Miðvikudagur 18.09.2019 - 22:21 - Rita ummæli

Þegar kóngur móðgaði Jónas

Í Fróðleiksmola árið 2011 velti ég því fyrir mér, hvers vegna Íslendingar settu kónginn af árið 1944, en létu sér ekki nægja að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í sínar hendur, eins og tvímælalaust var tímabært. Ein skýringin var, hversu hranalegur Kristján konungur X. gat verið við Íslendinga. Sagði ég söguna af því, hvernig hann ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: „Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi?“ Jónas á að hafa roðnað af reiði, en stillt sig og svarað: „Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.“

Um þetta atvik fór ég eftir fróðlegri ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson. En þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum, tók ég eftir því, að sögunni var á sínum tíma vísað á bug. Ein fyrsta fregnin af þessu atviki var í Morgunblaðinu 13. júlí 1930. Sagði þar, að konungur hefði vikið sér að Jónasi og heilsað honum sem hinum litla Mússólíni Íslands, þegar hann steig á land í Reykjavík 25. júní. „En Jónasi varð svo mikið um þetta ávarp, að hann kiknaði í hnjáliðunum og fór allur hjá sér. Erlendir blaðamenn og fregnritarar voru þar margir viðstaddir.“

Morgunblaðið minntist aftur á atvikið 15. ágúst, þegar það skýrði frá viðtali við Ludvig Kaaber bankastjóra í dönsku blaði. Kvaðst Kaaber hafa það eftir Jónasi sjálfum, að kóngur hefði sagt: „Þarna kemur okkar íslenski Mússólíni?“ Þá hefði Jónas svarað með bros á vör: „Mússólíni er algerlega óþarfur í því landi, sem yðar hátign stjórnar.“ Hefði kóngur látið sér svarið vel líka. En Morgunblaðið andmælti sögu Kaabers og kvað marga votta hafa verið að samtalinu á steinbryggjunni 25. júní. Sagan væri aðeins um, „hvernig Jónas eftir á hefur hugsað sér, að hann hefði viljað hafa svarað.“

Ef til vill var tilsvar Jónasar, eins og við Guðjón höfðum það eftir, aðeins dæmi um það, sem Denis Diderot kallaði „l’esprit de l’escalier“ eða andríki anddyrisins: Hið snjalla tilsvar, sem okkur dettur í hug eftir á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir