Laugardagur 30.11.2019 - 10:50 - Rita ummæli

Frá Poitiers

Dagana 14.–15. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Poitiers í Frakklandi um Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs. Fáir kannast nú eflaust við þessi nöfn, en sjálfsævisaga Valtins, Úr álögum (Out of the Night), var metsölubók í Bandaríkjunum árið 1941 og olli áköfum deilum, því að þar sagði höfundur frá erindrekstri sínum fyrir alþjóðahreyfingu kommúnista. Fyrri hluti bókar hans kom út á íslensku sama ár. Ég ritstýrði endurprentun bókarinnar árið 2015 og samdi formála og skýringar, og var mér þess vegna boðið að halda erindi á ráðstefnunni.

Krebs fæddist árið 1905, gerðist sjómaður og kommúnisti kornungur og tók þátt í byltingartilraun í Þýskalandi árið 1923. Hann varð síðan flugumaður kommúnista á meðal sjómanna, fór víða og rataði í ýmis ævintýri, en lenti í fangelsi í Bandaríkjunum 1926 fyrir tilraun til manndráps og sat þar í þrjú ár. Síðan tók hann upp þráðinn í sjómannahreyfingu Evrópu, en eftir valdatöku Hitlers 1933 handtóku nasistar hann og pynduðu. Kommúnistar skipuðu honum að gerast gagnnjósnari innan Gestapo, og létu nasistar hann lausan árið 1937. Hélt hann til Danmerkur, en þangað hafði njósna- og undirróðursnet kommúnistahreyfingarinnar í Vestur-Evrópu verið flutt. En þegar honum var skipað að fara til Moskvu í miðjum hreinsunum Stalíns, ákvað hann að forða sér vestur um haf. Þar kynntist hann blaðamanninum Isaac Don Levine, sem sá strax efnivið í góða sögu og aðstoðaði hann við að koma út sjálfsævisögunni. Krebs lést árið 1950, aðeins hálffimmtugur að aldri.

Í erindi mínu sagði ég frá viðtökum bókar Valtins á Íslandi, en íslenskir kommúnistar deildu mjög á höfundinn, og háðu þeir Halldór Kiljan Laxness og Benjamín Eiríksson harða ritdeilu um hann og verk hans (þótt Laxness virtist ekki hafa lesið bókina). Sérstaka athygli vakti sú uppljóstrun Valtins, að skipverjar á skipum Eimskipafélagsins hefðu flutt leyniskjöl milli landa fyrir kommúnistahreyfinguna. Treysti útgefandinn, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, sér ekki til að gefa út seinni hlutann, þótt fyrri hlutinn hefði selst í röskum fjögur þúsund eintökum, og kom hann loks út á vegum „Nokkurra félaga“ árið 1944. Þótt eitthvað sé um ýkjur og ónákvæmni í bókinni, er hún sannkallaður aldarspegill og afar fjörlega skrifuð. Benti ég á, að Þór Whitehead prófessor hefði staðfest ýmsar fullyrðingar Valtins í ritum sínum um kommúnistahreyfinguna, þar á meðal um íslensku sjómennina.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir