Mánudagur 25.03.2019 - 11:34 - Rita ummæli

Ólík örlög tveggja þjóða

Hvar er fátækt fólk best komið? spyr John Rawls. Berum saman Argentínu og Ástralíu, sem ættu um margt að eiga samleið. Löndin eru stór, bæði á suðurhveli jarðar, með svipað loftslag og svipaðar auðlindir. Þau eru bæði að langmestu leyti byggð innflytjendum frá Evrópu. Árið 1900 öðlaðist Ástralía sjálfstæði innan breska samveldisins, en Argentína hafði þá lengi verið sjálfstætt ríki. Þá voru lífskjör svipuð í þessum tveimur löndum og þau þá á meðal ríkustu landa heims. Menn þurfa ekki að ganga lengi um götur Góðviðru, Buenos Aires, til að sjá, hversu auðug Argentína hefur verið í upphafi tuttugustu aldar.

Á tuttugustu öld hallaði undan fæti í Argentínu. Það er eina land heims, sem taldist þróað árið 1900 og þróunarland árið 2000. Árið 1950 voru þjóðartekjur á mann í Argentínu 84% af meðalþjóðartekjum í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Árið 1973 var hlutfallið komið niður í 65% og árið 1987 í 43%. Napur sannleikur virðist vera í þeirri sögu, að fyrst hafi Guð skapað Argentínu, en þegar hann sá, hversu örlátur hann hafði verið, ákvað hann til mótvægis að skapa Argentínumenn. Auðvitað varð landið illa úti í heimskreppunni á fjórða áratug, en svo var og um Ástralíu. Árið 2016 voru þjóðartekjur á mann í Ástralíu orðnar rösklega tvöfalt hærri en í Argentínu.

Hvað olli? Skýringarnar eru einfaldar. Órói var löngum í landinu, og lýðskrumarar og herforingjar skiptust á að stjórna, en velflestir fylgdu þeir tollverndarstefnu og reyndu líka að endurdreifa fjármunum. Hollir vindar frjálsrar samkeppni fengu ekki að leika um hagkerfið, og þegar endurdreifing fjármuna varð ríkissjóði um megn, voru prentaðir peningar, en það olli verðbólgu og enn meira ójafnvægi og óróa. Argentína er skólabókardæmi um afleiðingarnar af því að eyða orkunni í að skipta síminnkandi köku í stað þess að mynda skilyrði fyrir blómlegum bakaríum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. mars 2019.)

Línurit.Argentína.Ástralía

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir