Fimmtudagur 27.09.2018 - 14:49 - Rita ummæli

Svar til Trausta Salvars Kristjánssonar blaðamanns

Trausti Salvar Kristjánsson skrifaði mér:

Sæll Hannes. Er að gera frétt uppúr Facebookfærslu almannatengils í Brussel (íslenskur) sem hefur greint heimildaskrá skýrslunar hjá þér. Hann virðist komast að þeirri niðurstöðu að aðeins hafirðu rætt við einn vinstrimann, Alistair Darling. Hann flokkar viðmælendur eftir lit, bankamenn eru rauðir, hægrimenn eru bláir og gulir eftirlitsaðilar. Ég spyr því hvort þú sért sammála greiningu hans, hvort þú vitir um stjórnmálafstöðu allra viðmælenda (eftirlits og bankamanna) og loks hvort þessir viðmælendur gefi rétta og heilsteypta mynd af atburðunum. Einnig, voru aðrir og fleiri viðmælendur í lengstu útgáfu skýrslunnar ? Kv T

Ég svaraði honum að bragði:

Væri ekki nær, að þessi ágæti almannatengill greindi rökfærslur mínar? Til dæmis þá að Bretar hafi beitt hryðjuverkalögunum að þarflausu, af því að tilskipun frá 3. október náði sama tilgangi? Eða þá að Bretar hafi mismunað eftir þjóðerni með því að loka aðeins þeim bresku bönkum, sem voru í eigu Íslendinga, en bjarga öllum öðrum bönkum? Eða þá að Bandaríkjamenn hafi veitt Sviss og Svíþjóð aðstoð, en neitað okkur um hana, þótt Sviss og Svíþjóð hafi aldrei verið bandamenn þeirra, en við verið það lengi? Eða þá að íslensku bankarnir hafi ekki reynst eiga lakara eignasafn en aðrir bankar, sem sumir hverjir hafi síðan orðið uppvísir að því að hagræða vöxtum, veita villandi upplýsingar og stunda peningaþvætti?

Þá svaraði hann:

Það er nú ekki mitt að dæma um. Ég er bara að kalla eftir viðbrögðum frá þér vegna þessar gagnrýni hans. Telurðu hana eiga rétt á sér ? Hefðir þú mátt ræða við fleiri af vinstri vængnum ?

Þá svaraði ég:

Ég fór ekki eftir stjórnmálaskoðunum í vali á viðmælendum, heldur stöðu þeirra í bankahruninu. Þess vegna ræddi ég við forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands, seðlabankastjórana þrjá og seðlabankastjóra Bretlands og Svíþjóðar og fjármálaráðherra Bretlands. Þessi ágæti almannatengill verður að koma athugasemdum á framfæri við kjósendur og ráðherra með veitingarvald, ef hann er eitthvað óánægður með val þeirra. Annars er ég alltaf reiðubúinn að ræða við vinstri menn. Þeir hafa hins vegar verið lítt fúsir til að ræða við mig. Til dæmis heilsa sumir vinstri sinnaðir kennarar í Háskólanum mér ekki einu sinni, þótt ég heilsi þeim alltaf með virktum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir