Laugardagur 24.11.2018 - 08:12 - Rita ummæli

Prag 1948

Árið 2006 kom út kennslubók í sögu Íslands og umheimsins, Nýir tímar, ætluð framhaldsskólum. Höfundarnir voru sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson. Líklega eiga þeir vanmæli (understatement) allra tíma, þegar þeir segja á bls. 227, að Stalín hafi framkvæmt samyrkjustefnu sína „í óþökk mikils hluta bænda“. Sannleikurinn er sá, að Stalín knúði bændur til samyrkju með því að svelta til bana sex milljónir manns í Úkraínu og Suður-Rússlandi, og fjöldi bænda og skylduliðs þeirra var líka fluttur nauðugur til Síberíu.

Þeir Gunnar og Sigurður segja á bls. 267 frá valdaráni kommúnista í Tékkóslóvakíu fyrir sjötíu árum: „Snemma árs 1948 viku fulltrúar samstarfsflokka kommúnista úr ríkisstjórn og kommúnistar mynduðu stjórn með nánum samherjum sínum. Þessi umskipti komu illa við marga á Vesturlöndum því að þau þóttu staðfesta að landið væri nú á óskoruðu áhrifasvæði Sovétmanna.“ Þetta er annað vanmælið. Kommúnistar fengu í samsteypustjórn eftir stríð í sinn hlut innanríkis- og varnarmálaráðuneytin og með því yfirráð yfir lögreglu og her landsins. Hófu þeir miklar hreinsanir í lögreglunni. Þegar þeir neituðu að fara eftir samþykkt meiri hluta ríkisstjórnarinnar um að ráða aftur ýmsa lögregluforingja, sem þeir höfðu rekið, og hótuðu valdbeitingu, sögðu samráðherrar þeirra af sér í febrúar 1948.

Vopnaðar sveitir kommúnista lögðu þá í skyndingu undir sig ráðuneyti hinna fyrrverandi ráðherra og hröktu burt embættismenn, sem þeir töldu sér ekki hliðholla. Kommúnistar mynduðu stjórn og tóku allt vald í sínar hendur, héldu áfram hreinsunum í lögreglu og öðrum opinberum stofnunum og breyttu Tékkóslóvakíu á nokkrum mánuðum í einræðisríki. Fjöldi manns flýði land. Í ævisögu Halldórs Kiljans Laxness segi ég frá dapurlegum örlögum tveggja tékkneskra Íslandsvina, Zdeneks Nemeceks og Emils Walters.

Sagt er að sigurvegararnir skrifi jafnan söguna. Það á ekki við á Íslandi. Þótt kalda stríðinu lyki með sigri vestrænna lýðræðisríkja yfir kommúnismanum eru íslenskir kommúnistar látnir skrifa þá sögu sem framhaldsskólanemar læra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir