Laugardagur 31.08.2019 - 08:02 - Rita ummæli

Falsfréttir á vísindavef

Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En þar segir Jón Már Halldórsson líffræðingur um regnskógana í Amasón: „Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku.“ Fréttamenn hafa síðustu daga vitnað í þessa speki í tilefni skógarelda þar syðra.

Auðvitað eru regnskógarnir ekki lungu jarðar, eins og líffræðingurinn ætti manna best að vita. Með lungunum öndum við að okkur súrefni og öndum síðan frá okkur koltvísýringi. En tré og aðrar plöntur í regnskógum og annars staðar gefa frá sér súrefni og taka til sín (binda) koltvísýring. Verkan þeirra er því þveröfug við verkan lungna.

Hvaðan fær líffræðingurinn það síðan, að 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi? Raunar virðist enginn vita, hvernig þessi tala komst á kreik, en hún er röng. Jafnvel umhverfisöfgamaður eins og Michael Mann (sem haldið hefur fyrirlestra í Háskóla Íslands) viðurkennir, að innan við 6% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi. Talan lækki, játar Mann, ef í stað skóganna er settur þar niður annar gróður, til dæmis nytjajurtir, en þær framleiða vitaskuld einnig súrefni með ljóstillífun. Raunar er líklegast, þar sem tré í skógi geta rotnað eða eyðst á annan hátt og þannig tekið til sín súrefni, að engin (eða sáralítil) nýmyndun súrefnis eigi sér þar stað. Líffræðingurinn ætti einnig að vita, að megnið af nýmyndun súrefnis í jarðarhjúpnum á sér stað í sjávargróðri, aðallega svifþörungum.

Það er líka rangt, að skógareldarnir í Amasón séu óvenjumiklir þetta árið. Þeir eru í meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár og raunar talsvert minni en skógareldar, sem geisa um þessar mundir í Afríku og Asíu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir