Á dögunum var málverk í Seðlabankanum af nakinni konu tekið niður að ósk viðkvæms starfsmanns. Mynd í Menntaskólanum á Ísafirði af umdeildum fyrrverandi skólameistara var einnig fjarlægð nýlega að beiðni nemanda. Ég ætla ekki að fella hér dóm um réttmæti þessara ákvarðana, heldur aðeins minna á að brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni stendur fyrir framan hátíðarsal Háskóla Íslands.
Brynjólfur var fyrsti og eini formaður Kommúnistaflokks Íslands, sem var stofnaður í nóvember 1930 og hafði byltingu á stefnuskrá sinni, enda var rótin að klofningi kommúnista og jafnaðarmanna á öndverðri tuttugustu öld að kommúnistar voru ekki reiðubúnir að afneita ofbeldi til að ná þeim markmiðum sem hóparnir tveir deildu. Flokkurinn var í Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern, en í stefnuskrá þess frá 1920 var kveðið á um að leynilega skyldu skipulagðir hópar sem hrifsað gætu völd ef tækifæri gæfist. Áttu íslenskir kommúnistar vopnabúr og stofnuðu bardagasveit, Varnarlið verkalýðsins, sem þrammaði ósjaldan um götur Reykjavíkur á fjórða áratug og sveiflaði kylfum. Sló iðulega í harða bardaga milli kommúnista og lögreglu á þessum árum, aðallega í vinnudeilum. Flokkurinn þáði fé á laun frá Moskvu og sendi þangað 23 Íslendinga í byltingarþjálfun og þrjá sjálfboðaliða til að berjast í borgarastríðinu á Spáni.
Brynjólfur og aðrir leiðtogar íslenskra kommúnista skiptu ekki um skoðun þótt þeir legðu flokk sinn niður haustið 1938 og stofnuðu ásamt ýmsum vinstrimönnum Sósíalistaflokkinn. Höfðu kommúnistar tögl og hagldir í hinum nýja flokki, eins og kom í ljós eftir árás Stalíns á Finnland í nóvemberlok 1939. Þá voru þeir ófáanlegir til að fordæma árásina og kallaði Brynjólfur mótmæli við henni „Finnagaldur“. Brynjólfur var fulltrúi Sósíalistaflokksins á þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1952 og lauk ræðu sinni þar á orðunum: „Lifi kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna, ágætur af verkum sínum, þar sem hið undirokaða mannkyn á allt sitt traust. Lifi hinn mikli foringi hans, Stalín.“ Eftir ferð til Kína haustið 1958 dáðist Brynjólfur sérstaklega að því að nú gætu allir satt hungur sitt þar eystra. Þá var að hefjast óskapleg hungursneyð í landinu.
Samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem Háskólaútgáfan gaf út 2009, týndu um hundrað milljónir manns lífi af völdum kommúnismans á tuttugustu öld. Ef einhver rök eru til fyrir því að fjarlægja ekki brjóstmyndina af Brynjólfi þá þætti mér fróðlegt að heyra þau.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2019.)
Rita ummæli