Laugardagur 02.03.2019 - 12:39 - Rita ummæli

Rawls og Piketty (3)

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir (svo sem um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), setja tvær réttlætisreglur, um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna og um jöfnuð lífsgæða, nema því aðeins að tekjumunurinn stuðli að bættum kjörum hinna verst settu. Samkvæmt seinni reglunni eru tekjujöfnun sett efri mörk. Hún má ekki ganga svo langt, að kjör hinna verst settu versni, eins og kynni að gerast, væru skattar svo háir, að hátekjumenn hættu að skapa veruleg verðmæti.

En hvað er óréttlátt við ójafna tekjudreifingu, ef menn eru fjár síns ráðandi? Setjum svo, að á Íslandi hafi komist á tekjudreifing D1, sem þeir Rawls, Piketty og hinn íslenski lærisveinn þeirra Stefán Ólafsson telji réttláta. Nú komi gáfnaljósið og mælskusnillingurinn Milton Friedman til landsins, haldi fyrirlestur um atvinnufrelsi og selji inn á hann. 500 manns flykkist á fyrirlesturinn og greiði hver um sig 10.000 krónur í aðgangseyri. Nú hefur tekjudreifingin breyst í D2, sem er ójafnari en D1. Friedman er 5 milljónum krónum ríkari og 500 manns hver um sig 10.000 krónum fátækari. Hvar er ranglætið? Var einhver misrétti beittur? Ef til vill gramdist Stefáni, að fleiri sóttu fyrirlestur Friedmans en hans og voru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir, á sama hátt og Salieri gat ekki á heilum sér tekið vegna Mozarts í kvikmyndinni Amadeus. En fæstir hafa samúð með slíku sjónarmiði. Við þökkum flest fyrir snillinga í stað þess að kvarta undan, að þeir skyggi á undirmálsfólk.

Í þessari röksemd gegn kenningu Rawls notar bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick dæmi af körfuknattleikskappanum Wilt Chamberlain, og löngu áður hafði landi hans, rithöfundurinn William Buckley, nefnt kylfuknattleiksmanninn Joe DiMaggio í þessu sambandi. Í endursögn sinni á röksemd Nozicks notar Þorsteinn Gylfason stórsöngvarann Garðar Hólm úr skáldsögu Laxness. En aðalatriðið er hið sama í öllum dæmunum: Á frjálsum markaði er tekjudreifing samkvæmt vali. Menn fá til sín í hlutfalli við það, hversu margir velja þá, og þeir láta frá sér í hlutfalli við það, hverja þeir velja sjálfir. Hátekjumaðurinn er valinn af mörgum, lágtekjumaðurinn af fáum.

Rawls og aðrir vinstrisinnar keppast við að skipta ímynduðum kökum í sneiðar inni í bergmálsklefum háskóla. En úti í mannlífinu verður ekki gengið að neinum kökum vísum, nema bakaríin séu í fullum gangi, og það verða þau ekki, nema bakararnir fái umbun verka sinna. Jói Fel hefur efnast á því að eignast marga viðskiptavini, og það gerist ekki af sjálfu sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir