Laugardagur 16.03.2019 - 21:18 - Rita ummæli

Frá Márusarlandi

Þegar ég skoðaði nýjustu alþjóðlegu mælinguna á atvinnufrelsi, sem er frá 2018, með tölum frá 2016, rak ég augun í þá óvæntu staðreynd að í Márusarlandi, eins og kalla mætti Mauritius, stendur eitt af tíu frjálsustu hagkerfum heims. Hin eru í Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjálandi, Sviss, Írlandi, Bandaríkjunum, Georgíu, Bretlandi, Ástralíu og Kanada (en tvö hin síðastnefndu standa jafnfætis). Márusarland er eyjaklasi langt undan austurströnd Afríku og heitir eftir Márusi af Nassau, ríkisstjóra Hollands á öndverðri sautjándu öld, en Hollendingar réðu um skeið klasanum. Seinna varð hann bresk nýlenda. Margir íbúanna eru afkomendur indverskra verkamanna, sem fluttir voru til landsins á nýlendutímanum.

Þegar íbúar eyjaklasans kröfðust sjálfstæðis eftir miðja tuttugustu öld, hafði Bretastjórn nokkrar áhyggjur af því að þeir gætu ekki staðið á eigin fótum. Breski hagfræðingurinn James E. Meade, sem var ákveðinn jafnaðarmaður og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1977, komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu til stjórnarinnar árið 1961 að framtíðarhorfur landsins væru dapurlegar. Márusarland gæti lokast inni í þeirri gildru fólksfjölgunar án hagvaxtar sem oft er kennd við breska prestinn Malthus.

VSNaipaulBresk-indverski rithöfundurinn V.S. Naipaul ferðaðist nokkrum árum síðar um Márusarland og skrifaði í nokkrum lítilsvirðingartón að það væri „yfirfull þrælakista“ þar sem allir vildu hverfa á brott. „Það var á Márusarlandi sem dodo-fuglinn týndi niður listinni að fljúga.“ Naipaul fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2001.

Eftir að Márusarland varð sjálfstætt árið 1968 var um skeið órói í landinu. Svo virtist sem hrakspár Nóbelsverðlaunahafanna tveggja gætu ræst. En þótt stjórnmálabaráttan væri hörð, náðist samkomulag um að auka atvinnufrelsi verulega og laða erlenda fjárfesta til landsins. Hagkerfið var hið 59. frjálsasta í heiminum árið 1980, en hið 8. árið 2016. Að vonum hefur hagur íbúanna vænkast síðustu áratugi, ólíkt flestum öðrum Afríkuþjóðum. Meðaltekjur í Márusarlandi árið 2017 voru samkvæmt tölum Alþjóðabankans $10.500, en það var nálægt meðaltekjum í heiminum öllum, $10.700. Meðaltekjur í Afríku voru hins vegar miklu lægri, ekki nema $1.800. Dodo-fuglinn dó út af því að hann kunni ekki að fljúga en Márusarland lifnaði við af því að það nýtti sér frelsið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir