Laugardagur 22.12.2018 - 12:35 - Rita ummæli

Hrópleg þögn

Rómverski mælskugarpurinn Cicero sagði: „Cum tacent clamant.“ Með þögninni er hrópað. Og fræg eru þau ummæli dr. Björns Sigfússonar háskólabókavarðar í formála Ljósvetninga sögu, að þögnin væri fróðleg, þó að henni mætti ekki treysta um hvert einstakt atriði. Ýmis dæmi eru til á Íslandi um þögn, sem er í senn hrópleg og fróðleg.

Eitt er af íslenskum marxistum. Einhverjir þeirra hljóta að hafa vitað, að Marx og Engels minntust nokkrum sinnum á Íslendinga. Marx segir frá því í bréfi til Engels 1855, þegar hann gerði gys að hreintungustefnu Íslendinga í samtali við Bruno Bauer. Og Engels fer hinum verstu orðum um Íslendinga í bréfi til Marx 1846: Þeir „tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski.“ Hvorugt bréfið er birt í Úrvalsritum Marx og Engels, sem komu út hjá Heimskringlu í tveimur bindum 1968. Höfðu bæði bréfin þó birst í heildarútgáfu verka Marx og Engels hjá Dietz í Austur-Berlín.

Annað dæmi er af Hermanni Jónassyni og Bandaríkjamönnum. Í skeyti frá ræðismanni Bandaríkjanna á Íslandi 23. júní 1941 segir: „Forsætisráðherra óskar eftir því, að engir negrar verði í hersveitinni, sem send verður hingað.“ Þessar setningar voru felldar niður úr útgáfu Bandaríkjastjórnar 1959 á skjölum um utanríkismál, en án úrfellingarmerkis, og komst prófessor Þór Whitehead að þessu með því að skoða frumskjalið. Skiljanlegt var, að Bandaríkjastjórn skyldi ekki endurprenta orð Hermanns, en óneitanlega hefði mátt sýna það með úrfellingarmerki.

Þriðja dæmið er af Halldóri K. Laxness. Þegar Stalín gerði griðasáttmála við Hitler 1939, snerist Laxness á svipstundu frá fyrri andstöðu við nasismann og sagði, að nú væri Hitler orðinn „spakur seppi“. Hann snerist aftur 1941, eftir að Hitler rauf sáttmálann og réðst á Rússland, og skrifaði greinina „Vopnið í Ráðstjórnarríkjunum“ í ritið 25 ára ráðstjórn 1942. Þar lofaði hann vígbúnað Stalíns: „Ríki sem hefur þá lífsköllun að bera fram til sigurs dýrmætustu hugsjón mannkynsins, er aldrei ofvel vopnum búið gegn óvinum mannkynsins.“ Laxness endurprentaði aldrei þessa grein ólíkt flestum öðrum skrifum sínum. Sennilega hefur honum fundist hún rekast á friðarhjal það, sem hann og aðrir stalínistar iðkuðu eftir stríð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir