bíða eftir þeim.

4) Eðlilegt var að bíða eftir því, að þeir Ásgeir Jónsson og Eiríkur Bergmann skiluðu rannsóknaniðurstöðum sínum.

5) Mér var neitað um aðgang að gögnum, sem ég fékk síðan eftir talsvert þóf og raunar íhlutun lögmanna minna.

6) Ekkert lá sérstaklega á skýrslunni, ólíkt t. d. skýrslu RNA.

7) Bið á skilum hafði ekki í för með sér neinn aukakostnað, ólíkt skýrslu RNA og skýrslum um íbúðalánasjóð og sparisjóðakerfið.

8) Nauðsynlegt er að veita ýmsum aðgang að skýrslunni, áður en hún birtist, til að þeir geti gert athugasemdir.

9) Fullt samráð var haft við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um þennan feril, og hann hefur ekki gert neinar athugasemdir við hann. Ætlunin er að hafa tal af núverandi fjármálaráðherra eftir 21. mars, þegar ég kem til landsins.

Núna er tímaáætlun mín þessi eftir símtalið við þig áðan:

10. mars lokið 40–50 bls. skýrslu skv. samningi, sem birta má eftir yfirlestur og athugasemdir (sem ætti að taka 1–2 mánuði)
19. mars lokið útsendingum á efni fyrir ýmsa, sem vilja gera athugasemdir
8. ágúst lokið allri skýrslunni, sem birta má eftir yfirlestur og athugasemdir (sem ætti að taka 2 mánuði)

Styttri skýrsluna mætti þess vegna birta 10. maí, geri ég ráð fyrir, og hina síðari 30. september, svo að nefndar séu dagsetningar.

Ég skrifaði annað bréf til fjármálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar 16. mars 2017:

Það gengur ljómandi vel að setja saman stuttu skýrsluna, þótt auðvitað miði mér stundum hægar en ég hefði búist við, því að alltaf er ég að rekast á eitthvað nýtt eða eitthvað, sem ég hef ekki tekið eftir áður og þarf að sannreyna. Ég hygg, að það sé spurning um daga frekar en vikkur, hvenær ég lýk henni á þann hátt, að ég geti sýnt ykkur hana. En við ræðum betur um þetta, þegar ég kem heim. Ég reyni eftir megni að halda henni stuttri, en býst samt við, að hún fari að lokum eitthvað yfir mörkin í samningnum, sem var 40–50 bls. Ég hallast helst að því að fullgera hana og líka athugasemdir um alls konar vitleysu, sem haldið er fram erlendis um Ísland, og skila því, svo að það geti birst. Síðan geng ég frá lengri skýrslunni í sumar og ljúki henni í haust. Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði, sem kunna að torvelda þetta, og ræði ég þau atriði betur við ykkur, þegar ég kem heim.

Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu tölvuskeyti 23. mars 2017 með afriti til Félagsvísindastofnunar:

Ég er kominn til Íslands, og það er aðeins spurning um nokkra daga, hvenær ég lýk styttri skýrslunni. Viðaukinn var í rauninni tilbúinn fyrir löngu, þótt ég þurfi að fara aftur yfir hann, og lengri skýrslunni lýk ég síðar í sumar. Á ég ekki að hafa samband eftir nokkra daga, og við ræðum þá framhaldið?

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 24. mars 2017:

Það gengur í sjálfu sér ágætlega að ljúka skýrslunni, en alltaf verða einhverjar tafir vegna þess, að sitt hvað nýtt þarf að rannsaka. Hún er því miður orðin 168 bls. og er þó styttri útgáfan, en ég er komin að Conclusions, sem verða um 5 bls. Mjög stutt er í, að ég sendi hana í yfirlestur.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti til sömu aðila 15. maí 2017:

Ég hef í raun lokið skýrslunni, á aðeins eftir um 3 bls. Conclusions. En síðustu kaflarnir voru dálítið erfiðir, því að þeir eru um það, sem er aðalatriðið, lokun breskra banka í höndum Íslendinga og setningu hryðjuverkalaganna. Það efni verður lesið gaumgæfilegar í útlöndum en allt annað. Það er tvennt, sem vefst fyrir mér. Ég vil gjarnan vita, hvernig mannréttindadómstóllinn úrskurðar í máli Geirs Haarde, en ótrúleg bið hefur verið eftir því. Hitt er, að mér finnst eðlilegast að birta skýrsluna 8. október, sama dag og hryðjuverkalögin voru sett. Hugsanlegt er, að RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, hafi þann dag í samráði við aðra aðila ráðstefnu í Reykjavík um Iceland and the International Financial System, þar sem þeir Lord Lamont of Lerwick, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, og Leszek Balcerowicz, hagfræðiprófessor og fyrrv. seðlabankastjóri og fjármálaráðherra Póllands, flytji erindi. Þeir hafa báðir tekið því vel við mig að koma til Íslands.
Svar til fréttamanna, ef þeir spyrja, gæti hljóðað á þessa leið: Skv. upplýsingum umsjónarmanns verkefnisins, prófessors Hannesar H. Gissurarsonar, er verið að leggja lokahönd á skýrsluna, en ætlunin er að kynna hana 8. október, þegar níu ár verða liðin frá því, að Bretastjórn beitti hryðjuverkalögum á íslenskar stofnanir og fyrirtæki, enda er skýrslan aðallega um þá aðgerð. Skýrslan er á ensku og er um 200 bls. að lengd, en henni fylgja ýmsir viðaukar, sem eru talsvert lengri.
Ég hringi á eftir eða á morgun, en ég er að fara utan annað kvöld, ekki síst til að fá næði til að lesa skýrsluna vandlega yfir og skrifa lokaorðin. Félagar mínir, Ásgeir Jónsson, Birgir Þór Runólfsson og Eiríkur Bergmann, eiga eftir að lesa hana yfir, en ég sendi þeim hana á næstu dögum, og síðan ætla ég að bera allt undir þá, sem nefndir eru í skýrslunni.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 21. júní til sömu aðila:

Já, það er skriður á þessu. Ég tók tvo síðustu kaflana til rækilegrar endurskoðunar, af því að þeir voru ekki nógu skýrir og góðir að mínum dómi, en sendi á næstu dögum skýrsluna í yfirlestur. Þetta tafði dálítið verkið. Á meðan hún er í yfirlestri annarra, ætla ég að fara vel yfir tilvitnanir og leita uppi frekari athugasemdir og leiðréttingar. Ég ætla að veita öllum, sem eru nafngreindir, erlendir sem innlendir, kost á að gera athugasemdir, áður en ég set hana á Netið, og ég prenta hana ekki, fyrr en hún hefur verið á Netinu í a. m. k. mánuð, svo að menn geti gert athugasemdir. Það er allt á áætlun.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 26. september til fjármálaráðuneytisins:

Já, alveg sjálfsagt. Ég hef lokið skýrslunni fyrir nokkru, og hún er í yfirlestri og endurbótum. En ég hef fregnað, að von sé á niðurstöðu hjá mannréttindadómstólnum í máli Geirs H. Haarde öðrum hvorum megin við mánaðamótin, og ég vildi gjarnan bíða eftir því og flétta inn í skýrsluna. Þá myndi henni verða skilað (og hún birt á Netinu) frekar í lok október en 8. október, eins og við var miðað. En við skulum taka afstöðu til þess, þegar liðið er á aðra viku október. Skýrslan er 302 bls. og eins og áður hefur komið fram á ensku, en síðan verða ýmis fylgiskjöl tengd efni um Ísland erlendis, þar sem villur eru leiðréttar.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 26. september til fjármálaráðuneytisins:

Já, ég vil gjarnan ganga frá skýrslunni sem fyrst og setja á netið, en það gæti skipt dálitlu máli um niðurstöðurnar hver úrskurður MRD verður. Ég myndi í allra síðasta lagi vilja bíða fram til októberloka. Það er talsverður fjöldi manna að lesa skýrsluna yfir.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 4. nóvember 2017 til fjármálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar:

Ég er að reyna að ljúka skýrslunni, svo að setja megi hana á Netið. Það verður eftir nokkra daga. Er ekki eðlilegt, að farið sé eins með þessa skýrslu og allar aðrar, sem ráðuneytinu berast, t. d. skýrslunni frá Sveini Agnarssyni o. fl. um skatta? Það væri síðan gott að fá síðasta reikninginn greiddan strax eftir skilin. Ég vil hins vegar geta breytt ýmsu, ef menn leiðrétta einhverjar missagnir eða hæpnar fullyrðingar, enda er okkur öllum skylt að hafa það, sem sannara reyndist. Ef til vill ætti að vera rými fyrir Comments and Criticisms fyrir aftan skýrsluna. Ég skila ekki heldur alveg strax gagnrýni minni á ýmsar missagnir, sem er eins konar fylgiskjal með skýrslunni.

Ég sendi fjármálaráðuneytinu og Félagsvísindastofnun 10. nóvember 2017 afrit af bréfi, sem fylgdi með til ýmissa aðila:

Dear XAs you may know, I was commissioned by the Icelandic Ministry of Finance and Economic Affairs to write a report in English on the Icelandic bank collapse, mainly aimed at foreigners. I found it necessary to give a brief account of the chain of events leading up to the collapse, as well as of different interpretations and explanations of the crisis, in addition to an analysis of the foreign factors in the collapse. Since in the draft of the report I briefly discuss your contribution to the debate, I think it is only fair that I send the passages where I mention it to you if there is something there which is factually wrong or clearly unfair and which I would of course correct. I want, like Ari the Learned, to maintain what proves to be more true. I would like to receive any suggestions for corrections in the next few days, as the intention is to deliver the report late next week to the Ministry, whereupon it will probably be made available online. I am alone responsible for the content of the report, and neither my collaborators, nor the Institute of Social Science Research, nor the Ministry of Finance and Economic Affairs. Therefore I would like you to direct any suggestions for corrections or comments on this to me, at this email address, and not to the individuals or institutions named above.

Enn skrifaði ég Félagsvísindastofnun 10. nóvember 2017:

Ég vil gjarnan fara að skila skýrslunni. Í dag ætlaði ég að senda út til ýmissa, sem minnst er á í henni, kafla eða klausur um þá og óska eftir leiðréttingum, ef rangt er með farið. Ég geri ráð fyrir, að farið verði nákvæmlega eins með þessa skýrslu og aðrar, sem fjármálaráðuneytið hefur fengið. Ég hef ekkert á móti því, að hún sé sett á Netið strax, en taka þyrfti fram, að menn gætu komið athugasemdum og leiðréttindum á framfæri á sömu netsíðu. Best væri að setja hana á Netið í næstu viku eða um næstu helgi. Síðasti reikninginn fyrir verkið þyrfti líka að senda í fjármálaráðuneytið og greiða sem fyrst.

Fjármálaráðuneytið skrifaði Félagsvísindastofnun bréf 17. nóvember 2017.

Þann 7. júlí 2014 var undirritaður samningur milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar um gerð skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins haustið 2008. Höfundur vinnur nú að lokafrágangi skýrslunnar. Ráðuneytið hefur engin afskipti haft af gerð eða efnistökum skýrslunnar, að öðru leyti en því að undirrita þann samning sem áður er vitgnað til og felur í sér almenna lýsingu á verkefninu. Ráðuneytið hefur ekki kynnt sér skýrsludrögin, hvorki að hluta né í heild, og hyggst ekki hlutast til um eða hafa nokkur afskipti er varða efni eða efnismeðferð. Í aðdraganda verkloka hefur ráðuneytið verið upplýst um að skýrsludrögin, eða hluti þeirra, hafi verið send til umsagnar einstaklinga sem eru til umfjölllunar í skýrslunni. Þeir hafa sett fram eindregnar ábendingar um að efnistök og umfjöllum sem þá varða sé verulega áfátt og uppfylli ekki fræðilegar kröfur eða akademísk viðmið sem gera verður til háskóla eða stofnana þeirra, í þessu tilviki Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Ráðuneytið vill upplýsa Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framangreindar ábendingar til ráðuneytisins. Jafnframt er áréttað að gengið var út frá við gerð samningsins að faglegar og fræðilegar kröfur yrðu í heiðri hafðar. Er þess að lokum vænst að stofnunin annist afhendingu skýrslunnar þegar hún er fullgerð og er vísað til samningsákvæða um tímasetningar þar að lútandi.

Félagsvísindastofnun skrifaði fjármálaráðuneytinu bréf 17. nóvember 2017:

Ég mun hafa samband við Hannes og gera honum grein fyrir því að ég muni skila skýrslunni fyrir hönd stofnunarinnar þegar ég tel hana uppfylla aðferðafræðilegar kröfur Félagsvísindastofnunar. Það er ljóst að afhending skýrslunnar mun tefjast um einhverja mánuði í viðbót.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir