Laugardagur 13.04.2019 - 10:14 - Rita ummæli

Sósíalismi í einu landi

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru sem kunnugt er John Rawls og Thomas Piketty. Ég hef bent hér á nokkra galla á kenningu Rawls og mun á næstunni snúa mér að boðskap Pikettys. En um báða gildir, að þeir verða að gera ráð fyrir lokuðu hagkerfi, „sósíalisma í einu landi“.

Rawls getur ekki látið þá stórfelldu endurdreifingu tekna, sem hann hugsar sér til hinna verst settu, ná til allra jarðarbúa. Slík endurdreifing yrði sérhverju vestrænu ríki um megn. Til dæmis bjó árið 2017 einn milljarður manna á fátækasta svæði heims, í sólarlöndum Afríku (sunnan Sahara). Meðaltekjur þar voru 1.574 dalir. Í Bandaríkjunum bjuggu hins vegar 325 milljónir manna, og námu meðaltekjur þeirra 59.531 dal. Þess vegna takmarkar Rawls endurdreifinguna við vel stætt vestrænt ríki. Hann lokar augunum, reynir að hugsa sér réttláta niðurstöðu án sérhagsmuna, en þegar hann opnar augun aftur blasir við skipulag, sem líkist helst Cambridge í Massachusetts, þar sem hann bjó sjálfur: frjálst markaðskerfi í bjargálna ríki með nokkurri endurdreifingu fjármuna. Örsnauðir íbúar Haítí og Kongó koma ekki til álita.

Piketty verður að hafa þá ofurskatta á miklar eignir og háar tekjur, sem hann leggur til, alþjóðlega eða banna fjármagnsflutninga milli landa. Annars flytjast eignafólk og hátekjumenn frá háskattalöndum til lágskattalanda. Það er þessi hópur, sem greiðir mestalla skatta og stendur undir endurdreifingu. Til dæmis greiddi tekjuhæsti fimmtungurinn í Bandaríkjunum að meðaltali 57.700 dölum meira í skatta árið 2013 en hann fékk til baka frá ríkinu, næsttekjuhæsti fimmtungurinn 2.600 dölum meira, en hinir þrír fimmtungarnir fengu meira frá ríkinu en þeir lögðu til þess.

Þetta er kjarninn í skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni, sem komið hefur út á íslensku: Hvað gerist, ef þeir, sem skapa verðmæti, til dæmis frumkvöðlar og afburðamenn, þreytast á að deila afrakstrinum með öðrum, sem ekkert skapa, og ákveða að hafa sig þegjandi og hljóðalaust á brott? Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, kunna að vera fleygar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2019. Myndin er af Rand.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir