Laugardagur 09.03.2019 - 10:05 - Rita ummæli

Rawls og Piketty (4)

Tveir kunnustu hugsuðir nútímajafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir, setja þá frumreglu, að tekjudreifingin skuli vera jöfn, nema tekjumunur stuðli að bættum kjörum hinna verst settu.

Ég hygg, að Rawls takist ekki það ætlunarverk sitt að réttlæta endurdreifingu tekna. Það breytir því ekki, að vissulega má spyrja: Við hvers konar skipulag er hagur hinna verst settu líklegur til að verða sem bestur?

Til að svara þeirri spurningu má skoða hina alþjóðlegu vísitölu atvinnufrelsis, sem Fraser-stofnunin í Kanada mælir á hverju ári með aðstoð valinkunnra sérfræðinga. Í mælingunni 2018 var stuðst við tölur frá 2016. Mælt var atvinnufrelsi í 123 löndum. Hagkerfi Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjálands, Sviss og Írlands reyndust hin frjálsustu í heimi, en ófrjálsust voru hagkerfi Venesúela, Líbíu, Argentínu, Alsírs og Sýrlands (en áreiðanlegar tölur eru ekki til um hagkerfi Kúbu og Norður-Kóreu). Ef hagkerfum heims var skipt í fjóra hluta, þá kom í ljós sterk fylgni milli góðra lífskjara og víðtæks atvinnufrelsis. Meðaltekjur á mann í frjálsasta fjórðungnum voru $40.376, en í hinum ófrjálsasta $5.649 (í Bandaríkjadölum ársins 2011). Í frjálsustu hagkerfunum voru lífslíkur enn fremur lengri, heilsa betri og fátækt minni en í hinum fjórðungunum.

Rawls hefur þó mestan áhuga á hinum verst settu. Þar eru tölurnar líka afdráttarlausar. Meðaltekjur á mann í 10% tekjulægsta hópnum í frjálsasta fjórðungnum voru $10.660, en $1.345 í ófrjálsasta fjórðungnum. Með öðrum orðum voru kjör hinna tekjulægstu í frjálsasta fjórðungnum ($10.660) nær tvöfalt betri en meðaltekjur í ófrjálsasta fjórðungnum ($5.649). Fátæklingur í frjálsu hagkerfi lifir miklu betra lífi en meðalmaður í ófrjálsu hagkerfi. Niðurstaðan er ótvíræð: Jafnvel þótt við myndum samþykkja þá reglu Rawls, að ójöfn tekjudreifing réttlættist af því einu, að hagur hinna verst settu yrði við hana betri en ella, krefst reynslan þess, að við myndum velja frjálst hagkerfi, samkeppni og séreign.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir