Ein fjöður getur ekki aðeins orðið að fimm hænum, eins og segir í orðtakinu. Hún getur orðið að 97 hænum. Staglast er á því í fjölmiðlum, að 97 af hundraði vísindamanna telji hnattræna hlýnun vera af manna völdum. Nú efast ég ekki um það, að hlýnað hafi síðustu áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri öld, er skólahald var stundum fellt niður í Reykjavík vegna veðurs og strætisvagnar ösluðu um á keðjum. Ég hef aðeins bent á tvennt, sem liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt, að nú muni skyndilega ekki lengur um náttúrlegar loftslagsbreytingar eins og orðið hafa frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst, að loftslagið, sem var í heiminum um og eftir 1990, þegar hlýnunin hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýnun jafnt og kólnun hafa í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar.
Uppruni staglsins um 97 vísindamenn af hundraði er í rannsókn eftir eðlisfræðinginn John Cook og fleiri, sem greint var frá í veftímariti árið 2013. Þar voru skoðaðir rösklega 11 þúsund útdrættir úr ritrýndum ritgerðum um loftslagsmál tímabilið 1991–2011. Cook og félagar héldu því fram, að samkvæmt rannsókninni teldu 97 af hundraði vísindamanna hnattræna hlýnun vera af manna völdum („97.1% endorsed the consensus position that humans are causing global warming“).
Þegar grein þeirra Cooks er skoðuð nánar, kemur þó annað í ljós, eins og eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David Friedman hefur bent á. Í tveimur þriðju hlutum ritgerðanna er engin afstaða tekin til þess, hvort hnattræn hlýnun sé af manna völdum. En hvað um þann einn þriðja hluta, þar sem afstaða er tekin? Í rannsókn sinni flokkuðu Cook og félagar ritgerðir, þar sem hnattræn hlýnun var talin af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta flokki voru ritgerðir, þar sem sagt var beint, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, og lögð fram töluleg gögn um það. Í öðrum flokki voru ritgerðir, þar sem fullyrt var, að hnattræn hlýnun væri að miklu leyti af manna völdum, án þess að sérstakar tölur væru nefndar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir, þar sem sagt var óbeint, að hnattræn hlýnun væri að einhverju leyti af manna völdum.
Af þeim ritgerðum, þar sem afstaða var tekin, voru 1,6% í fyrsta flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í þriðja flokki. Þess vegna hefði verið nákvæmara að segja, að 1,6% vísindamanna, sem birt hefðu ritrýndar ritgerðir um loftslagsmál, héldu því fram, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, en að þorri vísindamanna teldi menn hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar án þess að horfa fram hjá hlut náttúrunnar sjálfrar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2019.)
Rita ummæli