Laugardagur 30.03.2019 - 10:50 - Rita ummæli

Tvær eyjar í hitabeltinu

Hvar er fátækt fólk best komið? spyr John Rawls. Berum saman Jamaíku og Singapúr. Bæði löndin eru eyjar í hitabeltinu og fyrrverandi nýlendur Breta.. Jamaíka öðlaðist sjálfstæði árið 1962, en Singapúr var nauðugt rekið úr Malasíu árið 1965. Þá voru þjóðartekjur á mann örlitlu hærri á Jamaíku en í Singapúr. En atvinnulíf óx hratt næstu áratugi í Singapúr og lítið sem ekkert á Jamaíku. Árið 2017 var svo komið, að þjóðartekjur á mann voru tíu sinnum hærri í Singapúr en á Jamaíka. Tífaldar!

singaporeSkýringin á velgengni Singapúr er einföld. Hagkerfið er eitt hið frjálsasta í heimi. Jafnframt stuðla siðir og venjur íbúanna, sem langflestir eru kínverskrar ættar, að veraldlegri velgengni. Lögð er áhersla á fjölskyldugildi, iðjusemi, sparsemi og hagnýta menntun. Það er eins og íbúarnir hafi allir tileinkað sér boðskapinn í frægri bók Samuels Smiles, Hjálpaðu þér sjálfur (sem kom út á íslensku 1892 og hafði holl áhrif á margt framgjarnt æskufólk). Að sama skapi eru til menningarlegar skýringar á gengisleysi Jamaíkubúa. Þar var stundað þrælahald fram á nítjándu öld, en við það hljóp óáran í mannfólkið. Þjóðskipulagið einkennist af sundurleitni og óróa, en ekki sömu samleitni, samheldni og sjálfsaga og í Singapúr.

Aðalatriðið er þó, að á Jamaíku er hagkerfið ófrjálst. Sósíalistar hrepptu völd á áttunda áratug og héldu þeim lengi. Þeir hnepptu íbúana í ósýnilega skriffinnskufjötra. Afar erfitt er að stofna og reka fyrirtæki á þessu eylandi. Fjármagn er illa skilgreint og lítt hreyfanlegt. Frumkvöðlar eru lítils metnir. Talið er, að rösklega helmingur af hugsanlegum arði þeirra hverfi í fyrirhöfn við að fylgja flóknum skattareglum. Kostnaður við að skrá fasteignir á Jamaíka er að meðaltali um 13,5% af virði þeirra, en í Bandaríkjunum er sambærileg tala 0,5%. Í Singapúr er fjármagn hins vegar kvikt og vex eðlilega. Þar er fátækt því orðin undantekning, ekki regla. Á Jamaíku er þessu öfugt farið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir