Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir (svo sem um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), setja tvær réttlætisreglur, um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna og um jöfnuð lífsgæða, nema því aðeins að tekjumunurinn stuðli að bættum kjörum hinna verst settu. Ég benti fyrir viku á, að með því að undanskilja atvinnufrelsi í fyrri reglunni laumi Rawls eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna á stofnþinginu og að hin almenna kenning hans sé auk þess ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag komi. Hún sé varnarleikur gegn verstu kostum, gegn hugsanlegri kúgun og fátækt.
Rawls telur þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum markaðsviðskiptum, óréttláta. Hátekjumenn njóti þar til dæmis oft áskapaðra hæfileika sinna. Dreifing slíkra gæða hafi ekki verið eftir verðleikum, heldur tilviljun. Sumir fæðist hraustari, sterkari eða gáfaðri en aðrir. Hetjutenórinn hafi ekki unnið til raddar sinnar, heldur þegið hana frá náttúrunni. Menn geti auk þess aðeins notið þessara hæfileika sinna með öðru fólki, og þess vegna megi þeir ekki hirða allan afrakstur af þeim, heldur verði að deila honum með hæfileikaminna fólki samkvæmt seinni réttlætisreglunni um jöfnuð lífsgæða.
Hér er ég í senn sammála og ósammála Rawls. Hann hefur rétt fyrir sér um, að menn hafa ekki unnið til hæfileika sinna, heldur hlotið þá í vöggugjöf. En eðlilegasta hugmyndin um frelsi er, að menn eigi sjálfa sig, en séu ekki eign annarra, þrælar. Af sjálfseign þeirra leiðir, að þeir eiga hæfileika sína og öðlast þá um leið tilkall til afrakstursins af þeim. Þótt þeir hafi ekki unnið til áskapaðra hæfileika sinna, hafa þeir unnið til afrakstursins af þeim. Erfitt er eða ókleift að gera greinarmun á þeim hluta virðisins, sem er gjöf náttúrunnar, og þeim hluta, sem er framlag einstaklingsins. Hvað er áskapað og hvað áunnið? Menn leggja misjafna rækt við hæfileika sína. Rétta ráðið til þess, að þeir þroski þá, er að leyfa öðrum að njóta þeirra með þeim gegn gjaldi, en þá hljótum við að hafna þeirri forsendu Rawls, að menn eigi ekki sjálfa sig að fullu. Auk þess fæ ég ekki séð, að aðrir hafi á einhvern hátt unnið til hæfileika þeirra, sem fæðast óvenjuhraustir, sterkir eða gáfaðir. Þeir taka ekki frá mannkyni, heldur bæta við.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. febrúar 2019.)
Rita ummæli