Sunnudagur 22.09.2019 - 11:49 - Rita ummæli

Góð saga er alltaf sönn

Tveir fróðir menn hafa skrifað mér um síðasta pistil minn hér í blaðinu, en hann var um fræga sögu af orðaskiptum Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur, og Jónasar Jónssonar frá Hriflu dómsmálaráðherra á steinbryggjunni í Reykjavík 25. júní 1930. Dóttursonur Jónasar, Sigurður Steinþórsson, segir afa sinn hafa sagt sér söguna svo: Konungur hafi spurt: „Så De er Islands lille Mussolini?“ Jónas hafi svarað: „I Deres rige behøves ingen Mussolini.“ Er sagan í þessari gerð mjög svipuð þeirri, sem við Guðjón Friðriksson höfum sagt í bókum okkar. Í pistli mínum rifjaði ég upp, að Morgunblaðið hefði véfengt söguna og sagt hið snjalla tilsvar Jónasar tilbúning hans. Sigurður bendir réttilega á, að Morgunblaðið fjandskapaðist mjög við Jónas um þær mundir, svo að það væri ekki áreiðanleg heimild.

Best finnst mér að vísu sagan vera eins og Ludvig Kaaber sagði hana dönskum blaðamanni eftir Jónasi þegar í ágúst 1930, og hefur hún það einnig sér til gildis, að viðtalið við Kaaber er samtímaheimild. Samkvæmt henni sagði konungur við Jónas á steinbryggjunni: „Der har vi vor islandske Mussolini?“ Þá svaraði Jónas: „En Mussolini er ganske unødvendig i et land, der regeres af Deres Majestæt.“  Góð saga er alltaf sönn, því að hún flytur með sér sannleik möguleikans. Ekki verður afsannað, að Jónas hafi sagt þetta, og vissulega gæti hann hafa sagt þetta. Tilsvarið er honum líkt.

Konungur var oft ómjúkur í orðum og virðist hafa lagt fæð á Jónas (sem var eindreginn lýðveldissinni). Hinn maðurinn, sem skrifaði mér, Borgþór Kærnested, hefur kynnt sér dagbækur konungs um Ísland. Hann segir konung hafa veitt náfrænda Tryggva Þórhallssonar og mági, Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri, áheyrn vorið 1931 og þá beðið hann að skila því til Tryggva að skipa Jónas ekki aftur ráðherra. (Jónas hafði vikið tímabundið úr ríkisstjórn eftir þingrofið það ár.) Ekki varð úr því, og þegar Jónas var skipaður aftur ráðherra, færði konungur í dagbók sína: „Menntamálaráðherra Íslands, Jónas Jónsson, mætti í áheyrn hjá mér. Ég byrjaði á að fagna komu hans og að það hefði glatt mig að geta skipað hann aftur í stöðu menntamálaráðherra Íslands.“

Verður fróðlegt að lesa væntanlega bók Borgþórs um samskipti konungs og Íslendinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir