Laugardagur 20.07.2019 - 18:20 - Rita ummæli

Grænn kapítalismi í Las Vegas

Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Mér var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði ég bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.

Í fyrirlestrinum gerði ég greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti ég á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.

Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti ég stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en við Íslendingar búum ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.

Úr því að ég var í Bandaríkjunum, gat ég ekki stillt mig um að gera hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess með nokkrum þjósti, að við hættum hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Ég minnti á, að á Íslandsmiðum veiðum við árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að við fóðrum hvalina á eigin kostnað, en fáum ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir