Laugardagur 04.05.2019 - 10:24 - Rita ummæli

Piketty um borð í Titanic

f90b61e9-4fc4-4e6d-87b2-bb2df47bb57fTómas Piketty, helsti spekingur jafnaðarmanna um þessar mundir, hefur miklu meiri áhyggjur af auðmönnum en fátæklingum. Hann vill ekki aðeins dalina upp, heldur líka fjöllin niður, eins og Jón Trausti hefði orðað það. Í bók sinni, Fjármagni á 21. öld, víkur Piketty að feigðarför farþegaskipsins Titanic árið 1912 og segir, að stéttaskiptingin um borð hafi endurspeglað stéttaskiptinguna í Bandaríkjunum. Þótt hinn ógeðfelldi Hockley hafi verið hugsmíð James Camerons, hefði hann getað verið til.

Líking Pikettys er hæpin. Farþegar um borð í skipi hafa keypt miða hver á sitt farrými, svo að segja má, að þeir verðskuldi hver sinn stað. Líklega voru miðarnir á þriðja farrými á Titanic einmitt ódýrari, af því að gestirnir á fyrsta farrými greiddu hátt verð fyrir sína miða. Farþegar á skipi geta sjaldnast flust milli farrýma. En í Bandaríkjunum fyrir 1914 braust fjöldi manns með dugnaði og áræðni úr fátækt í bjargálnir, eins og dæmi margra örsnauðra innflytjenda sýndi.

Hinn ógeðfelldi Hockley var ekki til. Hann var hugsmíð. En margir raunverulegir auðmenn voru farþegar á Titanic. Tveir þeirra, Benjamin Guggenheim og John Jacob Astor IV, neituðu að fara um borð í björgunarbáta, fyrr en allar konur og börn hefðu komist þangað. Báðir fórust með skipinu. Ida og Isidor Strauss, sem áttu vöruhúsakeðjuna Macy’s, voru einnig farþegar. Ida neitaði að stíga niður í björgunarbát án manns síns. Hún vildi eins og Bergþóra forðum heldur deyja í faðmi manns síns.

Fátækur skipverji, George Symons, varð hins vegar alræmdur, þegar honum var falin umsjá björgunarbáts, sem tók fjörutíu manns. Hann hleypti þangað sex öðrum skipverjum og fimm farþegum af fyrsta farrými, en lagði síðan frá. Fátækir menn þurfa ekki að vera betri en ríkir. Manngæska skiptist eftir öðru lögmáli en andstæðurnar auður og ekla.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir