Laugardagur 24.08.2019 - 10:39 - Rita ummæli

23. ágúst 1939

Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.

Griðasáttmálinn vakti hvarvetna uppnám í röðum ráðstjórnarvina, sem höfðu löngum talið nasista höfuðandstæðinga sína. Þetta átti líka við í Sósíalistaflokknum íslenska, sem stofnaður hafði verið haustið áður við samruna vinstri sósíalista og kommúnista. Vinstri sósíalistar kröfðust þess, að flokkurinn fordæmdi landvinninga Stalíns, en kommúnistar harðneituðu. Skömmu eftir árás Hitlers á Póllandi hitti Þórbergur Þórðarson Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg. Þá sagðist Þórbergur skyldu hengja sig, ef Stalín réðist á Póllandi. Eftir árás Stalíns birti hann ámátlega varnargrein, þar sem hann sagðist hafa sagt það eitt, að hann skyldi hengja sig, ef Stalín hæfi þátttöku í stríðinu við hlið Hitlers. Halldór Kiljan Laxness skrifaði í Þjóðviljann, að það ætti að vera fagnaðarefni, ef íbúar „Vestur-Úkraínu“ eins og hann kallaði Austur-Pólland, yrðu þegnar Stalíns.

Griðasáttmálinn er til marks um, að Heimsstyrjöldin síðari var í rauninni tvö stríð. Frá hausti 1939 til sumars 1941 áttu Bretar og Frakkar í höggi við Hitler, sem var í eins konar bandalagi við Stalín. Frá sumri 1941, þegar Hitler rauf griðasáttmálann og réðst á Stalín, börðust Bretar og Rússar við Þjóðverja, en Frakkar voru úr leik. Í árslok 1941 gengu Bandaríkjamenn í lið með Bretum og Rússum, en Japanir með Þjóðverjum, og voru þá úrslitin ráðin: Enginn stenst Bandaríkin, ef þau beita sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir