Laugardagur 06.07.2019 - 08:01 - Rita ummæli

Ásgeir Pétursson

Þótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.

Það þurfti kjarkmenn til að skora þetta illvíga lið á hólm. Ásgeir Pétursson, sem lést í hárri elli 24. júní 2019, var slíkur kjarkmaður. Hann var laganemi, þegar hann birti árið 1948 tímamótagrein þess efnis, að lýðræðissinnar yrðu að sameinast um að tryggja lög og reglu í landinu. Það féll síðan í hlut hans að skipuleggja varalið til stuðnings lögreglu, þegar kommúnistar gerðu sig líklega til að ráðast á Alþingishúsið 30. mars 1949 og hindra afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Tókst að hrinda þeirri árás, en ein áreiðanlegasta heimildin um atburðarásina þann örlagadag er rækilegur hæstaréttardómur frá 1950.

Sennilega er annað framtak Ásgeir síður kunnugt. Hann var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í menntamálaráðuneytinu 1953–1956, og er óhætt að segja, að þeir hafi í sameiningu skipulagt gagnsókn lýðræðissinna í menningarmálum. Þeir Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson, sem kommúnistar höfðu lagt í einelti, fengu til dæmis störf, þar sem hæfileikar þeirra fengu að njóta sín, og Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 til að búa borgaralegum rithöfundum skjól. Rek ég stuttlega þá sögu í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. desember 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Ásgeir Pétursson var einn þeirra manna, sem stóðu vörð um fullveldi Íslands, þegar á reyndi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir