Þriðjudagur 14.05.2019 - 11:24 - Rita ummæli

Piketty, auður og erfðir

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem sendi ári 2014 frá sér bókina Fjármagn á 21. öld, er átrúnaðargoð vinstri manna. Hann vill leggja ofurskatta á stóreignafólk, enda sé velmegun miklu meira áhyggjuefni en fátækt. Telur hann auð í höndum einkaaðila hafa tilhneigingu til þess við óheftan kapítalisma að hlaðast upp: hann vaxi oftast hraðar en atvinnulífið í heild.

Er þetta rétt? Bandaríska tímaritið Forbes birtir árlega lista um ríkustu milljarðamæringa heims. Árið 1987 voru sex af tíu efstu japanskir, aðallega eigendur fasteigna. Auður þeirra er nær allur horfinn. Hinir sænsku Rausing-bræður, sem voru í sjötta sæti, ávöxtuðu fé sitt betur, en þó aðeins um 2,7% á ári. Reichmann-bræður, sem voru í sjöunda sæti, urðu síðar gjaldþrota, þótt einn þeirra ætti eftir að efnast aftur. Kanadíski kaupsýslumaðurinn Kenneth Ray Thomson náði besta árangri á meðal hinna tíu ríkustu í heimi. Hann ávaxtaði fé sitt þó ekki nema um 2,9%. Hagvöxtur er oft meiri.

warren-buffett-booksSíðasti listi Forbes er frá 2018. Nú eru sjö af tíu efstu bandarískir, og sköpuðu flestir þeirra auð sinn sjálfur, þar á meðal Jeff Bezos í Amazon, Bill Gates í Microsoft, Mark Zuckerberg í Facebook og fjárfestirinn Warren Buffet. Nú er um tveir þriðju hlutar allra milljarðamæringanna á listanum menn, sem hafa skapað auð sinn sjálfir.

Þessi þróun er enn skýrari, þegar árlegur listi Lundúnablaðsins Sunday Times um þúsund ríkustu menn Bretlands er skoðaður. Árið 2018 höfðu hvorki meira né minna en 94% þeirra orðið auðugir af eigin rammleik. Þegar sá listi var fyrst birtur 1989, átti það aðeins við um 43% þeirra. Þá voru dæmigerðir auðmenn landeigendur, sem skörtuðu aðalstitli. Nú er öldin önnur.

Piketty kann að hafa rétt fyrir sér um, að hlutur auðmanna í heildartekjum sé nú stærri en áður, þótt kjör hinna fátækustu hafi vissulega um leið stórbatnað. En það er vegna þess, að heimskapítalisminn hefur gert þeim kleift að skapa auð, sem ekki var til áður. Þetta eru framkvæmdamenn og frumkvöðlar, skapendur auðs, ekki erfingjar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2019. Myndin er af Buffett.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir