Sunnudagur 08.09.2019 - 13:39 - Rita ummæli

Bandaríkin ERU fjölbreytileiki

Ég kenndi nokkrum sinnum námskeiðið Bandarísk stjórnmál í félagsvísindadeild og hafði gaman af. Ég benti nemendum meðal annars á, að Guðríður Þorbjarnardóttir hefði verið fyrsta kona af evrópskum ættum til að fæða barn þar vestra, Snorra Þorfinnsson haustið 1008. Fyrirmynd Mjallhvítar í Disney-myndinni frægu hefði verið íslensk, Kristín Sölvadóttir úr Skagafirði, en unnusti hennar var teiknari hjá Disney. Eitt sinn kom Davíð Oddsson í kennslustund til okkar og sagði okkur frá þeim fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hafði hitt, Ronald Reagan, Bush-feðgum og Bill Clinton, en góð vinátta tókst með þeim Davíð, Bush yngra og Clinton. Sagði hann margar skemmtilegar sögur af þeim. Ég lét hvern nemanda námskeiðsins halda þrjú framsöguerindi, eitt um einhvern forseta Bandaríkjanna (til dæmis Jefferson eða Lincoln), annað um kvikmynd, sem sýndi ýmsar hliðar á stjórnmálum í Bandaríkjunum (til dæmis Mr. Smith goes to Washington eða JFK), hið þriðja um stef úr bandarískri sögu og samtíð (til dæmis tekjudreifingu, fjölmiðla og kvenfrelsi).

Í þessu námskeiði kom hinn mikli fjölbreytileiki þessarar fjölmennu þjóðar vel í ljós, og er hann líklega hvergi meiri. Þar er allt, frá hinu besta til hins versta, auður og örbirgð, siðavendni og gjálífi, hámenning og lágkúra og allt þar á milli, kristni, gyðingdómur, íslam og rammasta heiðni. Hvergi standa heldur raunvísindi með meiri blóma. Aðalatriðið er þó ef vill hreyfanleikinn, hin lífræna þróun, sem Alexis de Tocqueville varð svo starsýnt á forðum. Bandaríkjamenn eru alltaf að leita nýrra leiða, greiða úr vandræðum.

Bandaríkin hafa verið suðupottur. En þau hafa einnig verið segull á fólk úr öllum heimshornum, þar sem því hefur tekist að búa saman í sæmilegri sátt og skapa ríkasta land heims. Tugmilljónir örsnauðra innflytjenda brutust þar í bjargálnir. Bandaríski draumurinn rættist, því að hann var draumur venjulegs alþýðufólks um betri hag, ekki krafa menntamanna um endursköpun skipulagsins eftir hugarórum þeirra sjálfra. „Bandaríkin eru sjálf mesti bragurinn,“ orti Walt Whitman. Það var því kynlegt að sjá á dögunum fulltrúa einsleitustu þjóðar heims, Íslendinga, ota táknum um fjölbreytileika að varaforseta Bandaríkjanna í stuttri heimsókn hans til landsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir