Ísland væri best allra landa, ef ekki væri fyrir veðrið og nöldrið. Líklega ætti dimmustu vetrarmánuðina að bæta við þriðja bölinu, sem okkur hrjáir, myrkrinu. En þá mætti minna á tvær nýlegar og læsilegar bækur frá Almenna bókafélaginu, Heimur batnandi fer eftir breska dýrafræðinginn og metsöluhöfundinn dr. Matt Ridley, sem situr í lávarðadeild breska þingsins, og Framfarir: Tíu ástæður til bjartsýni eftir sænska sagnfræðinginn og sjónvarpsmanninn Johan Norberg.
Ridley bendir á, að heimurinn fari ört batnandi, hvort sem litið sé á lífskjör, heilsufar og læsi eða margvíslegt minnkandi böl eins og ofbeldisglæpi og stríðsrekstur. Jörðin sé líka að grænka, minna land þurfi til matvælaframleiðslu, jafnframt því sem umhverfi manna hafi víðast verið að batna (með undantekningum eins og Kína). Einhver hlýnun jarðar hefur átt sér stað, og hún er að einhverju leyti af manna völdum, segir Ridley, en óvíst er, að hafa þurfi þungar áhyggjur af henni. Vandinn hafi verið stórlega ýktur.
Norberg vekur athygli á, að fátækt hafi víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hafi einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að feikilegur fjöldi manns hafi með stórþjóðum eins og Kínverjum og Indverjum brotist til bjargálna. Það sé frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hafi áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hafi nánast allir verið jafnfátækir. Norberg bendir á hið sama og Ridley, að heilsufar hafi batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hafi úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni geri mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum.
Ridley og Norberg styðja báðir mál sitt traustum gögnum frá viðurkenndum alþjóðastofnunum. Sjálfur nýtti ég mér verk þeirra í skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brussel árið 2017. Hún heitir „Green Capitalism“ og er aðgengileg á netinu. Nú um áramót er betra að kveikja ljós en bölva myrkrinu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2018.)
Rita ummæli