Til gamans birti ég hér nýleg bréfaskipti mín og Sagnfræðingafélagsins. Það hafði sent út svofellt boð um hádegisfyrirlestra:
Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins í Þjóðminjasafninu á vormisseri 2019. Í haust féll merkilegur dómur í Hæstarétti Íslands þegar fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða voru sýknaðir eftir endurupptöku málsins. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er líklega þekktasta dómsmál íslenskrar réttarsögu á 20. öld og hefur ítrekað orðið uppspretta umræðna í íslensku samfélagi um sekt, sakleysi og sannleiksgildi játninga, rannsóknir, fangelsanir og framgang réttvísinnar. Af þessu tilefni verða hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins á vormisseri 2019 helgaðir hinni margslungnu sögu réttarfars og refsinga. Tekið er við tillögum til 1. desember.
Ég sendi 1. nóvember 2018 inn eftirfarandi tillögu um erindi undir heitinu „Þrír dómar yfir mér: Greining og gagnrýni“:
Ég hef hlotið þrjá dóma. Hinn fyrsti var fyrir að reka ólöglega útvarpsstöð í verkfalli opinberra starfsmanna haustið 1984, og höfðaði ríkissaksóknari það mál að áeggjan stjórnar BSRB. Annar var útivistardómur, kveðinn upp í Bretlandi fyrir meiðyrði í garð íslensks fjáraflamanns, sem áttu að hafa fallið á ráðstefnu blaðamanna á Íslandi 1999. Hinn þriðji var dómur fyrir að brjóta gegn höfundarrétti Halldórs Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, sem kom út haustið 2003. Tveir síðari dómarnir voru í einkamálum og refsing í öllum þremur málunum ákveðin sekt, en málareksturinn úti í Bretlandi kostaði mig um 25 milljónir króna, þótt mér tækist að ógilda dóminn yfir mér þar. Allir eru þessir dómar fróðlegir. Eflaust var fyrsti dómurinn eftir bókstaf laganna, en var hann eftir anda þeirra? Var annar dómurinn til marks um það, að auðmenn geti valið sér vettvang fyrir meiðyrðamál í Bretlandi, því að meiðyrðalöggjöf er þar strangari og málarekstur kostnaðarsamari en víðast annars staðar (libel tourism)? Með hvaða rökum breytti Hæstiréttur sýknudómi Héraðsdóms í Laxness-málinu? Var þar einhver skaði fullsannaður? Þótt enginn sé dómari í eigin sök, getur verið gagnlegt að hlusta á röksemdir og gögn í gömlum málum, og hyggst ég leggja fram ýmislegt nýtt um þessa dóma. Íslenskir og breskir dómarar eru ekki fremur óskeikulir en páfinn í Róm.
Ég fékk 12. desember eftirfarandi svar:
Stjórn Sagnfræðingafélagsins hefur farið yfir innsendar tillögur fyrir hádegisfyrirlestraröðina á vormisseri 2019. Færri komast að en vildu og því miður var tillaga þín ekki samþykkt í þetta sinn. Bestu kveðjur, Kristín Svava
Auðvitað verður enginn héraðsbrestur, þótt þessu tilboði hafi verið hafnað. En ég held samt, að erindið hefði getað orðið í senn skemmtilegt og fróðlegt.
Rita ummæli