Laugardagur 17.08.2019 - 06:47 - Rita ummæli

97 hænur

Ein fjöður getur ekki aðeins orðið að fimm hænum, eins og segir í orðtakinu. Hún getur orðið að 97 hænum. Staglast er á því í fjölmiðlum, að 97 af hundraði vísindamanna telji hnattræna hlýnun vera af manna völdum. Nú efast ég ekki um það, að hlýnað hafi síðustu áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri öld, er skólahald var stundum fellt niður í Reykjavík vegna veðurs og strætisvagnar ösluðu um á keðjum. Ég hef aðeins bent á tvennt, sem liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt, að nú muni skyndilega ekki lengur um náttúrlegar loftslagsbreytingar eins og orðið hafa frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst, að loftslagið, sem var í heiminum um og eftir 1990, þegar hlýnunin hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýnun jafnt og kólnun hafa í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar.

Uppruni staglsins um 97 vísindamenn af hundraði er í rannsókn eftir eðlisfræðinginn John Cook og fleiri, sem greint var frá í veftímariti árið 2013. Þar voru skoðaðir rösklega 11 þúsund útdrættir úr ritrýndum ritgerðum um loftslagsmál tímabilið 1991–2011. Cook og félagar héldu því fram, að samkvæmt rannsókninni teldu 97 af hundraði vísindamanna hnattræna hlýnun vera af manna völdum („97.1% endorsed the consensus position that humans are causing global warming“).

Þegar grein þeirra Cooks er skoðuð nánar, kemur þó annað í ljós, eins og eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David Friedman hefur bent á. Í tveimur þriðju hlutum ritgerðanna er engin afstaða tekin til þess, hvort hnattræn hlýnun sé af manna völdum. En hvað um þann einn þriðja hluta, þar sem afstaða er tekin? Í rannsókn sinni flokkuðu Cook og félagar ritgerðir, þar sem hnattræn hlýnun var talin af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta flokki voru ritgerðir, þar sem sagt var beint, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, og lögð fram töluleg gögn um það. Í öðrum flokki voru ritgerðir, þar sem fullyrt var, að hnattræn hlýnun væri að miklu leyti af manna völdum, án þess að sérstakar tölur væru nefndar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir, þar sem sagt var óbeint, að hnattræn hlýnun væri að einhverju leyti af manna völdum.

Af þeim ritgerðum, þar sem afstaða var tekin, voru 1,6% í fyrsta flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í þriðja flokki. Þess vegna hefði verið nákvæmara að segja, að 1,6% vísindamanna, sem birt hefðu ritrýndar ritgerðir um loftslagsmál, héldu því fram, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, en að þorri vísindamanna teldi menn hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar án þess að horfa fram hjá hlut náttúrunnar sjálfrar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir