Vasílíj Grossman var einn snjallasti rithöfundur Rússlands á valdadögum kommúnista, en fátt eitt hefur verið frá honum sagt á Íslandi. Hann var af gyðingaættum, fæddist í Úkraínu 1905 og varð efnaverkfræðingur. Á fjórða áratug tók hann að gefa sig að skrifum, en gat sér fyrst orð, þegar hann gerðist stríðsfréttaritari og lýsti meðal annars aðkomunni að útrýmingarbúðum nasista. Eftir stríð gældi Stalín við gyðingaandúð og bannaði útkomu svartbókar, sem Grossman og Ílja Erenbúrg höfðu tekið saman um gyðingaofsóknir nasista. Grossman fékk ekki heldur að gefa út tvær mestu skáldsögur sínar, Líf og örlög og Allt fram streymir, því að þær þóttu fjandsamlegar kommúnismanum.
Grossman lauk við Líf og örlög 1960, fjórum árum áður en hann féll frá, ekki orðinn sextugur. Sögusviðið er að nokkru leyti Stalínsgarður 1943, þar sem alræðisríkin tvö, Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns, börðust upp á líf og dauða. Höfundur lætur þá skoðun oftar en einu sinni í ljós, að nasismi og kommúnismi séu greinar af sama meiði. Hann veltir mjög fyrir sér því furðulega fyrirbæri tuttugustu aldar, að menn fremja hryllilega glæpi í nafni háleitra hugsjóna. Ein söguhetjan, rússneski stríðsfanginn Pavljúkov, átti sér hins vegar hversdagslegan draum:
„Frá því að ég var krakki, hefur mig langað að reka eigin búð, þar sem menn gætu keypt allt, sem þá vantaði. Með litlum veitingastað. „Jæja, núna hefurðu verslað nóg, nú skaltu fá þér bjór, smávegis af vodka, bita af grilluðu kjöti!“ Ég hefði boðið upp á sveitamat. Og ég hefði ekki sett upp hátt verð. Bakaðar kartöflur! Fitusprengt beikon með hvítlauk! Súrkál! Og veistu, hvað ég hefði látið fólk fá með drykkjunum? Merg úr beinum! Ég hefði látið þau malla í pottinum. „Jæja, nú hefurðu greitt fyrir vodkað þitt. Nú skaltu fá þér svart brauð og beinmerg!“ Og ég hefði verið með leðurstóla, svo að engin lús gæti komist að. „Þú skalt sitja þarna og láta þér líða vel, við sjáum um þig.“ Nú, ef ég hefði sagt eitt einasta orð um þetta, þá hefði ég verið sendur beina leið til Síberíu. En ég fæ ekki séð, hvernig þetta hefði skaðað nokkurn mann.“
Frjálshyggja snýst um að leyfa Pavljúkovum heimsins að reka búðirnar sínar. Hvern hefði það skaðað?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)
Rita ummæli