Laugardagur 03.08.2019 - 11:33 - Rita ummæli

Frá Gimli á Grynningum

Þegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.

Norðurlandaþjóðirnar búa að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar beittu sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleyptu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og má kalla það fyrstu sænsku leiðina. Velgengni Svía á tuttugustu öld hvíldi eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn lögðu inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá mátti í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hafði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Geta aðrar þjóðir lært margt af Svíum, eins og ég sagði áheyrendum mínum í Gimli á Grynningum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir