Kjarninn sendi nokkrar fyrirspurnir til Félagsvísindastofnunar um skýrslu mína, og finnst mér rétt, að spurningar hans og svör hennar birtist hér. Ljóst er, að Kjarninn beinir athygli sinni að aðalatriðum, eins og nafn miðilsins sýnir, en ekki neinu hismi.
Spurning: Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Hannes Hólmsteinn að hann hafi „skrifað mjög langa skýrslu og skilað henni á tilsettum tíma. Hún var um 600 blaðsíður og sá ég í samráði við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að hún væri alltof löng.“ Hvenær var 600 blaðsíðna skýrslunni skilað til Félagsvísindastofnunar?
Svar: Félagsvísindastofnun tók ekki við 600 bls. skýrslu þar sem ljóst var að það væri mun lengri skýrsla en ásættanlegt væri.
Spurning: Af hverju þurfti að skera hana niður?
Svar: Í verksamningi var gert ráð fyrir 40-50 bls. skýrslu og óskaði ég eftir því við Hannes að hann stytti hana áður en hann skilaði henni til stofnunarinnar til yfirlestrar.
Spurning: Í hverju fólst samráðið milli Félagsvísindastofnunar og Hannes Hólmsteins um styttingu skýrslunnar?
Svar: Hannes stytti skýrsluna með það að markmiði að taka út þá umfjöllun sem ekki félli undir þann verksamning sem gerður var við ráðuneytið.
Spurning: Voru sendir út afmarkaðir kaflar úr þessari útgáfu skýrslunnar til aðila sem nefndir voru í henni til að gefa þeim kost á andsvörum og athugasemdum?
Svar: Hannes sendi afmarkaða kafla úr skýrslunni til aðila sem nefndir voru í henni til að gefa þeim kost á andsvörum og athugasemdum en ég hef ekki upplýsingar um hverjir þessir aðilar voru eða hverju eða hvort þeir svöruðu.
Spurning: Er rétt að hluti þeirra hafi boðað málsóknir vegna meiðyrða ef ekki yrðu gerðar breytingar á skýrslunni?
Svar: Félagsvísindastofnun hafa ekki borist málshótanir vegna meiðyrða ef skýrslunni yrði ekki breytt.
Spurning: Hvenær var 320 blaðsíðna skýrslunni skilað inn til Félagsvísindastofnunar?
Svar: Félagsvísindastofnun barst 320 (eða 331) bls. skýrsla til yfirlestrar þann 26. janúar 2018.
Spurning: Var „þriðja atrennan“ í niðurskurði gerð í samstarfi og samráði við Félagsvísindastofnun?
Svar: Stytting á þeirri skýrslu var gerð í samráði og samstarfi við Félagsvísindastofnun.
Spurning: Er hægt að nálgast annars vegar 600 blaðsíðna útgáfuna og hins vegar 320 blaðsíðna útgáfuna?
Svar: Fyrri útgáfur skýrslunnar eru ekki aðgengilegar enda voru þær í uppkasti sem ekki var tilbúið til birtingar.
Ég hef sjálfur aðeins því að bæta við svör Félagsvísindastofnunar, að ég hef fullan hug á því að vinna úr fyrri handritum mínum og uppköstum rit til útgáfu. Ég er auðvitað fús að svara fyrirspurnum Kjarnans um dagsetningar, blaðsíðutöl og önnur mikilvæg atriði eftir föngum.
Rita ummæli