Laugardagur 25.05.2019 - 08:27 - Rita ummæli

Viska og viðkvæmni í sögu Austens

Í áróðri sínum fyrir ofursköttum á auðmenn vitnar franski hagfræðingurinn Thomas Piketty óspart í skáldsögur þeirra Honorés de Balzacs og Jane Austens: Nú sé dreifing tekna og eigna að verða eins ójöfn og á dögum þeirra, á öndverðri nítjándu öld. Ég hef þegar bent á, að skáldsaga Balzacs, Faðir Goriot, er ekki um óviðráðanlega upphleðslu auðs, heldur fallvelti hans. Skáldsaga Austens, Viska og viðkvæmni (Sense and sensibility), styður ekki heldur hugmyndir Pikettys.

jane-austen-9192819-1-402Flestir þekkja eflaust þessa skáldsögu af verðlaunamynd Emmu Thompsons eftir henni. Hún er um Dashwood-systurnar þrjár, sem standa skyndilega uppi tekjulágar og eignalitlar, eftir að faðir þeirra fellur frá og eldri hálfbróðir þeirra efnir ekki loforð um að sjá fyrir þeim. Hrekjast þær ásamt móður sinni af óðalinu, þar sem þær höfðu alist upp. En þetta segir okkur ekkert um þá tekjudreifingu samkvæmt frjálsu vali á markaði, sem Piketty hefur þyngstar áhyggjur af, heldur sýnir aðeins, hversu ranglátur óðalsrétturinn forni var, þegar elsti sonur erfði ættarjörðina óskipta. Þetta sýnir líka, hversu ranglátt það var, þegar stúlkur nutu ekki erfða til jafns við syni. Nú á dögum eru báðar þessar reglur fallnar úr gildi.

Leiða má þetta í ljós með hinum kunna Gini-mælikvarða á tekjudreifingu. Þegar einn aðili í hóp hefur allar tekjurnar, er Gini-stuðullinn 1, en þegar allir í honum hafa sömu tekjur, er hann 0. Hefðu Dashwood-systurnar erft sama hlut og hálfbróðir þeirra, eins og verið hefði á okkar dögum, þá hefði Gini-stuðullinn um tekjur þeirra eða eignir verið 0. En af því að hálfbróðirinn erfði allt einn, var hann 1.

Elsta Dashwood-systirin, Elinor, er skynsöm og jarðbundin, en systir hennar, Marianne, lætur iðulega tilfinningarnar ráða. Marianne verður ástfangin af hinum glæsilega John Willoughby, sem lætur fyrst dátt við hana, en kvænist síðan til fjár, eftir að hann hafði sólundað arfi sínum, og er það eitt dæmið af mörgum úr skáldsögum Balzacs og Austens um fallvelti auðsins. Allt fer þó vel að lokum. Marianne lætur skynsemina ráða, og þær Elinor giftast mönnum, sem þær treysta. Nú á dögum hefðu þær líka haldið út á vinnumarkaðinn og orðið fjárhagslega sjálfstæðar. Kapítalisminn leysti fólk úr álögum, ekki síst konur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir