Laugardagur 15.12.2018 - 10:46 - Rita ummæli

Hvað hugsuðu þeir 1. desember 1918?

Í dag gefur Almenna bókafélagið út ræðusafnið Til varnar vestrænni menningu í tilefni 100 ára fullveldis. Þrjú þeirra skálda, sem eiga þar ræður, sóttu Menntaskólann í Reykjavík veturinn 1918-1919, stóðu í Bakarabrekkunni 1. desember 1918 og horfðu á, þegar ríkisfáninn íslenski var í fyrsta sinn dreginn að hún, en um leið dundi við 21 fallbyssuskot frá dönsku varðskipi í ytri höfninni til heiðurs hinu nýja ríki.

Davíð Stefánsson minntist umræðna um sambandsmálið í baðstofunni heima í Fagraskógi nokkrum mánuðum áður: „Hver átti að ráða hér ríkjum? Íslendingar sjálfir. Þeir höfðu helgað sér landið með blóði og sveita og þúsund ára erfðum. Um það voru allir sammála, og aldrei heyrði ég rödd þjóðarinnar í þessu máli skýrari en hjá bændunum í Fagraskógarbaðstofunni.“

Tómas Guðmundsson sá roskið fólk vikna: „Enn finnst mér sem ég hafi þarna, í fyrsta og síðasta sinn á ævinni, staðið frammi fyrir þjóð, sem komin var um langan veg út úr nótt og dauða, hafði þolað ofurmannlegar raunir, en lifað af vegna þess, að hún hafði alla tíð varðveitt vonina um þennan dag í hjarta sínu.“

Guðmundur G. Hagalín hugsaði: „Hvort mundi ekki standa þarna á stjórnarráðsblettinum ósýnileg fylking – ekki aðeins frækinna foringja, heldur og hins óbreytta liðs, vaðmálsklæddra bænda og sjómanna í skinnstökkum, manna, sem þorað höfðu „Guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða,“ þá er gæfa þessarar þjóðar virtist „lút og lítilsigld“, þegar danskir höndlarar voru hjér ærið dreissugir og dönsk stjórnarvöld eygðu ekki einu sinni í ljótum draumi þá stund, sem dönsk fallstykki dunuðu til heiðurs alíslenskum fána?“

Fullveldið markaði miklu frekar aldaskil en lýðveldisstofnunin 1944. Til varð nýtt ríki 1918 og öðlaðist viðurkenningu annarra ríkja, en líklega er ekki ofsagt, að 1944 væri aðeins skipt um embættisheiti þjóðhöfðingjans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir