Föstudagur 03.05.2019 - 16:59 - Rita ummæli

Piketty: Tómlæti um fátækt

Munurinn á tveimur helstu spámönnum jafnaðarmanna á okkar dögum, John Rawls og Tómasi Piketty, er, að Rawls hefur áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Mér finnst skoðun Rawls heilbrigðari. Fátækt er böl, en auðlegð blessun. Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.

Ef til vill var þess ekki að vænta, að Piketty gerði fátækt að neinu aðalatriði, því að mjög hefur dregið úr henni í heiminum síðustu áratugi. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans bjó röskur þriðjungur mannkyns við sára fátækt eða örbirgð árið 1990. En aldarfjórðungi síðar, árið 2015, var þessi tala komin niður í einn tíunda hluta mannkyns.

Hundruð milljóna Kínverja hafa brotist úr fátækt til bjargálna vegna þess, að Kína ákvað upp úr 1980 að tengjast alþjóðakapítalismanum. En hagkerfið á meginlandi Kína er aðeins eitt af fjórum kínverskum hagkerfum. Lífskjarabætur hafa orðið miklu meiri í þeim þremur kínversku hagkerfum, sem reist eru á ómenguðum kapítalisma. Árið 2017 var landsframleiðsla á mann 57.700 Bandaríkjadalir í Singapúr, 46.200 í Hong Kong og 24.300 í Taívan, en aðeins 8.800 í Kína. Og frjálsu kínversku hagkerfin þrjú sluppu við ofsakommúnisma Maós, en í hungursneyðinni vegna „Stóra stökksins“ í Kína 1958–1962 týndu um 44 milljónir manna lífi.

Talnarunur um tekjur mega síðan ekki dylja þá staðreynd, að lífið er almennt orðið miklu þægilegra. Kjör fátæks fólks eru nú jafnvel um margt betri en kjör ríks fólks fyrir tveimur öldum vegna bíla, vatnslagna, húshitunar og húskælingar, ísskápa, síma, netsambands, ódýrra flugferða og ótal annarra lífsgæða. Venjulegur launþegi vann fyrir 186 ljósastundum (Lumen-stundum) um miðja þrettándu öld, en fyrir 8,4 milljónum árið 2018.

Lífið er ekki aðeins orðið betra, heldur lengra. Árið 1751 voru lífslíkur við fæðingu 38 ár í Svíþjóð, en árið 2016 82 ár. Árið 1838 voru lífslíkur við fæðingu 33 ár á Íslandi, en árið 2016 hinar sömu og í Svíþjóð, 82 ár. Heilsa hefur batnað og menntun aukist. Árið 1950 hafði um helmingur mannkyns aldrei gengið í skóla. Árið 2010 var þessi tala komin niður í einn sjöunda hluta mannkyns. Allt skiptir þetta máli í umræðum um auð og eklu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir