Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera notar snjalla líkingu til að lýsa vegferð okkar. Á veginum sjáum við sæmilega það, sem er framundan og nálægt okkur, viðmælendur okkar og ef til vill eitt til tvö hundruð metrum lengra. Það, sem fjær er, sést að vísu ekki í myrkri, heldur þoku. En þegar við horfum um öxl, sjáum við allt miklu skýrar þar. Þar er engin þoka. Kundera notar þessa líkingu til að brýna það fyrir okkur að dæma menn liðinna ára ekki of hart, ef þeir hafa ekki séð umhverfi sitt eins skýrt og við sjáum það.
Mér finnst líking Kunderas eiga vel við um íslenska bankahrunið 2008. Menn voru ekki vissir um, hvort bankakerfið væri sjálfbært eða ekki. Sumir fræðimenn, til dæmis Richard Portes og Frederic Mishkin að ógleymdum sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, töldu, að svo væri. Aðrir, svo sem Robert Aliber og Willem Buiter, voru annarrar skoðunar. Allir sáu þeir umhverfið í þoku, þótt sumir þeirra römbuðu á rétta spá. Sigurinn á marga feður, en ósigurinn er munaðarlaus. En ein af ástæðunum til þess, að bankakerfið féll um koll, var auðvitað, að nógu margir fóru að trúa því, að það myndi gera það, og þá rættist spáin af sjálfri sér.
Ég er á hinn bóginn ekki viss um, að líking Kunderas eigi við, þar sem hann notar hana sjálfur: að ekki eigi að fordæma þá, sem veittu alræðisstjórn kommúnista lið. Þeir, sem það gerðu hér á Íslandi, vissu mæta vel, hvernig stjórnarfarið var í kommúnistaríkjunum. Frá upphafi birti Morgunblaðið nákvæmar fréttir af kúguninni og eymdinni þar eystra, meðal annars þegar árið 1924 í greinaflokki Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla.
Sagan af flökkubörnunum sýnir það best. Morgunblaðið flutti oft fréttir af því á öndverðum fjórða áratug, að hópar hungraðra flökkubarna færu um Rússland og betluðu eða stælu sér til matar. Í ferðabókinni Í austurvegi 1932 hélt Laxness því fram, að þau væru horfin. En í Skáldatíma 1963 játaði Laxness, að hann hefðu oft séð þau á ferðum sínum: „Ég sá þessa aumíngja bera fyrir oft og mörgum sinnum, einkum í úthverfum, fáförulum almenníngsgörðum eða meðfram járnbrautarteinum.“ Flökkubörnin voru ekki falin í neinni þoku. En þá héldu sumir, að kommúnisminn myndi sigra.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2018.)
Rita ummæli