Laugardagur 29.06.2019 - 13:18 - Rita ummæli

Söguleg epli

Á dögunum rakst ég á skopteikningu, þar sem þjónn gengur með epli á bakka að borði, og sitja þar ýmsar kunnar söguhetjur. Fyrst skal telja þau Adam, Evu og höggorminn. Þegar höggormurinn hafði vélað Adam og Evu til að eta af skilningstrénu, kallaði Drottinn til Adams: „Hvar ertu?“ Adam varð svo hræddur, að ávöxturinn stóð í honum og Adamseplið myndaðist. Önnur saga er um þrætueplið, sem falla átti í skaut fegurstu gyðjunni grísku, og Paris af Tróju veitti Afrodítu, eftir að honum hafði verið lofuð Helena hin fagra frá Spörtu. Samkvæmt norrænni goðafræði áttu epli Iðunnar að veita goðunum eilífa æsku, þótt ekki væri ásynjan raunar sýnd á skopteikningunni, kveikju þessa mola.

Í þýska miðaldaævintýrinu um Mjallhvíti segir, að hin illa stjúpa hennar hafi eitrað epli og gefið stúpdóttur sinni, og hafi hún þá fallið í dá. Walt Disney gerði fræga teiknimynd eftir ævintýrinu, en eins og ég hef áður bent hér á, var þar fyrirmynd Mjallhvítar íslensk stúlka, Kristín Sölvadóttir. Í svissneskri þjóðsögu er frá því hermt, að árið 1307 hafi fógeti Habsborgara í Uri-fylki reiðst bogaskyttunni Vilhjálmi Tell, sem vildi ekki beygja sig undir stöng með hatti fógetans. Gaf hann Vilhjálmi kost á því að bjarga lífi sínu og sonar síns, ef hann hitti á epli, sem sett var á höfuð drengsins í hundrað skrefa fjarlægð. Vann Vilhjálmur þetta afrek og gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Svisslendinga. Minnir sagan á þátt af Hemingi Áslákssyni, sem þreytti skotfimi við Harald harðráða. Þegar hann varð hlutskarpari, reiddist konungur og skipaði Hemingi að skjóta í hnot á höfði bróður hans, og tókst honum það.

Oft hefur verið sögð sagan af Ísaki Newton, þegar epli féll á höfuð hans árið 1666, þar sem hann lá upp við tré í garði móður sinnar í Lincoln-skíri, en eftir það uppgötvaði hann þyngdarlögmálið. Stórborgin Nýja Jórvík, New York, er stundum kölluð Stóra eplið, en uppruninn mun vera í ádeiluriti frá 1909, þar sem sagt var, að þetta stóra epli drægi til sín of mikið af hinum bandaríska þjóðarsafa. Nú þekkja margir epli aðallega af tölvufyrirtækinu Apple. Steve Jobs, stofnandi þess, kveðst hafa valið nafnið, eftir að hann hafði verið nokkurn tíma á ávaxtafæði einu saman. Sér hefði fundist nafnið skemmtilegt, óáleitið og andríkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2010.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir