Sunnudagur 30.12.2018 - 06:35 - Rita ummæli

Heimurinn fer batnandi!

Ísland væri best allra landa, ef ekki væri fyrir veðrið og nöldrið. Líklega ætti dimmustu vetrarmánuðina að bæta við þriðja bölinu, sem okkur hrjáir, myrkrinu. En þá mætti minna á tvær nýlegar og læsilegar bækur frá Almenna bókafélaginu, Heimur batnandi fer eftir breska dýrafræðinginn og metsöluhöfundinn dr. Matt Ridley, sem situr í lávarðadeild breska þingsins, og Framfarir: Tíu ástæður til bjartsýni eftir sænska sagnfræðinginn og sjónvarpsmanninn Johan Norberg.

Ridley bendir á, að heimurinn fari ört batnandi, hvort sem litið sé á lífskjör, heilsufar og læsi eða margvíslegt minnkandi böl eins og ofbeldisglæpi og stríðsrekstur. Jörðin sé líka að grænka, minna land þurfi til matvælaframleiðslu, jafnframt því sem umhverfi manna hafi víðast verið að batna (með undantekningum eins og Kína). Einhver hlýnun jarðar hefur átt sér stað, og hún er að einhverju leyti af manna völdum, segir Ridley, en óvíst er, að hafa þurfi þungar áhyggjur af henni. Vandinn hafi verið stórlega ýktur.

Norberg vekur athygli á, að fátækt hafi víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hafi einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að feikilegur fjöldi manns hafi með stórþjóðum eins og Kínverjum og Indverjum brotist til bjargálna. Það sé frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hafi áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hafi nánast allir verið jafnfátækir. Norberg bendir á hið sama og Ridley, að heilsufar hafi batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hafi úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni geri mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum.

Ridley og Norberg styðja báðir mál sitt traustum gögnum frá viðurkenndum alþjóðastofnunum. Sjálfur nýtti ég mér verk þeirra í skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brussel árið 2017. Hún heitir „Green Capitalism“ og er aðgengileg á netinu. Nú um áramót er betra að kveikja ljós en bölva myrkrinu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir